Nokkuð merkilegt verður að teljast að enginn þingmaður úr neinum flokki á Alþingi hafi spurt Illuga Gunnarsson menntamálaráðherra um Orku Energy málið frá því í vor. Frá því í lok apríl í ár hefur legið fyrir að Illugi þarf að svara fyrir tengsl sín við Orku Energy og stjórnarformann og hluthafa félagsins, Hauk Harðarson. Mörgum spurningum er ósvarað um tengsl ráðherrans við Hauk og Orku Energy en það er eins og stjórnmálaflokkarnir hafi ekki áhuga á að komist verði til botns í málinu. Af hverju leggur enginn þeirra fram fyrirspurn til ráðherra um í undirbúnum eða óundirbúnum fyrirspurnartíma? Ráðherra getur ekki neitað að svara spurningum frá öðrum þingmönnum á Alþingi og ef hann neitar þá þarf hann að rökstyðja af hverju hann velur það.
„Hvað varðar frumkvæðið þá liggur það fyrir að á mínu verksviði“
Svandís Svavarsdóttir, þingkona Vinstri grænna, spurði Illuga spurninga á Alþingi í apríl um ferð hans til Kína með Orku Energy og svaraði menntamálaráðherra þeirri fyrirspurn. Eins og komið hefur fram þá vann Illugi hjá fyrirtækinu sem ráðgjafi þegar hann var í leyfi frá þingstörfum á árunum 2010 og 2011. Svandís spurði Illuga meðal annars að því hver hefði haft frumkvæði að því Orka Energy kæmi með honum í ferðina og sagði Illugi þá að það hefði verið hann sjálfur. „Hvað varðar frumkvæðið þá liggur það fyrir að á mínu verksviði eru samningar sem snúa að samstarfi á orkusviðinu og vísindarannsóknum. Þar af leiðandi var alveg eðlilegt að þetta fyrirtæki kæmi þar að, það er að segja á fundum, því burðarásinn á milli Íslands og Kína varðandi orkusamstarf liggur þar í gegn,“ sagði ráðherrann.
Illugi svaraði þessum spurningum Svandísar um miðjan apríl en tæpum tveimur vikum síðar kom í ljós að Illugi hafði selt Hauki Harðarsyni, stjórnarformanni Orku Energy, íbúð sína vegna fjárhagserfiðleika og að hann leigði íbúðina af honum. Illugi hafði ekki látið þessara tengsla við stjórnarformann Orku Energy getið tveimur vikum áður þegar spurt var út í tengsl hans við fyrirtækið. Ráðherrann greindi frá viðskiptunum með íbúðina eftir að fjölmiðlar höfðu haldið áfram að spyrja hann út í tengslin við Orku Energy. Eins og Stundin greindi frá í gær þá sagði Illugi frá viðskiptum sínum með íbúðina í viðtali við RÚV og svo á Fésbókarsíðu sinni en neitaði svo að svara frekari spurningum að minnsta kosti fimm fjölmiðla um málið. Stundin hefur auk þess greint frá því nokkrum sinnum á síðustu mánuðum að Illugi neiti að svara spurningum fjölmiðilsins um málið.
„Það er eins og verið sé að gera það tortryggilegt að menn vinni hjá einkafyrirtækjum.“
Stundin greindi svo frá frekari tengslum Illuga við fyrirtækið þar sem Illugi fékk einnig lán frá fyrirtækinu upp á þrjár milljónir króna, sem ekki er vitað hvort er uppgreitt eða útistandandi ennþá, auk þess sem hann var við veiðar í Vatnsdalsá á sama tíma og Haukur Harðarson á besta og dýrasta tíma í ánni sumarið 2014.
Tengsl Illuga við Orku Energy og Hauk Harðarson eru því miklu víðtækari en hann vildi vera láta þegar hann sagði um fyrirspurn Svandísar á Alþingi í apríl: „Það er eins og verið sé að gera það tortryggilegt að menn vinni hjá einkafyrirtækjum. Ég veit að háttvirtur þingmaður [Svandís Svavarsdóttir] hefur ekki þá reynslu. Háttvirtur þingmaður virðist samkvæmt sinni ferilskrá aldrei hafa unnið hjá neinum einkaaðilum heldur bara hjá hinu opinbera.“ Í ljósi tengsla Illuga við Hauk Harðarson, og þeirrar staðreyndar að hann ákvað að selja honum íbúð sína af einhverjum óþekktum ástæðum, má segja að hann hafi ennþá verið fjárhagslega tengdur þessum aðilum þegar hann svaraði þessari fyrirspurn á þingi. Hann lét hins vegar ekkert uppi um þessi tengsl sín á þessum tíma eins og áður segir.
„Út frá fyrirliggjandi staðreyndum málsins lítur út fyrir að Orku Energy málið sé eitt ljótasta spillingarmál seinni ára í íslenskum stjórnmálum.“
Orku Energy, og eða stjórnarformaður fyrirtækisins, er ekki bara fyrirtæki sem Illugi starfaði hjá heldur líka fyrirtæki sem hann átti í beinum persónulegum viðskiptum við, leigði íbúð af, fékk lán hjá og hugsanlega eitthvað fleira í ljósi veiðiferðarinnar í Vatnsdalsá sem ráðherrann hefur ekki viljað svara fyrir. Þetta sama fyrirtæki tengist svo opinberum störfum Illuga sem ráðherra út af Kínaferðinni þar sem hann - almáttugur veit af hverju - sat meðal annars fund með Hauki Harðarsyni og forsvarsmönnum Sinopec, ríkisrekins kínversks orkufyrirtækisins sem er samstarfsaðili Orku Energy. Þá er einnig einkennilegt að einungis tvö fyrirtæki voru í viðskiptasendinefnd Illuga til Kína, Orka Energy og Marel, en ekki liggur fyrir hvenær ákveðið var að Marel yrði einnig með í för.
Nokkurn veginn er orðið ljóst að Illugi mun ekki svara spurningum fjölmiðla um tengsl sín við Orku Energy og Hauk Harðarson.
En hvar eru þingmenn þjóðarinnar? Stundum er talað um samtryggingu meðal þingmanna og eitthvað slíkt; að þeir hlífi hver öðrum um of og svo framvegis. Kannski á þetta við um einhverja stjórnmálamenn og stjórnmálaflokka á Alþingi. En á þetta við um Vinstri græna? Bjarta framtíð? Á þetta líka við Pírata, flokkinn sem alltaf reynir að skilgreina sig utan fjórflokksins? Ég trúi því ekki. Málið snýst ekkert um það hvort Illugi Gunnarsson er fínn náungi eða ekki; málið snýst um að fá svör ráðherra í lýðræðisríki við máli sem ber öll einkenni aðstöðubrasks og spillingar.
Að fá botn í Orku Energy málið er algjört lykilatriði fyrir Alþingi, og þjóðina að mínu viti. Út frá fyrirliggjandi staðreyndum málsins lítur út fyrir að Orku Energy málið sé eitt ljótasta spillingarmál seinni ára í íslenskum stjórnmálum.
Athugasemdir