Nú eru allir að tala um Óþelló, það er eitthvað, það er gaman. Manni sýnist á viðbrögðum að fólk sem ekki sé kunnugt verkinu sé hvað hrifnast en þau sem þekkja (eða telja sig þekkja) verkið vel séu óhrifnust. En það er þó óneitanlega gaman að sjá fólk skiptast á skoðunum um leikhús um alla Fésbók. Það er tilbreyting frá pólitíska tuðinu. Sjálfur hafði ég (auðvitað) gaman af sýningunni. Þótt deila megi um sumar leiðirnar voru heildaráhrifin rammsterk. Upphafsatriðið er með því eftirminnilegasta sem maður hefur séð í leikhúsi, orðalaus sena sem sat í manni lengi á eftir og situr enn. Leikmyndin sem karakter! Skemmtilegt var líka að sjá Jagó sem konu, þetta skapaði nýja vídd, gaf línunum annarskonar spennu. Ungu leikararnir voru sprækir og Gói er alltaf Gói. Nína blómstraði á frumsýningunni og salurinn nánast nötraði þegar Ingvar steytti hnefann, þvílíkur styrkur og kraftur í einum manni. Óþelló í kamrinum stendur þó upp úr að mínu mati, brilljant atriði: Hetjan stígur upp úr saurtunnunni eins og Gissur úr sýrunni forðum og gengur um sviðið ataður þeim skít sem á hann hefur verið borinn alla sýninguna. Um leið minnir svartatað andlitið á þá hræðilegu „blackface“ hefð (þegar hvítir leikarar voru litaðir svartir til að leika Óþelló) og gefur henni langt nef. Þetta má semsagt túlka út og suður, brill! Leikmyndin á svo lokaorðið í glæsilegri lokasenu/mynd.
Það er magnað hvað þessi saga lifir, hvað hún er sterk. Jafnvel þótt henni sé breytt og hún stytt og teygð og toguð á alla kanta, eins og gert er hér, hittir hún fólkið sem kemur hvað ferskast að henni beint í hjartastað. Gísli og Börkur hafa þennan hæfileika, að geta sagt sögu á sviði með allskonar ráðum og dáðum. Jafnvel þótt textinn hafi verið klipptur burt kemst innihald hans til skila með ljósabreytingu eða einu augnatilliti. Auðvitað saknar þýðandinn margra setninga af sviðinu, (Keep up your bright swords!) en það var líka margt sem kom honum gleðilega á óvart, nýjar hliðar á verkinu sem birtust fyrst þarna. Svona stór klassísk verk eru eins og demantar, hafa hundrað hliðar og má því horfa endalaust á, má snúa á alla kanta, og á hvolf líka. Og hér virðist sýningin einnig vera marghliða; á meðan staðið er upp og bravóað í lokin hérnamegin er setið með fýlusvip hinumegin.
Aðeins varðandi þýðinguna:
Nú eru held ég 7 gagnrýnendur búnir að fjalla um sýninguna, og líklega hafði aðeins einn þeirra fyrir því að kíkja á nýútgefna þýðingu (fáanleg í flestum bókaverslunum). Gagnrýnandi Fréttablaðsins kvartar yfir of mörgum „klofbröndurum“ í þessari nýju þýðingu, en þýðandi reyndi þó að fylgja orginalnum í einu og öllu hvað þetta varðar, og studdist þar við nýjustu textarannsóknir sem Oxford-útgáfan geymir. Það er svosem ekki nýtt að fólk kvarti yfir klúrum Shakespeare, Frakkar voru lengi að taka hann í sátt, og um allar aldir hafa teprulegar raddir heyrst, en kannski ekki svo mikið á 21. öldinni. Þá fullyrti gagnrýnandi Kvennablaðsins „að brugðið hafi verið frá stíl frumtextans“ en hafði þó ekki kíkt á þýðinguna, aðeins sýninguna. Hann kvartaði einnig yfir því að blank-verse-forminu væri ekki nægilega fylgt á sviðinu. Ja, sko. Textinn sem notaður er í sýningunni er ögn frábrugðinn þeim sem prentaða þýðingin geymir. Til dæmis var ákveðið að nota þéringarnar ekki, og það gefur auga leið að þegar eins-atkvæðis-orðið “þér” kemur í staðinn fyrir tveggja atkvæða orðið “yður” breytist bragurinn. Þetta hefði gagnrýnandinn auðvitað strax séð hefði hann kíkt í bókina, því þar eru þéringar allar til staðar sem og annað það sem reynir einmitt af fremsta megni að halda í „stíl frumtextans“. Önnur veigamikil bragbreyting verður svo þegar „Márinn“ á síðunni er nefndur „útlendingurinn“ á sviðinu. Báðir þessir gagnrýnendur töluðu svo um að hápunktur sýningarinnar væri rasista-ræða Brabantíós og ræddu hana á þann hátt að hún tilheyrði upphaflegum texta. Sú einræða, sem og “rapp-kafli” um kvenfrelsi, eru hinsvegar viðbætur sem urðu til á æfingaferlinu, hugmynd leikstjóra sem þýðandi útfærði. Einnig þetta hefði blasað við gagnrýnendum hefðu þeir kíkt á nýútgefna þýðingu.
