Tæknilausnir eins og sjálfkeyrandi bílar og ísskápar sem panta mat fyrir okkur, gardínur sem draga fyrir þegar dimma tekur og ljós sem kvikna eru allt sönnun þess að við búum á tæknibreytinga eða -byltinga tímum. Á þeim fimmtíu árum sem liðið hafa síðan internetið varð að veruleika hefur það að mjög mörgu leyti orðið miðja okkar vestrænu samfélaga. Þar eigum við samskipti, hvort sem er við vini eða stofnanir samfélagsins, lesum fréttir, lærum, hlustum og horfum á afþreyingar og menningarefni og svo framvegis. Smám saman eru öll tæki og tól í kringum okkur að tengjast internetinu og stærri og stærri alþjóðlegir tæknirisar að verða til á markaði. Þessi risa fyrirtæki búa yfir ómældum upplýsingum um líf okkar allra og um leið þeim ómælanlegu verðmætum sem í þeim býr. Því í upplýsingatæknisamfélagi eru upplýsingar líklega mestu verðmætin. Fram að þessu höfum við deilt með þessum fyrirtækjum og fjölmörgum öðrum margvíslegum upplýsingum um okkur og okkar líf og mörgum okkar finnst jafnvel pínu pirrandi þessir endalausu fyrirvarar sem koma upp þegar maður opnar nýja heimasíðu eða byrjar að nota nýja þjónustu á netinu. Fæst okkar lesa skilmálana og við flest samþykkjum bara, eðlilega því samkvæmt grófu mati tæki það meðal manneskju samtals heila viku bara að lesa alla skilmálana sem hún samþykkir á einu ári.
„Í dag eru risastór fyrirtæki að eignast nánast allan markaðinn og þar með aðgang að öllum þessum upplýsingum um okkar líf“
Samfélög okkar eru sannarlega á fleygiferð og því mikilvægt að gleyma því ekki að það er hlutverk stjórnmálanna að tryggja að allir íbúar hafi tækifæri til að taka þátt og tryggja að tækniþróunin sé með hag allra íbúa í huga. Því þó að vissulega hafi óendanlega margt breyst til hins betra með aukinni tækni höfum við engu að síður verið frekar ógagnrýnin á hvaða upplýsingum við deilum og lítið velt fyrir okkur hver hagnast á því að við gerum það. Í dag eru risastór fyrirtæki að eignast nánast allan markaðinn og þar með aðgang að öllum þessum upplýsingum um okkar líf og tækni þeirra eru forsendur þess að samfélög okkar virki. Á mjög svo kapítalískum markaði hefur orðið til fákeppni þar sem fá stór fyrirtæki hafa nánast einokunarstöðu sem skila þeim ómældum hagnaði og sífellt auknu forskoti. Íbúar, borgir, verkalýðsfélög og ríki verða að bregðast við þessari þróun með því að tryggja að eignaréttur á upplýsingum íbúa sé í eigu íbúa og að sanngjarn hluti þess hagnaðar sem notkun slíkra upplýsinga veitir skili sér til íbúa. Annað er ekki sjálfbært og mun leiða til aukinnar misskiptingar auðs og lífsgæða, það er auknum ójöfnuði sem er skaðlegur okkur sem og okkar samfélögum. Það er óásættanlegt, hér þarf róttækni og jafnaðarmennsku sem leiðarljós til að stuðla að jöfnuði og réttlæti fyrir alla.
Athugasemdir