Illugi Gunnarsson menntamálaráðherra er kominn á þann stað í sínum störfum sem stjórnmálamaður að hann er byrjaður að spyrja fjölmiðla að því fyrirfram hvort þeir ætli nokkuð að spyrja hann um málefni Orku Energy. Svo kannski, í ljósi þeirra svara sem hann fær, ákveður hann að veita þeim viðtal. Ráðherrann setur fjölmiðlum með öðrum orðum afarkosti.
En Illugi svarar ekki spurningum um Orku Energy og tengsl sín við fyrirtækið. Þannig er það bara.
Kemst upp með að hundsa fjóra fjölmiðla
Margir fjölmiðlar hafa reynt að spyrja Illuga út í tengsl ráðherrans við Orku Energy. Stundin, DV, fréttastofa Vísis og Stöðvar 2 og RÚV, ríkisfjölmiðillinn þar sem Illugi er æðsti yfirmaðurinn. Ég veit reyndar ekki með Morgunblaðið en ég efa það. Svo kann vel að vera að fleiri fjölmiðlar hafi reynt að fá svör við spurningum um tengsl hans við Orku Energy. En ég þekki það ekki.
Staðreyndin er hins vegar þessi: Illugi svarar engum og kemst upp með það. Hliðvörður Illuga er aðstoðarmaðurinn hans, Sigríður Hallgrímsdóttur, sem passar upp á að fjölmiðlar, þar á meðal ríkisfjölmiðillinn, komist ekki í þá stöðu að spyrja Illuga spurninga um Orku Energy sem hann vill ekki svara.
Ég man samt eiginlega ekki eftir fréttamáli þar sem eins mörgum spurningum er ósvarað. Ekki einu sinni í lekamálinu voru eins margir lausir endar og eins margar spurningar sem ráðherrann í málinu hafði ekki svarað.
Þetta eru spurningarnar
Spurningarnar eru meðal annarra:
Hvað fékkstu mikið greitt frá Orku Energy, Illugi?
Af hverju fékkstu lán frá Orku Energy, Illugi, og hversu hátt var það?
Hversu mikið greiðir þú í leigu fyrir íbúðina sem stjórnarformaður Orku Energy keypti af þér, Illugi?
Af hverju varstu í laxveiði í Vatnsdalsá á sama tíma og stjórnarformaður Orku Energy í fyrra, Illugi?
Sastu í stjórnum einhverra erlendra fyrirtækja sem tengdust Orku Energy, Illugi?
Af hverju fékk Orka Energy, þetta fyrirtæki sem þú hefur svona mikil tengsl við, að vera í viðskiptasendinefnd þinni til Kína í mars, Illugi?
Var Kínaferðin skipulögð með það fyrir augum að þú gætir fundað með Orku Energy og kínverskum samstarfaðila þess, Illugi?
Hvar liggja skilin á milli ráðherrans og stjórnmálamannsins Illuga Gunnarssonar og Orku Energy-ráðgjafans, -leigutakans, -íbúðarsalans, - lántakandans og -laxveiðifélagans Illuga Gunnarssonar, Illugi?
Smámál og stórmál
Fyrir nokkrum vikum var fjallað um mál í Svíþjóð sem gekk út á það að forsætisráðherrann Stefan Löfven hafði gert samnning við verktakafyrirtæki sem var ekki með löglega samninga við starfsmenn sína. Verktakafyrirtækið vann við sumarbústað forsætisráðherrans. Löfven hélt hins vegar að verktakinn sem hann samdi við ynni einn og væri þar af leiðandi ekki með neina starfsmenn í vinnu. Ráðherrann hélt að verktakinn væri sjálfur eins manns verktaki en ekki atvinnurekandi. Hann var gagnrýndur í fjölmiðlum fyrir að spyrja ekki verktakann að því hvort hann væri atvinnurekandi og hvort samningarnir við starfsmennina væru ekki löglegir. Löfven viðurkenndi mistök sín við fjölmiðla: Hann sagði að hann hefði átt að ganga úr skugga um að verktakinn væri með löglega samninga við starfsmenn sem hann vissi ekki að væru í vinnu hjá honum.
Þetta mál Löfvens hljómar eins og smámál, tittlingaskítur, og það er það sannarlega. En úr þessu var gert mál í sænskum fjölmiðlum, meðal annars af því að Löfven var áður verkalýðsforkólfur. Löfven komst ekki upp með að svara ekki.
Illugi Gunnarsson þarf hins vegar ekki að svara einu né neinu jafnvel þó mál hans sé í reynd stórmál. Hann þegir bara og setur þeim fjölmiðilum sem vilja fá viðtal við hann skilyrði. Svo mætir hann á Bylgjuna, eða eitthvert annað, og talar um einhver hugðarefni sín - eins og til dæmis tónlistarkennslu - en þarf ekki að svara neinum spurningum um mál sem sýnir stórkostlega hagsmunaárekstra hans sjálfs og Orku Energy.
Í Svíþjóð væri Illugi Gunnarsson löngu búinn að segja af sér ef hann hefði ekki verið búinn að gera hreint fyrir sínum dyrum með skýrum og sannfærandi hætti.
Fjölmiðlar í Svíþjóð væru líka löngu búnir að kalla til sérfræðing frá stofnun sem sérhæfir sig í rannsóknum og greiningu á mútum, meðal annars til stjórnmálamanna. Þessir sérfræðingar eru oft kallaðir til ef meta þarf mál þar sem mútuþægni stjórnmálamanna kann að vera um að ræða eða fyrir hendi liggja óeðlileg tengsl pólitíkusa og viðskiptamanna. Ég tel alveg ljóst hvað slíkir sérfræðingar í mútum myndu segja um mál Illuga Gunnarssonar en ég ætla að láta ógert að segja það.
Þarf að svara eða segja af sér
Persónulega finnst mér fáránlegt af ráðherra í ríkisstjórn að hegða sér svona gagnvart eðilegum spurningum fjölmiðla um mál sem hann verður að svara.
Í mínum huga hefur Illugi einungis tvo kosti og það eru afarkostir. Annað hvort svarar hann spurningum um tengsl sín við Orku Energy eða hann þarf að segja af sér sem ráðherra ef hann telur sig ekki getað svarað þessum spurningum vegna þess að þær séu svo óþægilegar. Svo getur auðvitað verið að hann verði líka að segja af sér þó hann svari spurningunum. En ég veit það ekki því Illugi neitar að svara þeim.
Málið er mjög einfalt. Hann - fjölmiðlaráðherrann - getur ekki haldið áfram að setja fjölmiðlum afarkosti um hvað það er sem þeir mega og mega ekki spyrja hann um. Stjórnmálamenn og ráðherrar gera bara ekki svona og halda að þeir komist upp með það. Ekki í þróuðum lýðræðisríkjum - kannski í Rússlandi eða Aserbaídsjan - eins og Ísland vill og telur sig vera.
Athugasemdir