Þú býrð í heimi þar sem gerendur kynferðisofbeldis eru þeir einu sem geta komið í veg fyrir það, en samt eru þér kenndar aðferðir til að forðast að vera nauðgað, með því að klæða þig og haga þér á ákveðinn hátt. Þessi hugsunarháttur kallast þolendaskömmun og hann elur af sér þá ranghugmynd að það sé til „rétt“ leið til að bregðast við ofbeldi. Hefðirðu bara klætt þig öðruvísi, farið aðra leið heim, ekki fengið þér í glas, barist á móti, öskrað hærra, ekki farið í sturtu, farið beint til lögreglunnar og ekki óttast afleiðingarnar – ef þú hefðir bara gert þetta, þá hefði málið endað á annan hátt. Þolendaskömmun dýpkar skömm og sjálfsásökun margra þolenda og dregur úr líkum þess að þeir tjái sig um það sem þeir urðu fyrir.
Afar fáir þolendur eiga sér einfalda sögu þar sem þeir fóru beint til lögreglunnar, skiluðu skömminni rakleiðis til gerandans, græddu sárin og héldu áfram með lífið. Fyrir flest okkar einkennist lífið í kjölfar ofbeldis af ringulreið. Mörg okkar leggjum ekki fram kæru því við erum of ráðvillt, hrædd eða óviss um að okkur verði trúað. Við kennum okkur sjálfum um og förum þráhyggjukennt yfir allt sem við hefðum getað gert öðruvísi. Við deyfum tilfinningar okkar með vímuefnum eða leitum skaðlegra leiða til að fá útrás fyrir sársaukann. Við höldum áfram að umgangast gerendur okkar og látum eins og ekkert sé, því það er of yfirþyrmandi að horfast í augu við sannleikann. Við glímum við andlega vanheilsu og áfallastreitu. Við þegjum yfir því sem kom fyrir okkur af ótta við að vera ekki trúað - eða það sem verra er, kennt um það því við gerðum eitthvað „rangt“.
„Við þegjum yfir því sem kom fyrir okkur af ótta við að vera ekki trúað - eða það sem verra er, kennt um það því við gerðum eitthvað „rangt““
Staðreyndin er hins vegar sú að það er ekki til nein „rétt viðbrögð“ við ofbeldi. Eina leiðin sem skiptir máli er þín leið, sem þú telur rétta fyrir þig. Ekki hlusta á þá sem dæma tilfinningar þínar. Þolendur sem brotna ekki niður fá að heyra að „þetta geti nú varla hafa verið svo slæmt“. Þolendur sleppa takinu á reiði sinni fá að heyra að þeir séu meðvirkir. Þolendur sem eru reiðir eru sakaðir um að eitra umhverfi sitt. Þolendur sem fyrrigefa eru sakaðir um að hafa lagt blessun sína yfir ofbeldið. Þolendur sem kæra eru sakaðir um lygar og hefndarþorsta. Þolendur sem kæra ekki eru sakaðir um að viðhalda ofbeldinu, svo dæmi séu tekin. Þótt ég hafi notið mikils stuðnings hef ég líka fengið að heyra að úrvinnsla mín á að hafa verið nauðgað sé „röng“ og jafnvel „varasöm“. Ég er í opinberri stöðu, með sterkt bakland og get fengist við gagnrýnisraddir, en ég vona að þú, elsku þolandi, takir þessi skilaboð ekki til þín og fáir þá ranghugmynd að það séu til stöðluð viðbrögð við ofbeldi. Sama hvernig þú brást við, þá var það rétt leið fyrir þig. Kannski var hún hvorki slétt né felld, einföld né skiljanleg öðrum, en það var þín aðferð til að komast yfir áfall. Hún er jafn einstök og þú sjálf/ur. Hvernig þú höndlar dýpsta sársauka þinn er undir þér einni/einum komið.
Mig langar að biðja þá, sem vilja styðja þolendur, að leggjast á eitt um að uppræta þolendaskömmunina sem felur í sér að persónuleg viðbrögð við kynferðisofbeldi séu rétt eða röng. Kannski mislíkar þér hvernig einhver vinnur úr sinni reynslu eða botnar ekkert í henni, en ef þú vilt leggja þolendum lið, þá virðirðu stjórn þeirra á eigin lífi og bataferli. Eftir að hafa verið rænd/ur stjórn í ofbeldisaðstæðum er þetta lítið en afskaplega mikilvægt framlag til að færa þolendum aftur valdið sem þeim ber. Það er það minnsta sem við getum gert.
Athugasemdir