Ísland framtíðarinnar gæti litið út eins og stækkuð útgáfa af Vestmannaeyjum árið 2015.
Ef útgerðirnar Ísfélagið, Vinnslustöðin, Bergur-Huginn, Huginn og aðrar minni væru ekki í Vestmannaeyjum væri grundvöllur áframhaldandi byggðar þar tæpur nema sem einhvers konar þjónustumiðstöð fyrir ferðamenn. Þökk sé útgerðunum er atvinnuleysi hjá íbúum Vestmannaeyja nánast ekkert og fasteignaverð hefur hækkað um 70 prósent á liðnum árum. Eyjar eru og verða verstöð og lífið þar er eins konar verbúðarlíf þar sem útgerðin er hryggurinn í samfélaginu.
„Enginn býst heldur við því að næsta Plain Vanilla eða Spotify verði til í Eyjum.“
Menntunarstig í Vestmannaeyjum er hins vegar ekki hátt. Örlög Vestmannaeyja eru þau og verða að flestir Eyjamenn sem mennta sig með langskólanámi búa annars staðar þó þeir elski kannski bæinn sinn og komi í heimsókn á hátíðisdögum. Enginn býst heldur við því að næsta Plain Vanilla eða Spotify verði til í Eyjum.
En Ísland sjálft er ekki Vestmannaeyjar. Íslendingar geta gert margt annað sem þjóð en að veiða fisk í net, höndla með rafmagn í álframleiðslu og selja ferðamönnum ís eða sýna þeim hálendið í rútu þó þessar atvinnugreinar séu auðvitað mikilvægar og jákvæðar í bland við annað. Efnahagslíf á Íslandi sjálfu þarf ekki að vera byggt upp á mestmegnis þremur grunnstoðum auðlindaatvinnugreina þar sem fyrst og fremst er þörf fyrir ófaglært vinnuafl líkt og í verstöðvum fyrri alda. Þetta er bara efnahagslega hliðin; ég ætla að sleppa því að bili að ræða um menningarlegu hliðina, það hvað samfélag slíkrar fábreytni er leiðinlegt.
„Þau geta valið að sniðganga íslensku krónuna og skattaumhverfið á Íslandi á meðal fólkið í verbúðinni sem keyrir verstöðvarnar áfram getur það ekki.“
Samt virðist það vera viðvarandi draumur ríkisstjórna Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins að lífið á Íslandi verði þannig um ókomin ár fyrir þorra íbúanna. Atvinnulífið á að vera byggt upp á fiski, stóriðju og túrisma þar sem eigendur fyrirtækjanna beita ófaglærðu innlendu eða erlendu vinnuafli fyrir verstöðvarvagninn og möndla með arðinn sinn í erlendri mynt í útlöndum. Þessir flokkar virðast hafa takmarkaðan áhuga á að búa til þekkingarsamfélag þar sem reynt er að búa til hagstæðari aðstæður fyrir fyrirtæki eins og Össur og Marel, sem þó hafa orðið til á Íslandi í gegnum árin, til að mynda með upptöku annars gjaldmiðils.
Flokkarnir stóðu að því að álver Alcoa á Reyðarfirði var reist á síðasta áratug eftir byggingu Kárahnjúkavirkjunar og átti sú verksmiðja að verða einhvers konar kjarni í samfélaginu fyrir austan. Auðvitað átti fólkið á Reyðarfirði að vilja vinna í álveri. Þróunin hefur hins vegar orðið sú sumpart að Reyðarfjörður er að hluta eins og verbúð fyrir farandverkamenn sem koma frá höfuðborgarsvæðinu til að vinna í álverksmiðjunni í úthöldum.
Álfyrirtækið Alcoa, rétt eins og útgerðarfyrirtækin í Eyjum og annars staðar, stýra því svo hvar í heiminum hagnaðurinn eða tapið af starfseminni lendir, allt út frá skattalegum ástæðum. Þannig getur fyrirtækið með skattasnúningum valið hvort þeir taka hagnaðinn af starfseminni á Íslandi út í krónum sem eru skattlagðar á Íslandi eða í lágt skattaðri evrum á aflandssvæðum eins og Lúxemborg.
