Nauðgun af gáleysi er hugtak sem margir lyfta brúnum yfir. Hvernig er hægt að nauðga óvart? Í viðtölum mínum við þolendur kynferðisbrota, vegna rannsóknar sem ég er að vinna, greina þau mörg frá því að slíkt sé að nánast óhugsandi og ég hef ekki enn hitt þann brotaþola sem telur að ofbeldismaðurinn hafi framið nauðgunina af gáleysi. En í heimi réttarkerfisins gilda önnur lögmál. Þegar kemur að því að sanna nauðgun þá þarf bæði að sanna að glæpurinn hafi átt sér stað og að hann hafi verið af framinn af ásetningi. Vörn sakborninga í kynferðisbrotamálum er iðulega sú að um kynlíf hafi verið að ræða með samþykki beggja. Reglur í sakamálaréttarfari kveða einnig á um að það sé ríkisins að sanna að glæpurinn hafi átt sér stað og allur skynsamlegur vafi um annað falli sakborningi í vil. Dómarar standa frammi fyrir því að meta sönnunargögn á grundvelli þessara reglna og oft er sönnunargögnum um atburðinn sjálfan ekki til að dreifa, fyrir utan framburði brotaþola og sakborninga, þó svo að iðulega liggi fyrir töluverðar upplýsingar um sálrænar afleiðingar ofbeldisins á brotaþolann. Hér má geta þess að sumir telja að slíkar upplýsingar séu að öðlast aukið vægi við sönnunarmat dómara, að minnsta kosti sumra, en jafnframt telja margir að slíkar upplýsingar ættu að hafa mun meira vægi en þær gera. En það er önnur umræða, snúum okkur aftur að gáleysinu.
Að sanna ásetning í nauðgunarmálum, á grundvelli reglna réttarkerfisins, getur verið erfitt þar sem ekki er hlaupið að því að meta hugarástand sakborninga þegar verknaðurinn var framinn. Eins hefur því verið haldið fram að erfitt sé að segja til um hvernig dómarar meti ásetninginn í kynferðisbrotamálum þar sem þeir leggi ekki mikið púður í slíka umfjöllun í dómum sínum (þó benda megi á að í nokkrum nýlegum dómum má greina aukna áherslu á slíka umfjöllun). Að sögn sakborninga var ætlunin yfirleitt að stunda kynlíf en ekki nauðga. Einnig hefur komið fram að sumir rannsóknarlögreglumenn telja, á grundvelli skýrslutekna af sakborningum, að stundum virðist það vera raunin að ásetningur um að þvinga brotaþola hafi ekki verið fyrir hendi. Brotin einkennast oft af sjálfhverfu ofbeldismannsins og gríðarlegu skeytingaleysi gagnvart kynfrelsi brotaþola, persónu þeirra, líkama og vilja. Það má því ætla að í sumum tilvikum gæti nauðgun af gáleysi átt við þegar tekið er mið af hugarástandi sakborninga þó svo að það segi ekkert til um afleiðingar á brotaþolann sem geta verið jafn alvarlegar og þegar ásetningur er greinilega fyrir hendi. Þau mál sem myndu mögulega falla undir gáleysi væru helst mál þar sem brotaþoli hefur brugðist við með því að frjósa og/eða hefur ekki getað spornað við verknaðinum sökum ótta eða ölvunar. En það á við um tæplega helming þeirra nauðgunarmála sem berast inn á borð lögreglunnar á Íslandi.
Noregur er eina Norðurlandið sem hefur tekið upp ákvæði um nauðgun af stórkostlegu gáleysi og var það gert árið 2000. Eitt helsta markmiðið með því að taka upp gáleysisákvæðið var meðal annars það að auka réttarvernd brotaþola nauðgana í ljósi lágs sakfellingarhlutfalls í brotaflokknum. Reynsla Norðmanna sýnir aftur á móti að að ákvæðið er sjaldan notað þó svo að nákvæmar tölur liggi ekki fyrir sökum þess hvernig skráningum er háttað. Lögfræðilega skýringin á því hvers vegna ákvæðið er sjaldan notað er að ekki nægir að sanna gáleysið heldur þarf að sanna að nauðgun hafi átt sér stað samkvæmt lögum. Í norrænum rétti er hugtakið nauðgun skilgreint út frá verknaðaraðferðum, þ.e. með ofbeldi, hótunum, ólögmætri þvingun, og/eða að brotaþoli hafi verið í slíku ástandi að hafa ekki getað spornað við verknaðinum. Hér má benda á að í engilsaxneskum rétti er nauðgun skilgreind út frá skorti á samþykki og spurning hvernig gáleysisákvæði myndi virka í því samhengi en það er önnur umræða. Áður en gáleysisákvæðið var tekið upp í norskum lögum höfðu margir áhyggjur af því að ákvæðið myndi leiða til þess að sakfellingum fyrir nauðgun af ásetningi myndi samhliða fækka. Þó svo að dæmi sé um gáleysisdóma þar sem færð hafa verið sterk rök fyrir að hefðu átt að ljúka í sakfellingu af ásetningi þá hefur verið sýnt fram á að gáleysisákvæðið hafi almennt ekki leitt til fækkunar á slíkum dómum.
Vegna þess að lögin og réttarkerfið er uppbyggt af mörgum samverkandi þáttum þá er erfitt að segja til um hvaða niðurstöðu mætti vænta af tilteknum breytingum og hvaða óvæntu hliðarafleiðingar þær geta haft. Ekki síst er það mannlegi þátturinn, þ.e. þekking, reynsla og viðhorf ólíkra fagaðila sem að málunum koma, sem erfitt er að sjá fyrir hvernig gæti þróast í þessu samhengi. Eins er óljóst hvaða áhrif slíkt ákvæði hefði á samfélagslegan skilning á nauðgun. Ætla má að flestum brotaþolum þætti skárra að að málinu ljúki í sakfellingu fyrir nauðgun af gáleysi, þótt það endurspegli ekki þeirra upplifun af ofbeldinu, frekar en að málinu ljúki með niðurfellingu eða sýknu. Það má þó gera ráð fyrir því að ef nauðgun af gáleysi yrði tekið upp þá myndu slík brot varða við lægri refsingu.
Það er því að mörgu að huga og erfitt að spá fyrir um hvernig ákvæði um nauðgun af gáleysi myndi reynast í íslenskum rétti og hvaða þýðingu það myndi hafa í íslensku samfélagi. Eina leiðin til að komast að því væri að lögfesta slíkt ákvæði og fylgjast svo náið með þróuninni.
Höfundur er doktorsnemi í réttarfélagsfræði við háskólann í Lundi.
Athugasemdir