Mikil umræða hefur verið undanfarin ár um hvort það sé góð hugmynd að leggja rafmagnsstreng til Skotlands. Flestum virðist mér lítast vel á það og hugsa þá um hagnað Landsvirkjunar af slíkri aðgerð. Oftast heyri ég talað um hvenær en ekki hvort þetta verði að veruleika.
Sjálfur hef ég verið mjög efins um þessa hugmynd og fór því að velta fyrir mér hvort hún sé gáfuleg. Eigum við að flytja græna orku til annarra landa eða nota hana sem samkeppnisforskot inn í framtíðina?
Lengi vel var Ísland eingöngu hráefnisland. Við veiddum fisk, frystum hann í blokkir, söltuðum eða hertum og seldum til þeirra sem bjuggu til verðmæti úr fisknum. Við framleiddum rafmagn sem var selt til álvera sem seldu svo óunnið álið til þeirra sem gerðu úr því meiri verðmæti. Mikið fleira annað gjaldeyrisskapandi gerðum við ekki í langan tíma og vorum ofurseld fiskverði og álverði í heiminum. Gengið var fellt í hvert skipti sem bjarga þurfti þessum atvinnugreinum frá háum launakostnaði. Þetta hagkerfi bauð ekki upp á mörg draumastörf fyrir ungt fólk sem var að mennta sig. Við erum sem betur fer ekki þarna lengur. Nú er hér fjölbreyttur atvinnuvegur með störf við flestra hæfi og þokkalega góður kaupmáttur. En við vorum þarna fyrir hálfri mannsævi.
Fyrr á árinu var ég staddur í tvær vikur í Venezuela. Það er mjög stutt síðan það land var fyrirmyndarland Suður-Ameríku. Fátækt var útrýmt og nóg var til af fjármagni vegna þess að olíuverð var hátt og Venezuela er með einar stærstu olíulindir heims. Einnig eru þar miklar námur með málmum og eðalsteinum. En hvað gerðist? Jú, olíuverð féll, gjaldmiðillinn féll, atvinnuleysi er um 50%, verðbólga yfir 1000% og sér ekki fyrir endann á henni. En við þekkjum þetta. Gengið hefur hér margsinnis fallið en í kjölfarið hefur okkur fljótlega vegnað ágætlega. Hættum að kaupa bíla í nokkur ár en höldum flest vinnunni og áður en líður á löngu erum við aftur komin á nýjan bíl og með farmiða til Spánar í vasanum. Ástæðan: framleiðsla á Íslandi verður hagkvæmari og blómstrar. Þannig vinnum við okkur iðulega til baka. En af hverju vinnur Venezuela sig ekki til baka með sama hætti? Jú, Venezuela er hráefnisland en er ekki með eigin framleiðslu. Þar hefur velgengni gengið út á að selja hráefni og rétt til að vinna hráefni til fjölda ára. Engin framleiðsla er í landinu, ekkert þróað, ekkert flutt út nema hráefni til vinnslu annars staðar. Ekki einu sinni olían er unnin í landinu. Þeir sem ekki vinna við hráefnisframleiðslu eru í hernum eða að selja eitthvað úti á götu. Gengisfellingin kemur því ekki atvinnuvegum til góða.
Viljum við vera hráefnislandið sem við eitt sinn vorum? Ef það er tilfellið þá er það góð hugmynd að flytja okkar helsta hráefni, grænt rafmagn, í streng til Skotlands. En viljum við ekki vinna eitthvað úr þessu hráefni til að tryggja hér gott samkeppnisfært hagkerfi? Nú er mikill uppgangur í gagnaverum á Íslandi, nokkur slík eru þegar komin til landsins og fleiri á leiðinni. Af hverju? Jú, hér er hagkvæmt grænt rafmagn og góð vindkæling. Ef við seljum græna rafmagnið í streng til Skotlands, er þá ekki eins gott að byggja bara gagnaverin þar?
„Það má áætla að á innan við 10 árum verði nánast allur bílafloti landsins rafmagnsbílar.“
Ísland hefur ekki samkeppnisforskot á mörgum sviðum þegar kemur að framleiðslu. Við erum eyja í Norður-Atlantshafi. Flutningskostnaður er hár, laun há, skattar háir, tækniþekking góð, stjórnkerfi í sæmilegu standi, öryggi mikið og lífsgæði mikil. Og við höfum samkeppnisforskot í formi grænnar orku. Er þá skynsamlegt fyrir aukinn hagnað hjá Landsvirkjun að selja okkar eina samkeppnisforskot til framleiðslu og rýra þar með alla aðra hagnaðarmöguleika og stöðugleika framtíðar? Það held ég ekki. Og til viðbótar bætist að þróun rafmagnsbíla er það hröð um þessar mundir að það má áætla að á innan við 10 árum verði nánast allur bílafloti landsins rafmagnsbílar. Þá þurfum við á allri orku sem við eigum í dag að halda og þurfum líklega að virkja meira bara til að knýja bílaflotann, að ekki sé talað um ef við náum að rafmagnsvæða skipaflotann okkar líka í framtíðinni. Erum við þá ekki að pissa í skóinn með því að selja rafmagn til Skotlands?
Væri ekki betra að horfa á stóru myndina og vernda þau fáu samkeppnisforskot sem Ísland hefur? Fiskurinn, náttúrufegurðin og græna rafmagnið? Ekki vera hráefnissalar heldur framleiðslu- og þjónustuhagkerfi. Ekki taka skref afturábak þegar við höfum tekið mörg skref áfram. Þá munum við eiga tryggari framtíð.
Athugasemdir