„Allar skoðanir skal endurmeta um leið og ný viðhorf myndast,“ skrifaði Vigdís Finnbogadóttir með rauðum tússpenna á spegil á heimili sínu þegar hún var fertug. Viðhorf samfélagsins til fatlaðs fólks hafa sem betur fer breyst heilmikið síðustu áratugina og við horfum til baka með hryllingi til þess tíma þegar fatlað fólk var tekið úr samfélaginu og lokað af inni á stofnunum, valda-, varna- og réttindalaust.
En þrátt fyrir breytt viðhorf erum við ófötluðu, flest algerlega ómeðvituð um fordóma okkar gagnvart fötluðu fólki og þau forréttindi sem við búum við. Okkur finnst algjörlega sjálfsagt að samfélagið sé hannað út frá okkar þörfum og væntingum og tökum oft ekki eftir þeim hindrunum sem fatlað fólk rekst á. Þær skoðanir fólks að örorkubætur eigi að vera lægri en lágmarkslaun byggja á því viðhorfi að það sé nóg fyrir fatlað fólk að fá minna en aðrir. Með öðrum orðum að fólk eigi alla ævi ekki skilið annað en að lifa undir fátækramörkum, vegna þess að það er fatlað. Botninum er svo eiginlega náð þegar farið er fram á að fólk með fatlanir eigi að vera háð ölmusum og vera þakklátt öllu fólki sem vill „hjálpa“ þeim í stað þess að það eigi rétt á stuðningi. „Ég er komin með nóg af fólki með góðgerðafíkn,“ sagði Iva Marín Abrichem í ræðu á málþingi í fyrra. Skiljanlega. Hún á ekkert að þurfa að vera sérstaklega þakklát fyrir þau sjálfsögðu mannréttindi að „fá“ að taka þátt í samfélaginu.
Jákvæðir fordómar birtast oft í að fólk hrósar fötluðu fólki fyrir og byggir það á því viðhorfi að skoða beri afrek fatlaðra og frammistöðu í öðru ljósi en ófatlaðra. Það er ekkert endilega ástæða til að hrósa fólki fyrir að vinna, fara í skóla, mála sig eða hvað annað sem er hluti af því að vera til. Inga Björk Bjarnadóttir hefur lýst því vel hve meiðandi það er þegar ófötluð manneskja horfir niður á fatlaða manneskju með vorkunn og sérstaklega þegar það er gert með því viðhorfi að líf fatlaðra sé ægilegur harmleikur. Það er særandi og leiðir til þess að fötluðu fólki finnst það vera annars flokks borgari.
Aileen, formaður Átaks, félags fólk með þroskahömlun, hefur haldið marga fyrirlestra um fordómana sem fólk með þroskahömlun verður fyrir og meðal annars bent á þá einföldu staðreynd að fólk með þroskahömlun verður fullorðið eins og annað fólk. Það eru fordómar að koma fram við þroskaskerta eins og þeir séu börn en það er oft gert, þeim er vantreyst, jafnvel ekki trúað auk þess sem ófatlaðir telja sig gjarna vita betur hvað er þeim fyrir bestu. Hagsmunasamtök fatlaðs fólks hafa verið dugleg að benda á þessa mismunun og það óréttlæti sem fatlað fólk verður fyrir á hverjum degi og viðhorfin eru smátt og smátt að breytast og þá verðum við um leið að gera eins og Vigdís, og endurmeta skoðanir okkar og athafnir. Sú skoðun sem oft heyrist, að hagsmunasamtök fatlaðra séu að fara fram á of mikið, séu aldei ánægð og svo framvegis byggja á þeim gamaldags viðhorfum að fólk með fatlanir þurfi ekki full mannréttindi en eigi að vera ánægt með það sem okkur hinum finnst nóg fyrir það.
Sam-félag
Mér finnst gott að hugsa um samfélag sem félagsskap fólks sem stendur saman. Það leggur í sameiginlegan sjóð sem sér til þess að samfélagið sé gott fyrir alla sem í því eru og enginn sé útundan. Við höfum mismunandi forsendur og þurfum mismunandi stuðning en öll þurfum við stundum stuðning og flest öll getum við borgað inn í sjóðinn sem tryggir velferð okkar allra.
Mig langar að biðla til þín sem lest þessar línur að taka nokkrar mínútur og hugsa um hvað það er virkilega sem er dýrmætt í þessu lífi. Kannski er það ekki að börnin okkar fæðist með 10 fingur og 10 tær og passi inn í boxið sem við höfum skilgreint sem heilbrigði heldur það að viðurkenna að við erum öll einstök og að okkur líður best þegar við stöndum öll saman. Það sem innilega gleður foreldra til dæmis er að sjá börnin sín hamingjusöm.
Við erum öll jöfn, og samfélag þar sem virðing er borin fyrir öllum, og öllum er gert mögulegt að taka þátt, yrði farsælt og auðugt af hamingju og fjármunum. Hver veit þegar upp er staðið hvaða framlag var verðmætast eða hvaða verðmæti eru að fara í súginn meðan við takmörkum þátttöku fjölda fólks frá samfélaginu. Nú þegar við höfum loksins lögfest samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks endurskoðum þá skoðanir okkar út frá þeim viðhorfum sem nú ríkja og mótum samfélag sem er fyrir alla.
Athugasemdir