Í dag er dagur sem mörg okkar hafa kviðið meira en önnur. Alla vikuna hefur fólk talað um hann í lokuðum hópum á samfélagsmiðlum, sumir hafa birt stöðuuppfærslur með minningum sínum um þennan dag, sumir þegja. Fólk skiptist á símanúmerum, netföngum og sálfræðimenntaðir sjálfboðaliðar bjóða fram fagþekkingu sína til að hjálpa fólki að takast á við minningarnar sem fylgja deginum. Þessi dagur verður mörgum langur og erfiður, ekki bara í ár heldur alla þeirra daga.
Fjölmiðlar gáfu 28. október 2015 nafnið „dauðadagurinn“. Á meðal sjálfboðaliðanna er vísað til hans sem „that day“. 242 var bjargað í land, en við fáum líklega aldrei fullvissu um hversu margir fórust þennan örlagaríka dag, þegar yfirfullur trébátur sökk undan ströndum Lesbos. Talið er að um 300 manns hafi verið um borð en það veit það enginn fyrir víst. Nema kannski smyglarinn sem tók við greiðslunum fyrir farið. Hann veit sjálfsagt hve mörghundruðþúsund dollara hann náði sér í þann daginn. Farið með trébátunum er yfirleitt dýrara. Öruggara, sögðu þeir og fólk hafði ekki annarra kosta völ en að trúa þeim.
Kl 16:48 kom neyðarkallið. Allir vissu að eitthvað hræðilegt hefði gerst. Vikurnar á undan höfðu fjölmargir einstaklingar látið lífið við að reyna að komast yfir sundið, fullorðnir og börn. Sjálfboðaliðar höfðu staðið í ströngu við að halda lífinu í þeim sem björguðust. En allir vissu að nú var eitthvað annað og meira að gerast.
Ég var nýkomin heim til Íslands, en fólkið sem ég vann með, fyrir og eftir dauðadaginn, var þarna. Mér líður eins og ég hafi verið þarna líka. Og ég var þarna. Ég fór aldrei neitt, þó líkaminn væri annars staðar. Strandgæsluskipin lögðu að, eitt af öðru, með fólk í misjöfnu ástandi. Endurlífgunartilraunir. Á fundinum sem við héldum seinna til að fara yfir það sem þarna gerðist var ákveðið að það yrði að vera staður fyrir líkin næst. Það var ekki hægt að hafa þau liggjandi innan um fólk sem verið var að reyna að bjarga. Þau voru fyrir, í allri merkingu þess orðs.
Vinur minn reyndi að lífga við litla stelpu. Pínulitla, lífvana stelpu. Hann vissi vel að það var vonlaust, hún var að öllum líkindum dáin þegar komið var með hana í land. En pabbi hennar stóð yfir honum og biðlaði til þeirra einu sem veittu honum von á þessum hræðilegastu augnablikum ævi hans - vinar míns og Allah. Hann þorði ekki að hætta. Hann vildi ekki horfast í augu við staðreyndir. Það vildi reyndar ekkert okkar. Hvorki þennan dag né aðra, þar sem við horfðum upp á lítil líf slokkna, von deyja og mannúðina verða manngerðum hörmungum að bráð. Við höfum öll talað um þennan dag. Svo oft að mér líður eins og ég hafi verið nákvæmlega þarna. Ég sé fyrir mér fólk í losti, ofkælda líkama, heyri öskrin og skrjáfið í neyðarteppunum. Finn vanmáttartilfinninguna sem fylgir því að geta ekki lagað, breytt og bætt, finn lykt af sjóblautum fötum og heyri bráðaliða telja hversu oft á að hnoða.
„Verst finnst mér að vita að þau sem lifðu af eru mögulega enn ekki óhult,“ sagði ein þeirra sem var á staðnum þennan dag. Fólkið sem lifði af er enn ekki komið í skjól.
