Ég er stundum spurð að því af hverju fókusinn sé svona mikið á feitt fólk í líkamsvirðingarbaráttunni. Mér er sagt að það skemmi fyrir málstaðnum sem sé annars svo virðingarverður – að sporna gegn útlitsdýrkun og slæmri líkamsmynd ungra stúlkna. Þetta er auðvitað byggt á miklum misskilningi gagnvart grundvallaratriðum þessarar baráttu og hvaðan hún er sprottin. Líkamsvirðingarbarátta snýst ekki bara um líkamsmynd unglingsstúlkna heldur beinist að rótum þessa vanda, sem er að fólki er mismunað á grundvelli líkamsvaxtar í okkar samfélagi. Það að konur lifi margar hverjar í skömm yfir líkamlegu formi sínu frá unga aldri er ein birtingarmynd þessa grundvallarvandamáls en ekki sú eina.
Það er ekki síður vandamál að fólk skuli búa við kerfislæga mismunun og óréttlæti í tengslum við holdafar sitt. Að þetta sé staða sem margsinnis sé búið að staðfesta en samt gangi erfiðlega að fá samfélagið til að bregðast við. Holdafar er yfirleitt aldrei tekið með í reikninginn þegar fjallað er um jafnrétti og kemur hvergi fyrir í mannréttindayfirlýsingum og jafnréttisáætlunum þrátt fyrir að flest önnur atriði séu tiltekin. Að einhverju leyti má skýra þetta með því að svo stutt er síðan að opinber umræða um fitufordóma hófst en það segir samt ekki alla söguna. Barátta fyrir félagslegu réttlæti í tengslum við holdafar mætir gríðarlegri mótstöðu og þrátt fyrir margstaðfesta mismunun finnst mörgum að þessi réttindabarátta eigi hreinlega ekki að eiga sér stað. Þessi afstaða kom vel fram þegar Samtök um líkamsvirðingu fóru þess á leit að holdafari yrði bætt við ákvæði um jafnræði í drögum að nýrri stjórnarskrá Íslendinga fyrir bráðum þremur árum. Þrátt fyrir dyggilegan stuðning sumra mátti líklega lýsa almennum viðbrögðum sem ýmist fálæti eða hreinni andstöðu. Fátt staðfestir þó betur þörfina á réttindabaráttu en útbreidd viðhorf um að hópurinn eigi ekki skilið mannréttindi.
„Holdafar er yfirleitt aldrei tekið með í reikninginn þegar fjallað er um jafnrétti og kemur hvergi fyrir í mannréttindayfirlýsingum.“
Þannig að það er sannarlega rétt að meiri stuðningur ríkir við þá hluta líkamsvirðingarbaráttunnar sem snúa að óhóflegum fegurðarkröfum en mannréttindum feitra. Og vissulega væri auðveldara að einbeita sér bara að þeim hlutum baráttunnar sem eru auðveldastir og njóta mests samþykkis. En sú barátta væri þó léttvæg og tæki aldrei á kjarna málsins.
Kjarni málsins er sá að það er ekki hægt að aðskilja líkamskomplexa og útlitsdýrkun dagsins í dag frá samfélagslegum hugmyndum um fitu. Viðhorf okkar til fitu eru undirrót allra þeirra umhverfisáreita sem eitra líkamsmynd ungs fólks: Megrunaráróður, dýrkun á grönnum og stæltum vexti, matar- og fituþráhyggju og svo mætti áfram telja. Ekkert af þessu væri til ef við litum ekki fitu neikvæðum augum. Ef jöfn virðing væri borin fyrir öllum líkömum myndu megrunaráherslur í fjölmiðlum, heilsurækt og kaffistofusamræðum einfaldlega gufa upp. Megrunariðnaðurinn í öllu sínu veldi myndi hverfa. Það er útilokað að vinna á útlitsdýrkun og megrunarþráhyggju samfélagsins öðruvísi en að takast á við viðhorf okkar til fitu.
Og það er ekkert nema gott og blessað að við gerum það. Viðhorf okkar til holdafars eru stórlega brengluð. Í gegnum félagsmótun höfum við flest alist upp við áberandi staðalmyndir um holdafar og hvað það þýðir að vera feitur eða grannur. Þetta litar alla okkar sýn og skilning á málum sem tengjast holdafari og gerir það að verkum að það er nánast ómögulegt fyrir okkur að líta slík mál óhlutdrægum augum. Við erum alltaf með fyrirfram gefnar skoðanir án þess að átta okkur á því að við höfum í raun aldrei skoðað þessi mál frá öðrum hliðum en þeim sem við teljum sjálfgefnar. Það er meðal annars þetta sem líkamsvirðingarbarátta reynir að breyta. Ef við gerum það ekki gerum við ekki annað en að snyrta yfirborðið án þess að slíta upp ræturnar.
Líkamsvirðingarbarátta er raunveruleg samfélagsbarátta sem beinir spjótum sínum að grundvallar-gildismati og viðhorfum samfélags sem elur á misrétti og óréttlæti. Það er alltaf erfitt og óþægilegt en þannig hefur öll mannréttindabarátta alltaf verið. Baráttan snýst um að viðurkenna fjölbreytileika líkamsvaxtar og vinna að jafnri virðingu allra líkama. Það er engin önnur leið til að leiðrétta þá mismunun og óréttlæti sem nú ríkir í tengslum við holdafar og það er ekki heldur til nein önnur lógísk leið til að vinna gegn djúpstæðu óöryggi okkar gagnvart eigin líkama. Þetta á líka við um unglingsstúlkurnar. Til þess að þeim geti liðið vel í eigin skinni þurfa allir þeirra fjölbreyttu líkamar að vera samþykktir.
Athugasemdir