Gagnsóknin gegn þolendum kynferðisbrota og opinni umræðu um þessi mál er hafin. Á undanförnum árum hefur umræðan um þessi mál smám saman verið að opnast þar til algjör bylting varð í fyrra. Eftir því sem svigrúmið eykst og fleiri stíga fram til að segja sögu sína verður æ algengara að meintir gerendur og lögmenn þeirra spyrni við fótum og sæki hart að þeim sem fjalla um slík mál. Tveir lögmenn hafa farið þar fremst í flokki, þeir Sveinn Andri Sveinsson og Vilhjálmur H. Vilhjálmsson.
Árið 2012 var Egill Einarsson kærður fyrir að nauðga stúlku ásamt kærustu sinni. Viðbrögð hans mörkuðu það sem á eftir kom.
Fyrst var ráðist að trúverðugleika stúlkunnar. Það hafði verið þekkt stef í varnartaktíkinni um langt skeið. Það kom því ekki mjög á óvart þegar Egill sendi frá sér yfirlýsingu þar sem hann lét að því liggja að stúlkan hefði sent á hann handrukkara. Sveinn Andri, sem var ekki lögmaður Egils og hafði enga aðra aðkomu að málinu en að vega að trúverðugleika stúlkunnar, setti einnig fram samsæriskenningu sem gekk út á að kæran væri tilkomin vegna femínista í hefndarhug.
Egill gekk hins vegar lengra en áður hafði tíðkast þegar hann ákvað að kæra stúlkuna fyrir rangar sakargiftir áður en niðurstaða lá fyrir í nauðgunarmálinu, auk þess sem hann kærði vinkonur hennar sem voru vitni í málinu einnig fyrir rangar sakargiftir. Það var líka nýmæli að þegar málinu var vísað frá hjá ríkissaksóknara hóf Vilhjálmur herferð, elti uppi einstaklinga sem höfðu tjáð sig um málið og stefndi þeim fyrir ærumeiðingar, fyrir hönd Egils.
Seinna kom í ljós að Vilhjálmur vill minnka umræðu um kynferðisbrot á Íslandi. „Ég held að réttarkerfið á Íslandi í kynferðisbrotamálum, að það virki mjög vel. Sérstaklega fyrir brotaþola. Það er mikil og opin umræða um kynferðisbrotamál á Íslandi. Og raunar alltof mikil á köflum,“ sagði hann í vetur.
Reyndar er rangt að réttarkerfið virki vel fyrir þolendur kynferðisbrota. Erfið sönnunarstaða og lágt sakfellingarhlutfall einkennir þessi mál. Árið 2010 leituðu á milli 200-300 einstaklingar til Stígamóta og á Neyðarmóttöku vegna nauðgana. Stærstur hluti þeirra kærði ofbeldið aldrei til lögreglu, en af þeim 32 málum sem enduðu hjá ríkissaksóknara fóru 13 fyrir dóm og sakfellt var í sex. Í rannsókn á viðhorfum fagaðila innan réttarvörslukerfisins kemur fram að kynferðisbrot hafa sérstöðu, vegna þess að í flestum tilvikum eru sakborningar „venjulegir menn“ sem hafa ekki áður komist í kast við lögin, og brotaþolar eru tregir til að kæra, af ótta við að þeim verði ekki trúað og fordæmingu vina og kunningja.
„Það er ekki bara vonlítið að ná fram réttlæti, heldur á fólk á hættu að vera úthrópað glæpafólk.“
Í hegningarlögum er ákvæði um að hægt sé að fá mann dæmdan til sekta og árs fangelsis fyrir að meiða æru annars manns með móðgunum. Þar er einnig kveðið á um að aðdróttanir sem verða virðingu manns til hnekkis geti varðað sektum eða árs fangelsi. Vilhjálmur hefur ítrekað nýtt þetta ákvæði til að reyna að þagga niður í umræðunni um kynferðisbrot, sem er allt of mikil að hans mati.
Í byrjun síðasta árs sendi hann til dæmis hótun á Akureyri vikublað vegna frásagnar ungrar konu af meintum kynferðisbrotum í Grímsey. Hann hótaði Fréttablaðinu málsókn ef það bæðist ekki afsökunar og greiddi 20 milljónir í bætur fyrir fréttaflutning af meintum nauðgunum í Hlíðunum.