„Hæ, ég er í teymi sem er enn að vinna að því að finna og sameina fjölskyldur sem sundruðust þennan dag. Væri ykkur sama ef ég hefði samband við þau ykkar sem voruð þarna?“ Fólk játar, en allir vita að sumar þessar fjölskyldur munu aldrei sameinast aftur. Við vitum ekki hversu margir dóu. Öll skilríki glötuðust. Algjör ringulreið ríkti. Börn og foreldrar voru flutt á sjúkrahús í sitthvoru lagi, meðvitundarlaus, nafnlaus, allslaus.
Evrópa hefur fallið rækilega á mannúðarprófinu undanfarin misseri. Ítrekað hef ég heyrt fólk segja „ég vildi stundum óska að við hefðum drukknað. Aldrei grunaði okkur að svona yrði farið með okkur þar sem við héldum að væri öruggt skjól“. Ég hef kvatt nokkrar fjölskyldur í Grikklandi sem hafa fengið smyglara til að smygla sér aftur heim til Sýrlands. Ég hef reynt að telja þeim hughvarf, svarið er alltaf á sömu leið „við viljum frekar deyja heima en hér“.
Það er ekki hægt að lýsa því sem gerist innra með manni við að horfa á barn deyja. Eða að hlusta á nístandi öskur konunnar sem fæddi það í þennan heim. Horfa upp á sársauka sem engin manneskja ætti að þurfa að þola og geta ekkert gert. Pínulítili, blái líkaminn í sterkbyggðum höndum bráðaliðans á ekki séns. Sjúkrabíllinn kemur og fer, örvænting, ringulreið og sorg.
Stundum gerist slíkt af náttúrulegum orsökum og við það verður ekki ráðið. Sorgin er jafn þung og drunginn yfir dauðsfalli lítils saklaus barns er, að ég held, alltaf sá sami. En að horfa upp á lítið barn deyja af mannavöldum, tapa dauðastríðinu á bryggjukantinum í skærum flóðljósum frá strandgæslubátnum, þrátt fyrir bænir móðurinnar og hetjulegar tilraunir bráðaliðanna, fyllir mann slíkri vanmáttartilfinningu að heimurinn verður aldrei aftur eins.
Ég kann ekki nöfnin á öllum tilfinningunum sem ég hef upplifað síðastliðið ár. En undrunin er sennilega sú sterkasta. Undrunin sem maður fyllist þegar heimsmyndin fer á hliðina. Þegar orð eins og samábyrgð og mannúð hljóma eins og eitthvað sem var kannski bara misskilningur. Það rennur ýmislegt upp fyrir manni þegar leggja þarf lítinn, bláan líkama í ómerkta gröf því heimurinn brást honum. Á þeim tímapunkti er maður löngu hættur að skilja.
Á degi eins og þessum leyfi ég mér að vera reið. Ef ég myndi ekki skammta mér tíma til að vera reið, þá væri ég það alltaf. Ég reyni alla daga að bægja reiðinni frá og leyfa nytsamlegri tilfinningum að fá pláss. Tilfinningum sem drífa mig áfram og fá mig til að trúa því að við sem samfélag og við sem heimur munum gera betur. En í dag ælta ég að leyfa mér að vera reið út í þennan andskotans heim. Ég ætla að leyfa mér að vera reið yfir því hversu lítið pláss þetta neyðarástand hefur fengið í kosningabaráttunni hér heima. Ég ætla að vera reið yfir því að íslensk stjórnvöld vísi á dyr nær öllum sem hingað leita eftir friði og vernd. Ég ælta að vera öskureið yfir öllum þjáningunum sem dugleysi alþjóðasamfélagsins hefur valdið fólkinu mínu. Fólkinu okkar.
Því sama hversu stór og flókin heildarmyndin er, þá eru allar breytingar og allar úrbætur jafn nauðsynlegar. Ef við lítum ekki í eigin barm og reynum að meta hvað við getum gert, hvers vegna ættu þá aðrir að gera það?
Athugasemdir