Umræðan um betl fátækra Evrópubúa í Svíþjóð, aðallega Roma-fólks, frá Rúmeníu virðist loksins vera að færast úr þeim svart-hvítu hjólförum sem hún hefur verið í. Fréttaskýringaþátturinn Kalla Fakta á Stöð 4 fjallaði í vikunni um hvernig hluti betlaranna á götum Svíþjóðar er fórnarlömb mansals og þess sem virðist vera skipulögð glæpastarfsemi.
„Fólk er gjarnt á að taka eitt dæmi sem rímar við skoðanir þess og svo alhæfir það um hópinn allan út frá því.“
Meðal annars var sögð saga ungs, fatlaðs manns, Sorin, frá Rúmeníu sem var þvingaður til að betla á götum Malmö í suðurhluta Svíþjóðar. Fylgst var með Sorin þar sem hann sat fyrir utan stórmarkað og bað vegfarendur um peninga; hann átti að sýna visnaða hönd sína sem hann gat ekki notað og var honum bannað að hylja hendina fyrir kuldanum sökum þess að þá myndi hann líklega ekki fá eins mikla peninga að gjöf. Sorin hafði reynt að flýja undan þeim sem gerðu hann út en það gekk ekki og var hann beittur ofbeldi í kjölfarið.
Viðbrögðin við þættinum hafa ekki látið á sér standa og kallaði leiðarahöfundur dagblaðsins Dagens Nyheter eftir því í gær að umræðan um betl Roma-fólksins verði „núanseraðri“ og byggi meira á staðreyndum en ekki á fyrirframgefnum hugmyndum fólks um þetta betl. Umræðan um betlið hefur hingað til verið pólaríseruð að stóru leyti í Svíþjóð.
Annars vegar er það fólk sem hefur haldið því fram að allt betlið sé sé hluti af skipulagðri glæpastarfsemi og að peningarnir sem betlararnir safna renni til glæpaforingja sem geri þá út líkt og þræla. Þetta fólk, sem einhver gæti viljað kalla þjóðernissinna eða rasista vegna þessarar afstöðu, er oft og tíðum á þeirri skoðun að banna beri betl. Slík bann við betli var á stefnuskrá sænska þjóðernissinnaflokksins Svíþjóðardemókratana fyrir síðustu kosningar.
Á hinn bóginn er það „vinstrisinnað“ fólk og starfsmenn „hjálparstofnana“ , eins og leiðarahöfundur Dagens Nyheter orðar það, sem telur að líta beri á allt Roma-fólkið sem betlar sem fórnarlömb aðstæðna, vegna kynþáttar síns og samfélagsstöðu.
Svo segir leiðarahöfundurinn að erfitt geti verið fyrir þá sem hafa skýra hugmyndafræðilega afstöðu til efnisins að vera með báðar þessar hugsanir í höfðinu á sama tíma; að Roma-fólkið sem betlar í Svíþjóð geti í einhverjum tilfellum verið fórnarlömb og svo jafnvel í einhverjum tilfellum, viljugir eða óviljugir, þátttakendur í skipulagðri glæpastarfsemi: „Það er ekki bara erfitt fyrir rasistana að vera með tvær ólíkar hugsanir í höfðinu á sama tíma. Sama vandamál fyrirfinnst einnig hjá vinstrisinnuðu fólki og starfsmönnum hjálparsamtaka. Fólk er gjarnt á að taka eitt dæmi sem rímar við skoðanir þess og svo alhæfir það um hópinn allan út frá því.“
Umræðan um betlið sem hugsanlega skipulagða glæpstarfsemi þar sem glæpamenn gera Roma-fólk út af örkinni til að betla í Svíþjóð hefur ekki verið mikil í Svíþjóð. Gagnrýnin umræða um betlið hefur verið hálfgert tabú í landinu þar sem það samræmist ekki pólitískri rétthugsun að fjalla um betlið með slíkum gagnrýnum hætti. VIðkvæðið hefur frekar verið að gera ráð fyrir því að Roma-fólkið sé að betla í sárri persónulegri neyð og að peningarnir sem það safnar sér inn fari í nauðþurftir.
Svíar eru auðvitað þekktir fyrir að taka á móti fleira flóttafólki, og öðrum sem eru í neyð, en nokkur önnur þjóð í Evrópu gerir miðað við höfðatölu. Svíþjóð er fyrirheitna landið í augum margra sem koma frá stríðshrjáðum löndum eða búa við kröpp kjör sunnar í Evrópu. Þannig talar líka flest Roma-fólk sem dvalið hefur í Svíþjóð og betlað í lengri tíma. Sökum þessa er vandamálið sérstaklega erfitt viðureignar í landinu.
Svíar virðast því smám saman vera að átta sig á því að betlið er alls ekki svart-hvítt vandamál. Sumir betlarar biðja um peninga fyrir sjálfa sig og sína til að eiga í sig og á meðan aðrir eru gerðir út af glæpamönnum, viljugir eða óviljugir.
Að sjá þetta vandamál með réttum augum, ekki hugmyndafræðilegum gleraugum rasistans eða þess sem í einfeldni sinni heldur að allir betlarnir séu einungis að betla fyrir sjálfa sig, er lykilinn að því að stjórnmálamenn og sænsk yfirvöld geti tekið á þessu vandamáli með sanngjörnum og réttmætum hætti.
















































Athugasemdir