Líklega eru engin dæmi um að harðar hafi verið gengið fram gagnvart þeim sem reyna að leita réttar síns vegna kynferðisbrota eins og í þessu tilfelli. Vilhjálmur lét ekki nægja að hafa í hótunum við Fréttablaðið, heldur kærði hann báðar stúlkurnar fyrir rangar sakargiftir fyrir hönd skjólstæðinga sinna. Hann gekk síðan enn lengra og kærði aðra stúlkuna á móti fyrir kynferðislega áreitni og nauðgun. Málunum var vísað frá.
Nýlega hótaði Vilhjálmur blaðamanni Stundarinnar því að draga hann fyrir dóm bæðist hann ekki afsökunar og greiddi milljón innan nokkurra daga, fyrir að segja fréttina af því að ritstjóri Grapevine hefði hætt eftir að þrjár konur kvörtuðu við útgefanda undan framgöngu hans.
„Tjáningarfrelsi gildi ekki aðeins um upplýsingar sem falla í góðan jarðveg heldur einnig þær sem hneyksla eða koma illa við fólk.“
Sveinn Andri hefur beitt svipaðri taktík, að hóta málsóknum fyrir ærumeiðingar og rangar sakargiftir. Í fyrra var skjólstæðingur hans sýknaður af hópnauðgun á sextán ára stelpu. Um leið og dómur féll sagðist hann íhuga að kæra stúlkuna fyrir rangar sakargiftir. Aðrir verjendur í málinu sögðu það hins vegar af og frá.
Við það tækifæri gekk talskona Stígamóta svo langt að segja að nú rigndi eldi og brennisteini, það sé varla hægt að mæla með því að kæra kynferðisbrot á Íslandi þegar fólk getur átt von á svo harkalegum árásum fyrir að leita réttar síns. „Það er ekki bara vonlítið að ná fram réttlæti, heldur á fólk á hættu að vera úthrópað glæpafólk. Það getur átt von á að vera kært fyrir falskar ásakanir og þurfa þá að sanna það sem lögreglunni tekst oftast ekki að sanna, að nauðgun hafi átt sér stað.“
Þetta óljósa meiðyrðaákvæði í hegningarlögunum er gott tæki til þöggunar sem gjarna er beitt gegn blaðamönnum þegar þeir segja óþægilegar fréttir, jafnvel þótt þær séu sannar, enda vel hægt að móðgast sannleikanum. Þetta er aðferð sem virkar, hér á landi hafa blaðamenn verið dæmdir fyrir fréttaflutning.
Í þrígang hefur Mannréttindadómstóll Evrópu komist að þeirri niðurstöðu að íslenska ríkið hafi brotið gegn ákvæði mannréttindasáttmálans um tjáningarfrelsi með slíkum dómum. Til grundvallar niðurstöðunni liggur sá skilningur að tjáningarfrelsi gildi ekki aðeins um upplýsingar sem falla í góðan jarðveg heldur einnig þær sem hneyksla eða koma illa við fólk. Það sé hlutverk fjölmiðla í lýðræðissamfélagi að miðla upplýsingum um öll málefni er varða hagsmuni almennings og réttur almennings að fá þær. Þá verði að taka tillit til þess þegar einstaka fréttir eru innlegg í stærri umræðu um mikilvæg málefni.
Á síðustu árum hafa þolendur kynferðisbrota gert uppreisn gegn hugmyndum sem halda að þeim skömm og sektarkennd. Þeir hafa krafist þess að raddir þeirra fái að heyrast og reynsla þeirra sé ekki afskrifuð, að þeim sé trúað þrátt fyrir órökrétt viðbrögð, að þeir fái stuðning og sanngjarna málsmeðferð í réttarkerfinu. Þetta hafa þeir gert með látum, með því að fylkja liði í druslugöngum, hefja byltingar á netinu og stíga fram hver á fætur öðrum og segja sögu sína í fjölmiðlum. Um leið og þessi barátta er háð er markvisst reynt að þagga niður í umræðunni, ráðast að trúverðugleika þeirra, hóta málsóknum og kæra þolendur þegar þeir leita réttar síns fyrir rangar sakargiftir, jafnvel nauðgun.
Athugasemdir