Þegar Donald Trump rak forstjóra FBI á dögunum klingdu margar bjöllur í hugum þeirra sem muna hina dapurlegu forsetatíð Richards Nixons 1969–1974. Þótt Nixon væri miklu gáfaðri maður en Trump, þá eiga þeir sameiginlegt að skapgerðarbrestir þeirra, inngróin tortryggni og sjálfhverfur hroki gera þá óhæfa til embættis. Eins og Trump var Nixon sambland af belgingslegu sjálfsáliti og nærri ofsafenginni minnimáttarkennd.
Það er líka ýmislegt sameiginlegt með því sem nú er að gerast hjá Trump og því sem Nixon kallaði yfir þjóð sína með Watergate-málinu svokallaða.
Nixon var varaforseti Eisenhowers 1953–1961. Í forsetakosningunum 1960 munaði sáralitlu á honum og John F. Kennedy en Nixon beið að lokum lægri hlut. Hann varð svo forseti í byrjun árs 1969 og var þá langþráðu takmarki náð.
Þegar leið að forsetakosningum 1972 þurfti Nixon í rauninni ekki að hafa neinar áhyggjur. Vissulega líkaði fáum við hann persónulega. Til þess var augnaráð hans einfaldlega of flóttalegt og grunurinn um græsku of þrálátur. En almennt hafði fólk álit á honum sem hæfum stjórnanda og staðföstum leiðtoga. Efnahagurinn var ágætur og í utanríkismálum hafði Nixon unnið ýmsa góða sigra, þótt framganga hans í Víetnam-stríðinu væri vissulega mjög umdeild. Nixon átti því sigur í kosningunum í nóvember vísan. En Nixon treysti aldrei neinu. Bölsýni hans var svo inngróin í sálina að hann sá svikráð og undirferli í hverju horni og eina ráðið væri alltaf að verða fyrri til. Hann stofnaði nefnd til að annast endurkjör sitt, réði þangað óprúttna menn og gaf þeim skýrt til kynna að nú mætti beita öllum ráðum til að sigrast á þeim Demókrötum sem voguðu sér að bjóða sig fram gegn honum. Nefndin kallaðist The Committee for The Re-election of the President (Nefndin um endurkjör forsetans) og var skammstafað CRP. Vegna þess sem síðar fréttist um vinnubrögð nefndarinnar hefur hún hins vegar orðið kunn í sögunni undir ögn breyttri skammstöfun: CREEP eða „ógeðið“.
Og ógeðið tók til starfa og sveifst einskis.
Grimmilegar rógsherðir voru hafnar gegn helstu Demókrötum og símahleranir skipulagðar gegn bæði Demókrötum og ýmsum fjölmiðlamönnum sem hinn dimmleiti hugur Nixons leit á sem óvini sína. Þann 28. maí 1972 brutust nokkrir menn á vegum CREEP inn á skrifstofur Demókrataflokksins í Watergate-byggingunni í Washington og komu fyrir hlerunarbúnaði á tveimur símum. Tilgangurinn var náttúrlega að vita fyrirfram um allt það sem Demókratar ætluðu að taka sér fyrir hendur í kosningabaráttunni sem segja má að hafi verið hafin. Hlerunartækin virkuðu hins vegar ekki sem skyldi og aðfaranótt 17. júní braust fimm manna flokkur aftur inn í Watergate-húsið til að laga tækin. Flestir voru þeir kúbverskir útlagar og höfðu verið misjafnlega löghlýðnir um ævina. Einn þeirra var beinlínis tengdur CREEP sem rafeindasérfræðingur, annar hafði verið í flokki svokallaðra „pípulagningamanna“ sem var leynileg „öryggisdeild“ í Hvíta húsi Nixons. Pípararnir höfðu upphaflega það hlutverk að stöðva leka úr stjórnsýslunni en tókust svo á hendur æ óþrifalegri skítverk, einkum eftir stofnun CREEP.
