Það er merkilegt að fylgjast með valdamesta manni landsins stilla sér upp sem fórnarlambi. Þegar rannsóknarblaðamenn komust á snoðir um leynilegt aflandsfélag eiginkonu forsætisráðherra í skattaskjóli birti hún upplýsingar um félagið sem svar við „Gróu á leiti“ þar sem „allt er gert tortryggilegt“ í pólitíkinni. Rétt er að geta þess að í yfirlýsingunni voru aðeins gefnar upplýsingar um tilvist félags sem skráð væri erlendis, ekki að það væri í skattaskjóli, ekki af hverju og ekki sýnt fram á það hversu miklar eignir eru í félaginu og því engin leið að staðfesta orð hennar um að skattur hafi verið greiddur til fulls. Hins vegar kvaðst eiginkona hans vera undir sérstöku eftirliti til að tryggja rétt skattaskil, en sýnt hefur verið fram á að slíkar reglur eru ekki til. Þá kom heldur ekkert fram um að félagið hefði gert kröfur upp á hálfan milljarð í slitabú föllnu bankanna, heldur kvartað undan rógburði: „Er ekki betra að beina orkunni í að tala um eitthvað sem skiptir raunverulega máli?“ spurði hún og sagði „gott samtal alltaf líklegra til að leiða til einhvers góðs en baknag um samborgarana.“
Sjálfur tók Sigmundur Davíð Gunnlaugsson í svipaðan streng og sagði „ólíðandi að ráðist sé á ættingja eða maka stjórnmálamanna til þess eins að koma á þá höggi“. Þannig stillti hann fyrirspurnum um leynifélagið upp sem árás, sem virðist virka á ákveðna hópa. Nú eru skrifaðar greinar þar sem Sigmundi Davíð er hrósað í hástert, til að byggja hann upp eftir árásirnar. „Ófrægingarmennirnir þola ekki að forsætisráðherra á alla þá kosti sem þá skortir. Hann á framsýni, kjark og dug sem þeir eiga ekki,“ skrifaði þingmaður Framsóknarflokksins um leið og hann lýsti þeirri skoðun að umræðan um eignarhald eiginkonu forsætisráðherra á aflandsfélagi á Tortola setti met í lágkúru.
„Þegar valdhafar bregða sér í hlutverk fórnarlambs fá þeir ekki aðeins samúð heldur snúa þeir umræðunni frá kjarna málsins að því hvort umræðan sjálf eigi rétt á sér.“
Þegar valdhafar bregða sér í hlutverk fórnarlambs fá þeir ekki aðeins samúð heldur snúa þeir umræðunni frá kjarna málsins, að því hvort umræðan sjálf eigi rétt á sér. Um leið varpa þeir frá sér ábyrgð og teikna upp andstæðinga, gera þá sem gagnrýna að gerendum.
Hlutverk fjölmiðla í lýðræðisríkjum er að veita valdhöfum aðhald og almenningi upplýsingar, svo hægt sé að skapa samfélag þar sem sérhagsmunir víkja fyrir almannahagsmunum. Í slíkum samfélögum er almennt talið rétt að spyrja gagnrýninna spurninga um sérhagsmuni ráðamanna. Þar þykir rétt að spyrja um leynilegt aflandsfélag í skattaskjóli í eigu eiginkonu forsætisráðherra, félag sem var skráð á þau bæði þar til hann fór að láta að sér kveða í stjórnmálum, löngu áður en þau gengu í hjónaband.
Varnartaktík forsætisráðherra og flokksfélaga hans gengur hins vegar út á að gera það rangt að spyrja slíkra spurninga, stilla því upp sem árásum – ekki aðeins á hann heldur einnig á eiginkonu hans. Í þeim tilgangi skrifaði hann pistil þar sem hann sakaði andstæðinga sína um að stökkva fram og „reyna að ná höggi á mig með því að ráðast á konu mína“.
Þetta er ekki í fyrsta sinn sem stjórnmálamenn beita þessari taktík. Þegar Illugi Gunnarsson mennntamálaráðherra varð uppvís að því að upplýsa ekki um hagsmunatengsl sín við Orku Engery stillti hann sér upp sem fórnarlambi og ákvað að birta skattframtal sitt og eiginkonu sinnar, þótt það hefði ekkert með málið að gera. Þannig reyndi hann að afvegaleiða umræðuna og kalla eftir samúð. Alveg eins og Hanna Birna Kristjánsdóttir gerði í lekamálinu. Í stað þess að gangast við ábyrgð sinni í málinu stillti hún sér ítrekað upp sem fórnarlambi, „óvandaðra blaðamanna og pólitískra andstæðinga“ og dró dóttur sína inn í umræðuna til að fá samúð.
