Illugi Gunnarsson menntamálaráðherra uppskar lófaklapp frá fundargestum á sameiginlegum íbúafundi Fjallabyggðar og Dalvíkurbyggðar sem fram fór 28. maí síðastliðinn. Það var kærkomið fyrir ráðherrann því vikurnar á undan hafði hann drukkið bensín upp á hvern dag, hafði ýmist ekki látið ná í sig til að ræða mál sem brunnið hefur á íbúum Norðurlands eða var tvísaga, hljóp undan ábyrgð sinni.
Orðalagið að drekka bensín frekar en að axla ábyrgð rekur rætur til raunverulegra atburða sem áttu sér stað á Norðurlandi árið 1981 í Laugaskóla, sem Illugi reyndi að sameina við MA og Tröllaskaga en hefur nú runnið á rassinn með. Sá sem hér skrifar dvaldi einn vetur í Laugaskóla fyrir 35 árum og deildi ég herbergi með frænda mínum, Mývetningnum Jóhanni Kristjánssyni, sem ávallt er kallaður Issi. Þennan vetur vorum við Issi jafnan glaðir en lærðum þó einnig ýmislegt um alheimssársaukann, svokallaðan Weltschmerz, líkt og Illugi hefur kynnst í þingmennsku og á ráðherrastóli. Ólíkt Illuga höfum við Issi aftur á móti báðir áttað okkur á að við tveir áttum stærsta þáttinn í okkar eigin alheimssársauka, sem vel að merkja varð hvað verstur daginn sem við drukkum bensínið. Forsaga bensíndrykkkunnar er að við Issi vorum afar latir að mæta í kennslustundir líkt og Illugi er latur að mæta á þing og latur að svara spurningum fjölmiðla. Einn morguninn höfðum við Issi ekki geð í okkur að mæta í skólann eins og var þó skylt, heldur létum sendiboða skrá okkur veika í gegnum skólaskrifstofu eldsnemma morguns. Það gerir fólk stundum þegar það nennir ekki að axla ábyrgð. Við höfðum þóst veikir áður þegar letin bauð okkur í partý. Við höfðum komist upp með okkar skróp og leti án þess að vera reknir úr skólanum. Hví þá ekki að endurtaka leikinn?
„Við höfðum komist upp með okkar skróp og leti án þess að vera reknir úr skólanum. Hví þá ekki að endurtaka leikinn?“
Við skrópdrengirnir tveir höfðum hvílt námslúin bein okkar í þingeyskri stórhríð þennan dimma dag í heila tvo klukkutíma undir hlýjum sængum á herbergi okkar á Draugasteini meðan bekkjarfélagar okkar strituðu markvisst í skólastofunum. Birtist þá vinveittur skólafélagi í herberginu okkar í löngu frímínútunum og færði þau ótíðindi óðamála að skólastjóra grunaði að við værum að ljúga til um að við værum veikir í raun. Skólastjórinn kæmi brátt til okkar með rassamæli mikinn að vopni og sá var ekki ríkiseign! Lengi hefði legið fyrir hugboð hjá skólastjórnendum um að veikindaréttur væri misnotaður í skólanum. Ætti nú í eitt skipti fyrir öll á fá úr því skorið hvort nemendur segðu satt um veikindi sín eða ekki. Óheiðarleiki varðaði brottrekstri. Einkum fyrir þá sem höfðu fyllt skrópkvótann eins og háttaði til um okkur Issa.
„Guð minn góður!“ hrópaði ég örvæntingarfullur, alveg hreint stálsleginn líkamlega sem hlaut að óbreyttu að undirstrika dauðadóm sem vomaði yfir menntalegri framtíð vorri. Issi var nákvæmlega eins fullfrískur og ég en hugsaði skýrar, fannst óvarlegt að setja allt traust á Almættið í pælingum okkar um þennan rassamæli og áhrif hans. Issi rifjaði leifturnöggt upp aðferð sem hann hafði lesið um í Sven Hazel bók til að „gera okkur veika á sem skemmstum tíma“, eins og hann orðaði það. Ég hafði heyrt að hægt væri éta tannkrem til að fá sótthita ef nóg væri étið, en það var sagt taka lengri tíma. Þegar Issi hljóp yfir planið hélt ég að hann væri að grínast. En hver grínast á örlagastundum þegar framtíðin er undir. Ráðagerðin hljómaði vissulega hryllilega, en ekki var önnur í boði. Við höfðum allt að vinna en engu að tapa. Í hendur Issa og Sven Hazel fól ég örlög mín og hefur maður stundum bæði fyrr og síðar veðjað á betri hesta.
Issi hljóp niður í kjallara þar sem hann geymdi bensín sem hann notaði á forláta skellinöðru sína. Á sama tíma æddi ég inn í herbergi til Jörgens Þormóðssonar þar sem ég vissi af strásykri. Svo blönduðum við Issi þessu tvennu saman, leystum upp sykurinn í tveimur glösum fullum af bensíni. Lyftum beiskum oktanbikurum að vörum, signdum oss, skáluðum í botn og hlupum á staðnum að neyslu lokinni til að auka enn líkamshitann.
Til að gera langa sögu stutta lifðum við Issi þetta báðir af, eins og augljóst má a.m.k. vera um þann sem hér skrifar söguna. Við lifðum það af að skólastjórinn rétti okkur rassamælinn. Hið ótrúlega gerðist að þegar mælitækið var dregið út úr mývetnskum smáþörmum vorum sýndi niðurstaðan að við vorum báðir með hita á bilinu 38-39. Við vorum því taldir veikir, sem við vorum. Við sluppum við brottrekstur en það sem ekki skipti minna máli - og komum við þá aftur að Illuga menntamálaráðherra - var að bensíndrykkjan hafði þær afleiðingar að öll innyfli okkar Issa umturnuðust um leið og skólastjóri yfirgaf herbergið. Það var ekki bara að við fengjum mjög háan hita heldur ældum við eins og múkkar klukkustundum saman. Við mættum í skólann daginn eftir, gráir og guggnir. Ég man enn ropann yfir morgunverðinum þegar blandaðist saman lýsi og síðustu leyfar bensínbragðsins í munninum. Við tóku nokkrir vondir dagar með höfuðverk, þoku og alhliða einbeitingarskorti. Við bensínfélagarnir og vinirnir náðum þó að klára veturinn og útskrifast.
„Út frá þröngu sjónarhorni mætti staðhæfa að ætlunarverkið hafi tekist og að árangurinn af bensíndrykkjunni hafi verið jákvæður.“
Út frá þröngu sjónarhorni mætti staðhæfa að ætlunarverkið hafi tekist og að árangurinn af bensíndrykkjunni hafi verið jákvæður. En aldrei hefur okkur Issa dottið í hug að drekka bensín aftur. Reynslan kenndi okkur að það er örþrifaráð að drekka bensín. Kúnstin er að koma sér ekki í þær aðstæður að maður þurfi að drekka bensín til að bjarga eigin skinni. Munurinn á Illuga og okkur bensíndrengjunum úr Laugaskóla er að við gripum til örþrifaráða aðeins einu sinni, eftir að hafa brotið af okkur, en Illugi er sífellt á flótta undan ábyrgð sinni, lætur eins og hann sé annar maður en hann er, drekkur bensín út í eitt þegar það hentar honum og endar sennilega að óbreyttu með bruna eða að ráðherra springur í loft upp.
Nema Illugi hætti þeim ósið sínum að þykjast annað en hann er, svari spurningum fjölmiðla um leið og þær koma upp, mæti í skólann sinn og tileinki sér samstarf með öðrum.
Athugasemdir