Öryggisvörður í Watergate-húsinu varð var við ferðir fimmmenninganna, hringdi á lögregluna sem kom og handtók þá. Fyrir utan að sumir höfðu tengsl við CREEP fundust í fórum þeirra símanúmer hjá tveimur af helstu pípurum Nixons, Howard Hunt og G. Gordon Liddy. Báðir höfðu þeir raunar verið í húsinu nóttina örlagaríku og ætlað að stýra aðgerðum innbrotsmannanna fimm gegnum talstöðvar.
Strax um morguninn reyndi Liddy að finna dómsmálaráðherra Nixons, Richard Kleindienst, og elti hann loks uppi á golfvelli í Maryland síðar um daginn. Liddy sagði Kleindienst berum orðum að innbrotið hefði verið runnið undan rifjum CREEP og hann yrði að fyrirskipa að fimmmenningarnir yrðu strax látnir lausir, áður en tengsl þeirra við Nixon og ógeðsnefnd hans yrðu ljós. Kleindienst til hróss þvertók hann fyrir það, innbrotið yrði að hafa sinn eðlilega gang innan dómskerfisins.
Það sem nú tók við er svo löng og flókin saga að engin leið er að rekja það í smáatriðum. Innbrotið vakti ekki strax mikla athygli og í nóvember vann Nixon einhvern allra stærsta sigur sem nokkur maður hefur unnið í bandarískum forsetakosningum. Hann fékk 60,7 prósent atkvæða en hinn viðfelldni og hugsjónaríki George McGovern aðeins 37,5 prósent. Nixon hafði með dyggri aðstoð CREEP og fleiri tekist að draga þá mynd upp af McGovern að hann væri þjóðhættulegur öfgamaður til vinstri sem mætti ekki undir nokkrum kringumstæðum komast í tæri við forsetaembættið.
Hljómar kunnuglega?
En þá þegar voru samt á lofti ýmsir váboðar fyrir Nixon í Watergate-málinu. Sjálfur hafði hann ekki vitað af innbrotinu en það var þó mjög í þeim anda sem hann ætlaðist til að CREEP starfaði eftir. Og eins og síðar kom í ljós tók hann nánast frá byrjun virkan þátt í tilraunum til að hylma yfir þátt Hvíta hússins í málinu. Það má hins vegar segja bandarísku réttarfari og ekki síður bandarískum fjölmiðlum til hróss að þessi öfl stóðust þann gífurlega þrýsting sem á þau var settur frá æðstu stjórnvöldum til að þagga málið niður eða ljúka því með einhverjum málamyndagjörningi.
Þar var frægastur þáttur rannsóknarblaðamanna Washington Post, Bob Woodward og Carl Bernstein. Með dyggri hjálp leynilegs heimildarmanns, sem þeir kölluðu Deep Throat, héldu þeir sig við leistann sinn og upplýstu sífellt meira um málið og rannsókn þess. Í janúar 1973 voru Liddy og fimmmenningarnir dæmdir fyrir innbrotið í Watergate-bygginguna en þá var málið löngu hætt að snúast um þann einstaka glæp heldur yfirhylminguna sem var orðin öllum augljós, en spurningin var bara hversu hátt upp hún náði.
Þann 30. maí dró til tíðinda í Washington, rétt á meðan Nixon brá sér til Reykjavíkur að hitta Pompidou Frakklandsforseta. Tveir helstu aðstoðarmenn Nixons, H. R. Haldemann og John Erlichman, sögðu þá af sér í von um að það myndi létta þrýstingnum af Hvíta húsinu en báðir höfðu staðið í yfirhylmingunni upp fyrir haus. Þriðji aðstoðarmaðurinn, John Dean, var rekinn af því hann var ekki talinn tryggur lengur.
Og svo sagði Kleindienst dómsmálaráðherra af sér.
