Góðærið sem er komið núna minnir frekar á árin 2002 og 2003 en 2007, samkvæmt úttekt Stundarinnar. Það var þá sem verið var að leggja drögin að þeim mistökum sem stefndu okkur í efnahagshrun.
Þetta þýðir að núna er rétti tíminn til að taka ákvarðanir til að fyrirbyggja að þetta góðæri endi illa.
Til þess þarf að læra af fortíðinni. „Við þurfum að halda fram á veginn og einbeita okkur að því verkefni,“ segir Unnur Brá Konráðsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, hins vegar. Hún er mótfallin því að gerð verði stjórnsýsluúttekt á Seðlabanka Íslands, eins og ákveðið var á Alþingi fyrir fimm árum. Kannski hefur það áhrif að fyrrverandi formaður flokksins hennar stýrði Seðlabankanum á þeim tíma sem starfsemin var vafasöm og var síðan rekinn í andstöðu við núverandi formann Sjálfstæðisflokksins á þeim skamma tíma sem flokkurinn missti völdin eftir að hafa staðið af sér langvarandi mótmæli.
Lögum um ábyrgð ráðherra og landsdóm til að meta hana hefur ekki verið breytt, þrátt fyrir að sjálfstæðismenn hafi lýst þeim sem meingölluðum eftir að fyrrverandi formaður þeirra var dæmdur samkvæmt þeim, með þeim hætti að núverandi formanni „blöskraði“. Og þrátt fyrir að annar fyrrverandi formaður hafi komið lögunum á. Og þeir hafi sjálfir skipað flesta dómarana.
Firringin gagnvart ábyrgðinni er enn svo mikil að þingmaður Sjálfstæðisflokksins, Óli Björn Kárason, telur mikilvægast af öllu að rannsaka hvernig höfðað var mál gegn Geir Haarde fyrir að brjóta gegn ráðherraábyrgð, sem leiddi til dóms yfir honum. Þetta er í samræmi við áherslur sem heyrast æ oftar frá þeim sem starfa fyrir þá sem tengdust ábyrgð í bankahruninu. Bókaútgáfa sem er í eigu kjarnameðlima Sjálfstæðisflokksins, og sem stýrt er af fyrrverandi starfsmönnum Kaupþings, gefur út hverja bókina á fætur annarri með söguskýringum um Búsáhaldabyltinguna og rannsókn á efnahagsglæpum í aðdraganda hrunsins. Einn af eigendum hennar, Hannes Hólmsteinn Gissurarson, leggst gegn rannsóknum á efnahagsglæpum í samtali við Stundina: „Það er þó sorglegt til þess að vita, að margir snjallir fjármálamenn skuli þurfa að eyða tíma sínum í tilgangslaus málaferli, á meðan við gætum nýtt krafta þeirra til að skapa arð.“
Ritstjóri Fréttablaðsins er á sama máli, ritstjóri Morgunblaðsins er nátengdur Hannesi og ritstjóri DV er nú á sama máli líka. Hannes leggst síðan gegn gagnrýninni umræðu, segir að „netormar“ séu að reyna að „naga í sundur“ undirstöður Íslands.
Helsti lærdómur þeirra er að við þurfum að gera upp uppgjörið, frekar en vandamálið sjálft. Í vissum tilfellum mætti kalla það öfugan lærdóm af hruninu.
Árið 2002 fór fram einkavæðing bankanna. Það virðist endanlega hafa verið hætt við að rannsaka síðustu einkavæðingu bankanna, sem ákveðið hafði verið árið 2010 til að læra af fortíðinni. Nú stendur til að selja þriðjung í Landsbankanum. Ekki aðeins skal það gert heldur vildi Bjarni Benediktsson leggja niður Bankasýslu ríkisins, sem átti að vera veggurinn á milli eigna ríkisins og áhrifa stjórnmálamanna til að fyrirbyggja spillingu. Þegar Bjarna tókst ekki að fá þeim vilja sínum framgengt skipaði hann fyrstu pólitísku stjórnina yfir Bankasýsluna. Svo vill til að ein umdeildasta sala á eign ríkisins frá hruni var sala Landsbankans á kreditkortafyrirtækinu Borgun til náinna ættingja Bjarna og fleiri. Hann er líklegur til að verða krosstengdur inn í viðskipti sem munu heyra undir ráðuneyti hans, en hann vill fá þessi völd.
Hinn forsprakki ríkisstjórnarinnar, forsætisráðherrann Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, er einnig áfram um að auka völd sín. Hann er horfinn aftur til tíma Jónasar frá Hriflu og hefur náð í gegn lagabreytingum sem gefa honum sjálfum völd til að ákvarða verndarsvæði í byggð, samkvæmt eigin mati á mikilvægi húsa. Hann hefur boðað fleiri lagabreytingar sem veita honum vald til að taka lönd og byggingar eignarnámi.
„Í fyrsta lagi að forðast dramb, oflæti og sjálfshól“
Sagnfræðingurinn Guðni Th. Jóhanesson segir í samtali við Stundina að lærdómurinn af síðasta góðæri sé „í fyrsta lagi að forðast dramb, oflæti og sjálfshól“. Svo óheppilega vill til að Sigmundur Davíð hefur tileinkað sér þjóðrembing umfram aðra stjórnmálamenn.
Annar lærdómur er að fóstra gagnrýni frekar en að útiloka hana. Svo óheppilega vill til að Sigmundur Davíð hefur sýnt sérstakt óþol fyrir gagnrýni og meðal annars ályktað að þjóðin sé veruleikafirrt fyrir að styðja hann ekki meira. Viðhorfin við stjórn ríkisins eru því fremur óvinveitt lærdómi af sögunni.
Þegar kemur að hagkerfinu varð ljóst að ekki yrði tekinn upp stöðugur gjaldmiðill eftir að Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn lofuðu þjóðaratkvæðagreiðslu um áframhaldandi aðildarviðræður við Evrópusambandið, en hættu við.
Það sem hagfræðingar óttast einna mest er að styrking krónunnar leiði til aukinnar einkaneyslu og verðbólgu. Með því minnkar sjálfbærni efnahagslífsins. Það sem ríkisstjórnin hefur gert í því er að lækka skatta á innflutt raftæki, bíla og fleira, sem stuðlar að aukinni einkaneyslu og innflutningi, sem mun láta okkur líða vel til skamms tíma.
Krónan hefur eðlislægan eiginleika til að valda óstöðugleika og ýkja hann upp. Hún mun fyrirsjáanlega valda ófyrirséðum sveiflum í hagkerfinu. Þannig hefur hún, og reynsla fólks af henni, áhrif á gildismat og fjármálalega hegðun landsmanna. Hún fóstrar skammtímahugsun, bæði hjá fyrirtækjum og heimilum. Þeir sem vilja langtímahugsun þurfa að flytja úr landi.
Og ef krosstengsl fjármálaráðherra, dramb og valdasókn forsætisráðherra og vangeta til að læra af fortíðinni er ekki nóg áhyggjuefni, má vissulega hafa áhyggjur af tilhneigingu stjórnmálamanna til að útdeila úr sameiginlegum sjóðum okkar til að kaupa sér sigur í kosningum. Það er bara rúmlega eitt og hálft ár í næstu kosningar og tími til kominn að kosningapartýið byrji.
Athugasemdir