Nú er í tísku að djöflast gegn þjóðkirkjunni í ræðu og riti. Andstaða við hana er orðinn pólitískur rétttrúnaður eins og stuðningur við flóttamenn, hatur á dómskerfinu, femínismi, samstaða með samkynhneigðum og hrifning á íslenska karlalandsliðinu í fótbolta. Hver sem mælir kirkjunni bót eða viðurkennir trú sína opinberlega er úthrópaður sem barnalegur sakleysingi, hommahatari eða fasisti.
Kirkjulegum brúðkaupum fer fækkandi, æ fleiri ganga úr þjóðkirkjunni, Siðmennt gerir sig gildandi í fermingarbissnessnum. Fjölmiðillinn Stundin, birti í desember margra blaðsíðna langhund um hnignun þjóðkirkjunnar.
Þetta er tímanna tákn. Með vaxandi velmegun og öryggi á öllum sviðum minnkar þörf mannsins fyrir Guð. Dauðinn hefur meira og minna yfirgefið sviðið og tekið sér bólfestu á elliheimilum og spítölum. Stór hluti miðaldra fólks hefur aldrei séð lík og veltir dauðanum aldrei fyrir sér. Öflugt heilbrigðiskerfi sér til þess að lífslíkur fólks hafa aldrei verið betri. Stærstur hluti kvenna og karla mun ná háum aldri og sleppa við þá alvarlegu sjúkdóma sem drápu forfeðurna. Maðurinn trúir ekki lengur á eigin forgengileika heldur telur að hann muni lifa að eilífu. Fólk viðurkennir ekki einu sinni að stundum sé nauðsynlegt að finna til. Á hverri einustu geðmóttöku um allan hinn vestræna heim er ekki þverfótað fyrir fólki sem heimtar lyf og meðferð til að fást við sársauka, sorg eða vanlíðan. Lífið á alltaf að vera fyrirsjáanlegt og auðvelt. Ég hitti nýlega 52 ára gamlan sálfræðing sem aldrei hafði verið í jarðarför. „Það deyr aldrei neinn sem ég þekki,“ sagði hann bæði brosandi og afsakandi.
Í slíku andrúmslofti er ekkert pláss fyrir Guð.
Forðum daga barðist maðurinn við alls konar pestir og óáran, náttúruhamfarir og styrjaldir. Meðalævin var liðlega 40 ár og ungbarnadauðinn hirti 80 börn af hverjum 100 á fyrsta aldursárinu. Fólk veiktist, þjáðist og dó fyrir allra augum á þröngu baðstofuloftinu. Dauðinn var eins og einn af heimilisfólkinu. Á þessum óvissutímum varð maðurinn að hafa Guð sér til halds og trausts. Sjómenn treystu Guði í misjöfnum veðrum og foreldrar báðu Guð að þyrma lífi litla barnsins síns. Maðurinn var svo smár í þessum átökum við lífið sjálft að hann varð að trúa á umbun og miskunn almættisins, annan heim og refsingar fyrir syndsamlegt líferni. Í viðsjárverðum heimi var trúin óaðskiljanlegur þáttur í lífi fólks.
„Dauðinn var eins og einn af heimilisfólkinu. Á þessum óvissutímum varð maðurinn að hafa Guð sér til halds og trausts.“
Það er hlægilegt að lesa lærðar greinar um trúmál í nútímafjölmiðlum þar sem menn átta sig ekkert á þessum breyttu aðstæðum. Trú er alltaf hluti af veruleika líðandi stundar og þörfin fyrir hana er mjög mismunandi.
Ég er trúaður maður og fyrir mér er trú ekki ákvörðun heldur tilfinning. Ég er ekki alinn upp á trúuðu heimili en smám saman þróaðist innra með mér trú á eitthvað sem væri æðra mér sjálfum. Þessi tilfinning varð til fyrir nauðsyn í alls konar þrengingum og erfiðleikum sem ég gat ekki ráðið við einn. Ég leitaði Guðs og fann hann. Trúin hefur margsinnis bjargað sálarheill minni í mótlæti daganna. Þetta er ekki hægt að skýra út fyrir þeim sem ekki trúa. Ég líki þessu stundum við að verða ástfanginn. Ást er aldrei ákvörðun heldur tilfinning sem skapast við ákveðnar aðstæður. Það er ekki hægt að skýra út hvað ást er fyrir einhverjum sem aldrei hefur orðið ástfanginn. Á sama hátt er vonlaust að skýra út trú sína fyrir trúleysingja. Hann mun aldrei skilja þessa tilfinningu vegna þess að skilningurinn byggir á upplifun og nauðsyn en ekki rökhyggju eða skynsemi. Sama gildir um ástina.
Ég reyni ekki að troða trú minni upp á nokkurn mann og á sama hátt langar mig til að hafa hana í friði fyrir öllum þessum besserwisserum sem vita hvað öllum er fyrir bestu. Ég bið Guð að blessa þá í vantrú sinni og vona að þeir lendi aldrei í slíkum áföllum að þeir neyðist til að fara að trúa á Guð. Vonandi stendur kirkjan af sér allar þessar árásir vegna þess að enginn veit hvenær við þurfum aftur á Guði að halda.
Athugasemdir