Í ljós kom að hann hafði gefið þinginu rangar upplýsingar um afskipti Nixons forseta af störfum sínum í allt öðru og óskyldu máli. Í hans stað tilnefndi Nixon sem dómsmálaráðherra Elliott nokkurn Richardson sem var nýlega orðinn varnarmálaráðherra en hafði áður verið heilbrigðisráðherra í þrjú ár við ágætan orðstír. Þingmenn þurftu eins og ævinlega að staðfesta tilnefningu Richardsons. Honum var gefið skýrt til kynna að það yrði ekki gert nema hann skipaði sérstakan og sjálfstæðan saksóknara í Watergate-málinu og féllst Richardson loks á það.
Þegar Nixon sá í hvað stefndi hvatti hann líka Richardson til að skipa saksóknara sem færi yfir málið í heild og kæmi því út úr heiminum. Hann fullyrti við Richardson að hann hefði ekkert um yfirhylminguna vitað. Vafalaust voru hvatningarorð Nixons meint þannig að hann ætti að skipa einhvern „þægan þjón“ í embætti saksóknarans en Richardson áttaði sig ekki á því og leitaðist fyrst og fremst við að uppfylla kröfur þingmanna um óháðan og sjálfstæðan saksóknara.
„Afskipti hans og frumkvæði að yfirhylmingunni var öllum ljós.“
Þessi embættismaður átti að vera starfsmaður dómsmálaráðuneytisins en Richardson gaf þinginu sérstakt loforð um að hann myndi ekki skipta sér af störfum þessa undirmanns síns. Saksóknarann mætti til dæmis aðeins reka úr starfi ef hann gerðist sannanlega sekur um alvarlega vanrækslu eða stórfelld afglöp í starfi.
Eftir að Richardson gaf til kynna að hann myndi skipa Archibald Cox í starfið hafði hann friðað öldurnar nóg til að þingið staðfesti tilnefningu hans sem dómsmálaráðherra 25. maí.
Cox var 61 árs og naut mikillar virðingar. Hann var þá prófessor í Harvard en hafði áður gegnt ýmsum störfum í stjórnsýslunni og var til dæmis ríkislögmaður í forsetatíð John F. Kennedys. Þá var Robert Kennedy dómsmálaráðherra og var Cox vinur og ráðgjafi bræðranna beggja. Ýmsir Demókratar höfðu áhyggjur af því að Cox væri ekki nógu harður í horn að taka en Nixon sjálfur var Richardson verulega gramur fyrir að hafa ráðið þennan mann. Tengsl Cox við Kennedy-bræðurna áttu ekki minnstan þátt í því en persónulega öfundaði Nixon og hataði þá bræður eins og pestina.
Nú tók Cox til starfa og lagði eyrun við þegar í ljós kom við yfirheyrslur í dómsmálanefnd öldungadeildar þá um sumarið að Nixon léti á laun taka upp allar samræður sínar í Hvíta húsinu.
Þessar upptökur voru í aðra röndina enn einn vottur um tortryggni Nixons. Hann vildi geta sýnt mönnum fram á hvað þeir eða aðrir höfðu einhvern tíma sagt um eitthvað. Í hina röndina ætlaði hann einfaldlega að nota upptökurnar til að skrifa sögu forsetatíðar sinnar seinna meir.
Þegar tilvist ótal segulbandsspóla með samræðum Nixons við aðstoðarmenn sína varð heyrum kunnug, þá fór Cox saksóknari vitaskuld fram á að fá afhent eintök af spólunum. Þær gætu sannað hvort og þá hve mikið Nixon sjálfur vissi um Watergate-innbrotið og yfirhylmingu þess. Nixon þvertók fyrir það og hélt ýmsu fram – spólurnar væru einkaeign, uppfull af ríkisleyndarmálum, forsetaembættið þyrfti ekki að standa neinum saksóknara reikningsskap og svo framvegis. Í marga mánuði var þvargað um þetta fyrir dómstólum sem alltaf dæmdu Nixon í óhag.
