Stundin hefur nú verið til í eitt ár. Föstudaginn 13. febrúar 2015 kom fyrsta tölublaðið út, með stuðningi og þátttöku almennings í gegnum hópfjármögnunarsíðuna Karolina Fund. Tilgangurinn með stofnun Stundarinnar var að skapa vettvang til að stunda blaðamennsku sem krefðist aukinnar heimildaöflunar, svokallaða rannsóknarblaðamennsku. Tilgangurinn var líka að starfrækja fjölmiðil sem hefði hvata og getu til að veita valdaöflum aðhald upp að einhverju marki.
Hvernig lifum við?
Tvennt getur skapað góðar aðstæður fyrir gagnrýna rannsóknarblaðamennsku:
1. Að bakland ritstjórnarinnar umberi og helst hvetji til hennar, sem krefst þess að eignarhald sé verulega dreift og/eða óháð valdaöflum.
2. Að lesendur umberi og hvetji til gagnrýninnar blaðamennsku, til dæmis með því að fordæma hana ekki og/eða að kaupa áskrift að miðli sem stundar hana.
Yfir 60% af tekjum Stundarinnar koma frá almennum borgurum, sem hafa gerst áskrifendur eða kaupa prentútgáfu miðilsins í verslunum. Það er bæði forsenda þess að Stundin lifir og lykilatriði gagnrýninna umfjallana. Stundin er fyrst og fremst háð lesendum sínum.
Viðtökurnar fóru fram úr björtustu vonum. Vegna fjölda áskrifenda varð fljótlega hægt að stækka ritstjórnina og útgáfudögum var fjölgað í tvo á mánuði, eftir að könnun meðal áskrifenda leiddi í ljós að vilji var til þess. Fréttavefsíða Stundarinnar er sótt af 70 til 120 þúsund notendum í hverri viku og hefur áskrifendum á vefnum fjölgað stöðugt frá stofnun hans. Nýlega var Stundin valin vefmiðill ársins af Samtökum vefiðnaðarins.
Hvað höfum við gert?
Það sem gengur vel byggir á framlagi fjölda fólks. Þar ber helst að nefna áskrifendur og þá sem rannsaka og skrifa efni í Stundina. Hér er brot af því sem skrifað hefur verið í Stundina á árinu:
Ingi Freyr Vilhjálmsson blaðamaður afhjúpaði veruleg hagsmunatengsl Illuga Gunnarssonar menntamálaráðherra og Orku Energy með fréttaröð á vef Stundarinnar. Hann sýndi fram á þögla einkavæðingu í heilbrigðiskerfinu og umfangsmiklar tilraunir til að græða á veikindum fólks, auk þess sem hann greindi hvernig verið væri að ráðstafa tugmilljarða virði af auðlindum Íslendinga til ákveðinna einstaklinga.
Áslaug Karen Jóhannsdóttir blaðamaður sýndi fram á hvernig foreldrar, sem missa börn sín, eru skildir eftir án hjálpar í kjölfar áfallanna. Þá hefur hún fjallað um þöggun kynferðisbrota, baráttuna gegn henni, aukin fjárframlög til þjóðkirkjunnar þrátt fyrir hnignun hennar og varði tíma á Landspítalanum þar sem starfsfólk er að bugast undan álagi og sjúklingar vistaðir á salernum.
Hjálmar Friðriksson blaðamaður leiddi umfjöllun um byltinguna gegn þöggun um kynferðisbrot sem spratt upp inni á Beauty-tips í kjölfar þess að ummælum um landsfrægan lögmann var hent þaðan út. Hann tekur nú saman feril þessa manns, í tengslum við vafasöm samskipti hans við ungar stúlkur.
Reynir Traustason tók meðal annars viðtöl við eitthvert umtalaðasta fólk landsins, hjúkrunarfræðing sem ákærð var fyrir manndráp og Malín Brand, sem var flækt inn í fjárkúgunartilraun á forsætisráðherra.
Jóhann Páll Jóhannsson greindi valdatafl innan lögreglunnar í kjölfar lekamálsins og rannsakaði hver bar ábyrgðina á því að stöðva sögulega tilraun til að innleiða lýðræðislega unna stjórnarskrá.
Jón Bjarki Magnússon varpaði ljósi á hamskipti Framsóknarflokksins og þær hugmyndafræðilegu breytingar sem hafa orðið hjá flokksforystunni á kjörtímabilinu. Auk þess greindi hann áróðurstæknina sem aðstoðarmaður forsætisráðherra beitir, rót hennar og bakgrunn.
María Lilja Þrastardóttir deildi reynslu sinni af fóstureyðingu og rannsakaði hvernig viðmóti konur mæta í kerfinu.
Benjamín Julian skrifaði vettvangsgreinar um matarsóun á Íslandi, fjölástarsambönd og lífsbaráttu hælisleitenda í Grikklandi.
Svava Jónsdóttir ræddi meðal annars við íslenskan friðargæsluliða sem barðist einn og yfirgefinn við afleiðingar þess að fá bandorm við störf sín sem fulltrúi Íslands.
Auk þess skrifuðum við á Stundinni um múslimahatrið, aðförina að frelsi fjölmiðla, flóttann frá Íslandi, stríðið um ósnortna landið, konur sem beita börn og maka ofbeldi og greiningu á hæfni ráðherra. Blaðamaður og ljósmyndari voru á vettvangi nóttina þegar langveikt barn var flutt úr landi í lögreglufylgd. Kristinn Magnússon tók mynd af Kevin litla, fimm ára, þar sem hann stendur í dyragættinni með tuskudýr í höndinni og starir út í myrkrið bíðandi þess að lögreglan komi að sækja hann og senda aftur til Albaníu, þar sem hann hefði líklega ekki lifað til tíu ára aldurs.
Þetta er aðeins brot af þeirri umfjöllun sem birst hefur í Stundinni á fyrsta árinu, og er þá óupptalinn fjöldi færra pistlahöfunda sem hafa greint og gagnrýnt.
Hvað næst?
Helsta ógnin við gagnrýna blaðamennsku er þegar miðillinn er háður hagsmunaaðilum með einhverjum hætti. Þannig hafa eigendur fyrirtækja völd sem þeir geta beitt með því að banna kaup á auglýsingum í miðlinum. Fyrr í vetur kaus ríkisstjórn Íslands að setja auglýsingafé úr ríkissjóði í prentmiðlana Fréttablaðið, Morgunblaðið, Viðskiptablaðið, DV og Féttatímann og í vefmiðilinn Eyjuna, en hafnaði boði um að auglýsa í prentútgáfu Stundarinnar, á Stundin.is og í miðlum annarra sjálfstæðra vefmiðlafyrirtækja. En með því að geta treyst á breiðan stuðning áskrifenda tengist Stundin almannahag fremur en sérhagsmunum.
Við vonum að Stundin hafi haft nóg fram að færa í umræðu og greiningu þjóðfélagins á fyrsta árinu og vonumst til þess að hún fái stuðning, hvatningu og kröfu um að halda áfram á öðru ári, sem og aðrir fjölmiðlar sem stunda gagnrýna rannsóknarblaðamennsku. Við þökkum ykkur fyrir að gera þetta mögulegt.
Nýjasta tölublaðið má lesa hér.
Athugasemdir