Terroristar hafa ekki að höfuðmarkmiði að drepa fólk. Morðin eru leið að ákveðnu markmiði, sem er að dreifa „terror“ eða skelfingu. Þannig geta þeir gert eitthvað í París, sem framkallar raunveruleg, lífeðlisfræðileg viðbrögð í heila okkar á Íslandi. Eitthvað sem breytir okkur.
Hryðjuverkamenn treysta á þetta.
Heimskan
Samfélagsleg og sálfræðileg áhrif óttans eru eftirsóknarverð fyrir terrorista. Rannsóknir sem gerðar hafa verið á rottum, og er hægt að yfirfæra yfir á önnur spendýr upp að vissu marki, sýna að ítrekuð óttaviðbrögð gera rotturnar minna félagslegar og minna leitandi. Í stuttu máli breytir óttinn okkur þannig að við forðumst að kynna okkur þá sem eru öðruvísi en við og við veigrum okkur við að skoða heiminn. Íslenska orðið heimska á við um það ástand að forðast að kynnast heiminum.
Hættan er sú að terroristunum takist að gera okkur lokuð og rasísk. Heimsk.
Eftir hryðjuverkaárásirnar í New York árið 2001 skilgreindi George W. Bush þrjú ríki sem öxulveldi hins illa og lýsti yfir stríði gegn illskunni. Sagan sýnir að þetta var stríð heimskunnar gegn illskunni.
Illskan
Illskan, og í kjölfarið heimskan, fékk fólk til að styðja verk George W. Bush sem forseta, stofna leynifangelsi utan dóms og laga, stunda pyndingar og varpa sprengjum á fólk í öðrum löndum. Sprengja líka saklausa, fela það og fangelsa þá sem láta vita af því.
Áður en við vitum af verðum við það sem þeir vilja: Meira eins og þeir. Plægjum akra haturs meðal „útlendinganna“ og sáum fyrir hryðjuverkum framtíðar.
Illskan er að því leytinu heimskt hugtak að hún kennir okkur ekkert. Illska er endanleg skýring. Sá sem er sagður illur er þar með eðlislægt óskiljanlegur, óæskilegur og réttdræpur. Illskuhugtakið hjálpar okkur ekki að setja okkur í fótspor þess sem breytir rangt, sem er forsenda skilnings á mannlegri breytni. Auðvitað eigum við ekki að sýna fjöldamorðingjum skilning, en fyrir alla framþróun þurfum við að skilja forsendur atferlis þeirra til að uppræta það.
Vald og ótti
Markmiðið í vörnum gegn hryðjuverkamönnum ætti að vera að verjast áhrifum árása þeirra og fyrirbyggja að þeim takist ætlunarverk sitt. Sem leiðtogi ætti forsætisráðherra Íslands því að beita sér gegn því að hryðjuverkamönnunum takist að dreifa skelfingu á meðal okkar. Viðbrögð hans voru hins vegar að ýta undir ótta.
„Auðvitað óttast maður að þetta geti breytt því hvernig við lifum hérna á Vesturlöndum, að þetta dragi úr öryggi okkar og verði til þess að hlutir sem við töldum jafnvel sjálfgefna verði það ekki lengur,“ sagði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra í viðbrögðum við árásunum í París.
Viðbrögð hans eru í samræmi við ákveðna óttastefnu gagnvart útlöndum. Sigmundur hefur áður lýst ótta sínum. Hann óttast til dæmis erlend matvæli, óttast að toxoplasmi í evrópskum mat „breyti hegðun heilu þjóðanna“ (þótt sóttvarnarlæknir kannist ekki við það).
En hann óttast ekki óttann sjálfan og hvernig hann getur breytt hegðun okkar, sem þó er vísindalegur fótur fyrir.
„Menn óttast að þetta sé bara upphafið“
Sigmundur notaði einnig tækifærið til að tengja saman í hugum fólks að flóttafólk geti verið hættulegt fólk. „Á milli getur leynst hættulegt fólk. Eins og hefur sést núna… nú liggur fyrir að þessi samtök hafa nýtt neyð þessa fólks til að smygla inn fjölda fólks til Evrópu. Og menn óttast að þetta sé bara upphafið að aðgerðum sem þeir geti farið í. Og menn eru í kappi við tímann við erfiðar aðstæður að leita menn uppi.“
Jean-Claude Juncker, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, varaði hins vegar við viðbrögðum eins og Sigmundur sýndi - að tengja saman flóttafólk og hryðjuverkamenn. „Þeir sem skipulögðu þessar árásir og þeir sem framkvæmdu þær eru nákvæmlega þeir sem flóttamenn eru að flýja,“ sagði Juncker.
Óttinn er helsta auðlind valdsækinna leiðtoga. Hann fær okkur til að fylkja okkur að baki sterkum leiðtoga. Og fær okkur til að vilja eflingu og samþjöppun ríkisvalds, eða pólitísks valds. Mestu valdatilfærslur stjórnmálamanna eiga sér stað undir yfirskini ytri ógnar, raunverulegrar eða tilhæfulausrar.
Sigmundur er áþreifanlega valdsækinn. Síðasta sumar tók hann sér völd til að breyta heilu hverfunum á verndarsvæði einn síns liðs. Nokkuð sem fáir ímynduðu sér að ætti eftir að vera á valdsviði lýðræðislegs forsætisráðherra.
En þetta snýst ekki um hann, heldur okkur.
Við
Til þess að verjast hryðjuverkamönnum þurfum við fyrst að átta okkur á því hvað þeir eru að ráðast á og hvernig. Þessar tilfinningar, sem við erum að upplifa á misjafna vegu og eigum erfitt með að orða, er hægt að smætta niður í ferli í heilanum. Óttaviðbrögðin sem eiga sér stað í flóknu ferli í möndlunni og stúkunni, frumstæðustu hlutum heilans, eru síðan færð til úrvinnslu í heilaberkinum, hinum mennska heila.
Við getum brugðist við óttanum með útilokun og árásargirni gagnvart öðrum, sem getur leitt til vítahrings ofbeldis. Fyrir rétt um hundrað árum leiddu hryðjuverk til heimsstyrjaldar vegna keðjuverkandi ótta og heimsku.
Þótt forsætisráðherra hafi orðið fyrir miklum áhrifum af hryðjuverkunum í París vildi hann vara við því að við yrðum fyrir áhrifum af myndum af drukknuðum flóttabörnum. „Áhrifaríkar fréttamyndir vekja sterk viðbrögð hjá okkur en við megum ekki gleyma þeim sem ekki sjást á myndunum. Viðbrögð okkar geta aldrei miðað að því að uppfylla mögulega þörf okkar sjálfra fyrir að sjá árangurinn af starfinu eða hljóta þakkir fyrir,“ varaði hann við.
Í stað þess að velja að láta hryðjuverk breyta hugsun okkar og hegðun í átt að ótta, fordómum og tortryggni, getum við valið aðra leið, sem er ekki síður mennsk. Við getum brugðist við hættu með því að reyna að hjálpa þeim sem hún steðjar mest að. Eitt helsta verkefnið í baráttunni við terrorista er að reisa varnir hugans. Ef við ætlum að óttast, óttumst þá fyrst að við náum ekki að verja heilann.
Athugasemdir