Og áfram krafðist Cox þess að fá að sjá spólurnar.
Það var komið fram á haust þegar í odda skarst. Nixon lagði 19. október fram þá tillögu að virtur en atkvæðalítill öldungadeildarmaður að nafni John Stennis yrði fenginn til að fara yfir segulböndin og semja útdrátt úr þeim köflum sem kynnu að skipta máli fyrir rannsókn málsins. Þann útdrátt en annað ekki fengi Cox í hendur.
Cox hafnaði þessu strax og hélt daginn eftir blaðamannafund þar sem hann útskýrði sjónarmið sín svo einarðlega að jafnvel harðsvíraðir blaðamenn hrifust af.
Nixon var hins vegar ekki skemmt. Það var farið að halla laugardegi 20. október þegar Nixon gerði Richardson dómsmálaráðherra boð og skipaði honum að reka Cox og leggja embætti saksóknarans undir boðvald dómsmálaráðherra. Richardson sá í hendi sér að það hefði gengið gjörsamlega í berhögg við loforð hans við Bandaríkjaþing og sagði því samstundis af sér embætti. Menn Nixons örkuðu þá á fund aðstoðarutanríkisráðherrans Williams Ruckelshaus og tilkynntu honum að nú væri hann orðinn dómsmálaráðherra og fyrsta verk hans yrði að reka Archibald Cox.
Ruckelshaus tók því fjarri og sagði samstundis af sér.
Það leið að kvöldi þegar Nixon þefaði uppi þriðja valdamesta mann dómsmálaráðuneytisins, ríkislögmanninn Robert Bork, dró hann á fund í Hvíta húsinu og sannfærði hann um að taka við þessum beiska bikar. Bork lét sig hafa það og sendi þá um kvöld bréf til Cox þar sem honum var tilkynnt að hann væri rekinn.
Jafnframt tilkynnti Hvíta húsið að embætti sérstaks saksóknara hefði verið lagt niður og skrifstofur Cox, Kleindienst og Ruckelshaus voru innsiglaðar af lögreglu í viðurvist fjölmiðla nánast eins og um morðingja væri að ræða.
Einn aðstoðarmanna Nixons, Alexander Haig hershöfðingi, sagði um ástæður þessa: „Maður breytir landinu í bananalýðveldi ef maður leyfir fólki að standa uppi í hárinu á forsetanum.“
En flestum fannst þeir einmitt vera að horfa upp á ruddaskapinn sem viðgengst í bananalýðveldum þegar þeir sáu þessar aðfarir.
Og voru ósköpin nefnd „Saturday Night Massacre“ – sem hljómar betur á ensku en íslensku: Laugardagskvöldblóðbaðið.
Nú er skemmst frá því að segja að allt kom fyrir ekki hjá Nixon. Vegna loforða Richardson við þingið gat hann ekki lagt niður embætti saksóknarans og varð að skipa í það nýjan mann, Leon Jablonski. Og sá fór þá umsvifalaust fram á að fá afhentar segulbandsspólurnar margfrægu. Svo var þá komið fyrir Nixon að Bandaríkjaforseti, valdamesti maður heims, varð að fara í viðtal og segja: „I am not a crook – Ég er ekki skrúrkur.“
En hann var skúrkur.
Þetta varð löng og flókin og ömurleg saga en þegar spólurnar fengust loks afhentar kom auðvitað í ljós að ekki stóð steinn yfir steini í lygum Nixons. Afskipti hans og frumkvæði að yfirhylmingunni var öllum ljós.
Hann sagði af sér embætti 4. ágúst 1974 þegar aðeins var dagaspursmál hvenær þingið setti hann af með skömm.
Nixon varð fyrsti Bandaríkjaforsetinn sem sagði af sér.
Trump gæti orðið númer tvö.
Athugasemdir