Jón Viðar er svo kapítuli útaf fyrir sig, en líklega ábyrgur fyrir því hve glatt logar í umræðu um verkið út um netið, svo honum ber kannski að þakka. Viðhorf hans til leikhússins eru auðvitað jafn aktúel og innlegg Guðbergs Bergssonar í jafnréttisumræðuna eða skoðanir Davíðs Oddssonar á pólitík dagsins. Þær skipta í sjálfu sér engu máli, og furðulegt að „nútímamafólk“ eins og ritstjóri og útgefandi Fréttatímans (Þóra Tómasdóttir og Gunnar Smári) sé að púkka upp á slíkt. En pistill Jóns var óvenju rætinn að þessu sinni, nú hafði hann tekið svo langt tilhlaup að sýningunni að gagnrýnandinn var farinn að yfirspóla og í stað þess að skrifa gagnrýni skrifaði hann sitt eigið leikverk, sem hann samdi sérstaklega fyrir og upp í leikstjórann, hatursfullan einleik sem lagði honum í munn ljót orð og hugsanir, í raun illan hug. Slíkt dæmir sig auðvitað sjálft og kallar ekki á frekari orð.
Gísli Örn er auðvitað löngu búinn að sanna sig um víðan völl. Sýning hans á Rómeó og Júlíu var sýnd yfir 400 sinnum heima og erlendis. Hamskiptin fór sömu leið, og er enn á sviðum víða um heim. Sýning hans um Hróa Hött vann til verðlauna í Boston og Toronto og á Broadway World Awards sem besta sýning ársins. Og svo mætti lengi telja. Á næsta leiti er samstarf við Nick Cave í breska Þjóðleikhúsinu. Gísli er einn af þeim fjölmörgu talentum sem á síðustu árum hafa komið íslensku leikhúsi í samband við umheiminn og borið hróður þess víða, sem veldur því að íslenskt leikhús hefur fengið sjálfstraustið. Hvað hugsar slíkur maður þegar hann setur upp Óþelló? Að gera smekklega og kórrétta sýningu fyrir íslenska Shakespeare-sérfræðinga? Þetta er verk sem hefur verið leikið 400 sinnum á ári í 400 ár… Auðvitað fer vanur leikhúsmaður skapandi leið og setur sitt mark á verkið, matreiðir það á nýjan hátt sem hæfir okkar tíma. Það er nefnilega eins í leikhúsinu og í lífinu sjálfu, það er engin leið til baka. Að væna listamann um illan hug, um að ætla að „eyðileggja jólin“ fyrir fólki ber vott um lítinn skilning á starfi skapandi fólks.
Gargandi hliðarspól Jóns Viðars um anddyri og bekki leikhússins var hinsvegar æði fyndið: Hann lét semsagt ekki nægja að gagnrýna sýninguna heldur einnig hvar Þjóðleikhússtjóri stóð í anddyrinu, klukkan hvað frumsýningin var, hvernig veitingar boðið var uppá og hvað leikhúsgestir, og þá einkum forsetinn, klöppuðu asnalega í lokin. Mesta furða að hann hafi ekki hraunað almennilega yfir starfsfólkið í miðasölunni.
En allt þetta sýnir samt að leikhús skiptir ennþá máli, fólk hefur á því skoðanir, því er ekki sama. Shakespeare er enn í umræðunni, enn í miðju menningarinnar. Skoðanir eru skiptar og skiptið ykkur endilega af þeim, myndið ykkar eigin!
Allir í leikhúsið!
Athugasemdir