Stórfyrirtækin sem eru grunnstoðir íslensks atvinnulífs búa ekki bara við íslensku krónuna, eins og fólkið sem býr í landinu og vinnur í verstöðvum þeirra, heldur einnig erlenda gjaldmiðla. Þau geta valið að sniðganga íslensku krónuna og skattaumhverfið á Íslandi á meðal fólkið í verbúðinni sem keyrir verstöðvarnar áfram getur það ekki. Um þetta snýst til dæmis Samherjamálið, hvað svo sem líður ákærum eða refsiábyrgð stjórnenda útgerðarinnar.
„Nauðsyn býr til lög- eða rafmagnsvirkjun.“
Nýja ríkisstjórn flokkanna ætlar aftur að veðja á stóriðjuna - jafnvel á áburðarverksmiðjur eins og einhver hefur kallað eftir - og auðvitað útgerðina sem fyrr. Í Helguvík við Reykjanesbæ eru það að kísilverksmiðjur Thorsil og United Silicon hf., á Grundartanga er það sólarkísilverksmiðja Silicor og á Bakka er það kísilver PCC. Svo er er það spurningin með álverið á Skagaströnd.
Teknar eru ákvarðanir, sem sagðar eru óafturkræfar, um að verksmiðja Thorsil verði byggð áður en það liggur fyrir hvaðan eldsneytið á að koma sem á að kynda starfsemi hennar. Ef ákvörðunin er sögð óafturkræf þá þarf auðvitað að standa við loforðið um rafmagnið og ef aðrar lausnir eru ekki til staðar þá þarf að byggja virkjun eða virkjanir. Nauðsyn býr til lög- eða rafmagnsvirkjun.
„Þá yrði mannauðurinn einmitt í askana látinn.“
Þeir Íslendingar sem hafa aðrar hugmyndir og langanir en að búa í verbúð kvótahafa og verksmiðjuhölda fara bara eitthvert annað á endanum, til annarra landa þar sem þeir geta fengið störf við sitt hæfi. Þetta er byrjað að gerast á Íslandi og mun bara aukast ef verstöðvarstefnan verður ofan á. Verbúðin Ísland er ekkert sérlega heillandi hugmynd þó verbúðin Vestmannaeyjar virki. Eyjamenn hafa ekkert mikið val og því setja þeir flest egg sín í útgerðarkörfuna og gera það vel en Ísland sem þjóðríki og efnahagsleg heild hefur mikla fjölbreyttara val en að ákveða að landið skuli nær eingöngu vera verstöð fiskveiða, álvera og túrisma.
Og hvað gerist svo ef fiskimiðin dala snarlega - þorskurinn hverfur eins og síldin, ef álfyrirtækin leita til annarra landa eftir orku og það skrúfast fyrir ferðamannastrauminn vegna eldgosa eða einhvers annars? Hvað stendur þá eftir í lok vertíðanna?
Þá yrði mannauðurinn einmitt í askana látinn.
Stjórnvöld á Íslandi hafa enga langtímastefnu til framtíðar um hvernig landið og íbúarnir eiga að vera sem farsælastir. Þau hafa einungis skammtímastefnu sem gengur út á að keyra upp hagvöxt og hagnað fárra auðlindafyrirtækja ár frá ári til að vinna örugglega næstu kosningar á grundvelli árangursins sem birtist í skammtímatölum. Þess vegna grípa ríkisstjórnarflokkarnir alltaf strax til skyndilausna eins og fleiri virkjana og verksmiðja þegar þeir komast til valda; skyndilausna sem leiða til þess að lífið á Íslandi kann að verða eins og tilvera í verbúð á tímabundinni vertíð af því enginn hugsaði nema til fjögurra ára í senn.
Pistill sem birtist í októberblaði Stundarinnar
Athugasemdir