„Gagnrýni er sögð „jaðra við ofbeldi“, talað er um „grímulausar árásir“, og kallað eftir sérfræðingum í eineltismálum...“
Listinn yfir framsóknarmenn sem hafa tekið sér stöðu fórnarlamba er langur. Það er orðin hálfgerð mantra á meðal flokksmanna að stilla fólki upp í andstæðingar fylkingar og tala um árásir, einelti, hatur og samsæri. Gagnrýni er sögð „jaðra við ofbeldi“, talað er um „grímulausar árásir“, og kallað eftir sérfræðingum í eineltismálum til að fara yfir hegðun þingmanna. Einn mesti áhrifamaður flokksins, formaður fjárlaganefndar, hefur ítrekað rætt um „hulduher“ sem standi fyrir árásum og afgreiðir fyrirspurnir um aðkomu forsætisráðherra að fjármögnun fjölmiðils sem „dylgjur, spuna og samsæri“. Pólitískt einelti hét pistill sem þingmaður Framsóknar skrifaði í fyrra um samfélagslega umræðu á netinu: „llmælgi og hatur ræður ríkjum og pólitískt einelti þykir sjálfsagt. Þetta er umræða sem lýtur stjórn örfárra einstaklinga sem lítið annað virðast hafa fyrir stafni en að dreifa óhróðri um nafngreinda einstaklinga.“ Sigmundur Davíð væri „skotmark“ þessara aðila.
Vandinn er bara sá að Sigmundur Davíð er ekki fórnarlamb. Hann er sá sem ræður, efstur í skipuritinu, sá sem heldur utan um taumana þegar kemur að stærstu ákvörðunum þjóðarinnar, einn aðalgerandinn í íslensku samfélagi. Valdi fylgir ábyrgð og því eðlilegt að ríkari kröfur séu gerðar til hans en annarra.
Fyrir hrun komust stjórnmálamenn ítrekað upp með að jaðarsetja gagnrýni, vísa henni á bug eða veitast að þeim sem settu hana fram. Við sáum hvernig það endaði. Enda taldi rannsóknarnefnd Alþingis að efla þyrfti góða rökræðusiði og siðferðisvitund stjórnmálamanna. Þeir þyrftu að setja sér siðareglur og skerpa á ábyrgð þeirra og skyldum, styrkja eftirlitshlutverk Alþingis og hafa í huga að starf þeirra væri öðru fremur þjónusta við almannaheill.
Leynd um sérhagsmuni ráðamanna á ekki að þrífast í lýðræðisríki. Leynd skapar óvissu og óvissa skapar vantraust. Ábyrgð forsætisráðherra felst í að upplýsa alla þætti málsins. Hann neitar hins vegar að ræða efnislega um málið og reynir að sannfæra okkur um að hann hafi ekki gert neitt rangt, aðkoma hans að málinu skipti ekki máli eða sé jafnvel rétt, hann sé maður að meiri fyrir að halda í þau „prinsipp“ að ræða ekki um fjármál fjölskyldunnar.
„Ef það tekst að selja hugmyndina um að það sé rangt að spyrja réttmætra spurninga geta valdhafar gert það sem þeim sýnist.“
Fyrr í vikunni skrifaði þingmaður Framsóknarflokksins pistil þar sem hann sagði afstöðu sérfræðinga sem hafa gagnrýnt stöðu forsætisráðherra ráðast af pólitík og persónulegri óvild og stillti flokknum upp sem fórnarlambi fjölmiðla, sagði að Stundin væri fjölmiðill „sem hati Framsóknarflokkinn“ og með fréttaflutningi sínum hefðu blaðamenn stráð „hatri og fyrirlitningu“. RÚV væri í „herferð gegn forsætisráðherra“ og ritstjóri Kjarnans „nær genginn af göflunum“ í „heilögu stríði“ gegn Sigmundi Davíð og Framsóknarflokknum. Slík viðbrögð við gagnrýnum fréttaflutningi sem er ekki á forsendum valdhafa eru óhugnarleg.
Vegferð þeirra reynir á mörkin. Takist þeim að breyta viðhorfum og ríkjandi gildum þannig að það þyki rangt að spyrja réttmætra spurninga um mál er varða almannahag, mun það hafa alvarlegar afleiðingar fyrir íslenskt samfélag, ekki aðeins út kjörtímabilið heldur til frambúðar. Ef það tekst að selja hugmyndina um að það sé rangt að spyrja spurninga geta valdhafar gert það sem þeim sýnist. Ef það tekst að skapa hefð fyrir því að það megi ekki og eigi ekki að ræða hagsmuni ráðamanna erum við í hættu stödd.
Nú stöndum við frammi fyrir spurningunni um það í hvernig samfélagi við viljum búa. Í samfélagi þöggunar er fólk dregið í dilka, með eða á móti, við eða hinir, stríðandi fylkingar. Allt er tortryggt og trúverðugleikinn enginn.
Athugasemdir