Hvar er Valli? heita alkunnar bækur sem aðstoðað hafa ófáan manninn við að fylla upp í tómarúm tímans. Á hverri opnu mætir lesandanum urmull mannskepna á afmörkuðum fleti: á baðströnd, fjallstoppi, kappleikjavelli, götuhorni, grasbala, við borgarmúra, í hringleikahúsi eða á hafi úti. Lesturinn felst í því að leita að Valla, slánalegum tíma- og heimshornaflakkara sem er þeim undraverðu göldrum gæddur að geta dúkkað upp alls staðar þar sem mannfjöldi myndast. En sama hve margbrotinn og mannþröngur viðkomustaður hans er — á endanum má alltaf finna Valla. Sömu fötin, sama staðlaða líkamstjáningin, sami tilfinningaskerti andlitssvipurinn, hvernig sem viðrar, sama hvort rignir eða snjóar, hvort sólin skín eða ský hefta áætlanir hennar, óháð því í hvaða heimshluta og á hvaða sögulega tímaskeiði Valli tekur sér bólfestu hverju sinni — ásýnd hans er undantekningalaust hin sama. Og atferlið sömu lögmálum endurtekningarinnar bundið.
Valli er hreinræktuð táknmynd þeirra þæginda sem sóst er eftir með leitinni að hinu þekkta. Lesturinn snýst umfram allt um að koma auga á hið kunnuglega, hið auðmeltanlega og eðlilega, staðsetja það á sínum stað svo anda megi léttar og hugga sig við að alltaf sé hægt að finna haldreipi í hamaganginum — akkeri sem fært er um að núllstilla ástandið og koma á almennt samþykktri og eftirsóknarverðri jarðtengingu mitt í glundroðanum og ólgunni.
„Valli er hreinræktuð táknmynd þeirra þæginda sem sóst er eftir með leitinni að hinu þekkta.“
Á fjölsóttum síðum ásjónubókarinnar átti sér nýlega stað umræða um þátt anarkista í þeirri halarófu atburða sem kölluð er bylting og kennd við búsáhöld. Upphaf hennar mátti rekja til hugarangurs sagnfræðings nokkurs sem skildi ekki hvað orðið hefði um „flokk ákafra anarkista“ sem „hafði sig allmjög í frammi“ í fyrrgreindum atburðum, en hefur víst ekki sést svo mikið sem anda á núsitjandi stjórnvöld. Úr varð spurning sem enginn beinlínis orðaði — hvar eru anarkistarnir? — byggð á þeim ofureinfölduðu forsendum að séu stjórnleysingjar ekki alsjánni sýnilegir á útjöðrum Austurvallar, æpandi reiðir og æstir, huldir einkaleyfisvörðum einkennisklæðum hinnar svörtu og altæku neitunar, ríðandi á vígtenntum blendingi hasars og húmors sem þenur út mörk hins mögulega — umbreytir einberri tjáningu ósættis í ofurlíkamlegan verknað, skrílslæti, skammlausa óhlýðni — hljóti þeir einfaldlega að vera „bara sultuslakir og sáttir“ við valdhafa dagsins í dag.
Nema þá að spurningin sé verufræðileg: snúi að því hvort þær séu í raun til, þessar kolblökku verur sem „dúkkuðu upp“ — eins og einhver komst að orði — um leið og málning tók að leka út fyrir geirnegldan ramma falsmyndarinnar, slitu í sundur gula borða og sjónvarpsútsendingarkapla, rifu upp bekki og felldu tré, hlóðu bálköst úr illa fengnu byggingarefninu, framkölluðu loga sem lýstu upp nokkrar ílengdar nætur, bræddu ísilagt undirlagið, yljuðu úrvinda líkömum og skildu eftir illafmáanleg brennimörk á húðlendinu, en soguðust svo inn svartholið jafn skjótt og þær birtust.
Sama hverjar forsendur hinnar óorðuðu spurningar eru virðist sem fjarvera stjórnleysingja sé fær um að kalla fram sömu viðbrögð og mannmergð, svo fjölflækt og marglaga að ómögulegt er að finna þar minnsta vott af Valla. Og eins að sýnileg viðvera anarkista — öllu heldur fyrirsjáanlegasta birtingarmynd hennar — geti stuðlað að þversagnarkenndri öryggistilfinningu: þrátt fyrir óreiðuna sé allt eins og það á samkvæmt handritinu að vera, hver og ein fígúra á sínum stað, í sínu hlutverki. En viljinn til stjórnlausrar hreyfingar um lífsflötinn byggist í grunninn á altækri andúð og neitun á stjórnlyndisknúinni stöðnun, hverskyns hömlum og tilvistarhindrunum — ekki síst menningar- og félagslegum spennitreyjum á borð við staðlaðar, niðursoðnar hugmyndir um ásýnd, áherslur, hlutverk, skyldur og eðlilegt hegðunarmynstur tiltekinna einstaklinga og hópa. Við þær átakalínur liggja vígstöðvar stjórnleysingja — miklu frekar en í samstilltum kór sem hefur það eitt að markmiði að syngja burt eina birtingarmynd stjórnvalds í skiptum fyrir aðra.
Athugasemdir