Ég þekkti ekki Birnu Brjánsdóttur. Ég vissi ekki einu sinni að hún væri til. Undanfarna daga finnst mér samt ég hafa kynnst henni svo vel.
Ég hef horft á hana skondrast heim af skemmtistaðnum, borginmannlega í fasi og áhyggjulausa, og eins og aðrir hef ég hrópað til hennar í huganum: „Snúðu við, snúðu við, og í guðs bænum gættu þín á rauða bílnum sem nálgast.“
En nú er ljóst að hún heyrði ekki aðvörunarópin úr framtíðinni.
Stundum eru vondir menn á ferli, illskan getur víða leynst og því miður verður ferð Birnu um lífið ekki lengri.
Það er skelfilegt. Það er auðvitað alltaf skelfilegt þegar ungt fólk er hrifið á braut. Það eru bara tvær vikur eða þrjár síðan ung stúlka úr Grindavík dó í bílslysi og skilur eftir hræðilegt tóm í lífi allra sem hana þekktu.
Og núna þegar við höfum öll kynnst Birnu Brjánsdóttur af fallegum lýsingum fjölskyldu og vina á skemmtilegri og kátri stúlku, og við höfum fylgt Birnu hennar hinstu gönguferð, þá er tóm í lífi okkar allra.
Athugasemdir