Á bókmenntaviðburðum undanfarið hefur borið æ oftar við að ég heyri einhvern muldra út undan sér að þessi eða hinn íslenski höfundur sé „bara að skrifa fyrir einhverja útlendinga“.
Eins og gengur og gerist með slíkt baktal er erfitt að setja fingur á hvort um sé að ræða gagnrýni eða öfund. Tekjur íslenskra höfunda hafa alltaf verið tvísýnar og starfsöryggi takmarkað. Þau búdrýgindi sem fást fyrir útgáfur á erlendum markaði geta verið töluverð og séð til þess að höfundar geti einbeitt sér að fullu að iðju sinni, án þess að þurfa að fórna samverustundum fjölskyldunnar fyrir skrifin. Það er því heldur ósanngjarnt, finnst mér, að hnýta í fólk fyrir að reyna eftir bestu getu að finna leiðir til að geta haldið áfram að gefa út bækur reglulega án þess að þurfa að fórna heilsu eða lífsgæðum fyrir.
Sjálfur hef ég í gegnum tíðina haft tekjur af því að skrifa um íslenskar bækur í ýmsum fjölmiðlum sem ætlaðir eru fyrir erlenda lesendur. Þar hef ég gert mitt besta til að vinna samkvæmt eigin samvisku og sannfæringu en óneitanlega hefur eðli verksins í sumum tilvikum fallið undir það sem við myndum kalla „landkynningu“, og því ekki endilega verið rétti vettvangurinn fyrir gagnrýn skrif. Engu að síður hefur þessi lævísa spurning smogið að mér endrum og eins: Fyrir hvern er ég að skrifa?
Þegar ég opnaði netgáttina í gær spruttu fram tvær fréttir sem í fljótu bragði virtust alls ótengdar en komu engu að síður illa við mig þegar ég sá þær samsíða á skjánum. Annarsvegar var þar frétt um að íslensk stjórnvöld hafi vísað úr landi ófrískri albanskri konu ásamt fjölskyldu hennar. Konan er komin níu mánuði á leið og aðfarirnar virðast eins ómannúðlegar og hugsast getur. Hin fréttin virkaði öllu gleðilegri: Útgáfa á íslenskum bókum hefur þrefaldast á undanförnum tíu árum. Hátt í fjörutíu bækur eftir íslenska höfunda eru nú nýútkomnar eða rétt óútkomnar í Bandaríkjunum og á Bretlandi, sem gefur þessum tilteknu höfundunum aðgang að þeim mikla fjölda lesenda sem er að finna á þessum málsvæðum.
Fyrir nokkrum árum mátti telja þá nýju íslensku titla sem komu út á ensku á annarri hendi. Gróskan er því umtalsverð og er sérstaklega ánægjulegt að sjá þann aukna fjölda skáldsagna eftir íslenska kvenhöfunda sem rata í enskar þýðingar. Í eina tíð var nær eingöngu hægt að finna í þeim flokki bækur eftir Yrsu Sigurðardóttur—jafnvel þótt framlag hennar einnar hafi þá jafngilt ríflega 40% af nýlegum íslenskum skáldsögum á enskri tungu. Það má því færa rök fyrir því að íslenskir rithöfundar séu að upplifa ákveðið „tækifæri“.
En tækifæri til hvers?
Fyrir hvaða útlendinga viljum við skrifa? Þá sem koma hingað á skemmtiferðaskipum eða þá sem koma hingað á fölsuðum vegabréfum? Viljum við segja frá kynngimögnuðu landslagi uppfullu af stóísku bláeygðu fólki sem bugtar sig fyrir álfum og rígheldur í þá trú að „þetta reddist“, eða viljum við nota þetta tækifæri til að segja hinar sögurnar? Sögurnar sem við skömmumst okkur fyrir. Sögur um það sem betur má fara. Sögur sem draga fram vankantana á þeirri glansmynd sem okkur er tamt að halda uppi fyrir erlenda gesti. Sögur sem myndu seint teljast til landkynningar.
Auðvitað er hræðilega ósanngjarnt að bera slíka plikt upp á íslenska höfunda. Að hætta sér út á ritvöllinn er nógu flókið fyrir, þótt fólk fari ekki að kryfja öll sín skrif með réttvísina í huga eða blanda pólitík í málið. Það forarsvað er líklegt til að drepa góða bók umsvifalaust. Þetta vissi George Orwell. Hann gekkst við því að hafa sjálfur óviljugur breyst í hálfgerðan „bæklingahöfund“ vegna skrifa sinna um þá heimsatburði sem hann upplifði. Mér kemur þó til hugar tilsvar hans til gagnrýnanda sem sakaði hann um að hafa í skrifum sínum um Spánarstyrjöldina breytt einhverju sem hefði getað orðið góð bók í eintóma blaðamennsku. „Það er rétt sem hann segir, en ég hefði ekki getað gert þetta á annan veg,“ segir Orwell. „Ef ég hefði ekki verið reiður þá hefði ég aldrei lagt í að skrifa bókina.“
Með þetta í huga getum við kannski horft á þessa hvimleiðu spurningu á nýjan leik og séð hvernig áherslur hennar hafa breyst án þess að ég hafi svo mikið sem fært til einn staf eða bætt við kommu:
Fyrir hvern er ég að skrifa?
Athugasemdir