Í stað þess að setja strengjabrúður í ritstjórastóla fjölmiðla hafa brúðuleikhússtjórarnir ákveðið að hlamma sér þar sjálfir, þar eru nú fyrrverandi fjárfestingabankastjóri, seðlabankastjóri og lögfræðingar. Allt í nafni frjálsrar blaðamennsku og sannleiksástar. Ég skil þá vel, það er þreytandi að þykjast til lengdar og engin þörf á því í samfélagi sem setur ekkert spurningarmerki við þetta. Öll þessi leiktjöld eru bara dýr og óþörf.
Einu sinni tóku fjölmiðlar sig hátíðlega og ræddu um eldveggi milli auglýsenda og ritstjórna og eldveggi milli eigendavalds og frétta. Núna vita allir að slagurinn er tapaður. Það er vart lífsmark nema þegar markaðsdeild Íslandsbanka ákveður að breyta innkaupastefnu sinni og auglýsa frekar í fjölmiðlum þar sem jafnræði er milli karla og kvenna í hópi starfsliðs og viðmælenda. Þá rumska nokkrir litlir hræddir karlar í stéttinni og blána í framan af rembingi vegna hinnar hroðalegu aðfarar að frelsi fjölmiðla.
Og þá að honum Sámi (enda öruggast að halda sig bara við jákvæðar fréttir af krúttlegum dýrum til að verða ekki sökuð um aðför að frelsi fjölmiðla).
Þau tíðindi bárust heimsbyggðinni á dögunum að nýr Sámur væri fæddur. Með aðstoð vísindanna, ofgnótt af peningum og talsverðum hégóma, hefur tekist að reisa upp frá dauðum hund forsetahjónanna fyrrverandi. Sámur átti sinn blómatíma á árunum fyrir hrun, þegar glæsileikinn bjó á Bessastöðum og þangað streymdi peninga- og valdafólk í limósínum til að skála fyrir völdum og vináttu á réttum stöðum.
Síðan hrundi allt og múgurinn ruddist út á göturnar og fordæmdi auðmennina sem hann hafði áður dáð og elskað. Forsetahjónin fengu á sig talsverðar slettur en náðu með pólitískum klókindum að halda velli þótt það næddi um þau á stundum. Við hlið þeirra á þessum viðsjárverðu tímum var jafnan hinn hundtryggi Sámur.
Þótt Sámur geispaði golunni, eins og við öll gerum á endanum, og nýr húsbóndi tæki við Bessastöðum var of snemmt að afskrifa hina heilögu þrenningu.
Sámur reis upp frá dauðum með aðstoð vísindanna og peninganna, fagur sem forðum. Dorrit og Ólafur fagna í viðtölum við fjölmiðla og dásama eðliskosti fyrirmyndarinnar. Svo dásamlegur er Sámur að þau boða núna margfalda upprisu, fleiri klóna, sáma sem lifa að eilífu, enda verða ráðnir vísindamenn til að rækta burtu krabbameinið sem felldi Sám hinn fyrsta. „Kannski gæti það leitt til þess að hægt væri að ná krabbameinsgenum úr fólki,“ segir Dorrit angurvær og gefur þannig örlitla von til þess að brauðmolar geti hrotið af borðum í tilraunastofunni þar sem sámarnir verða til og valdið straumhvörfum við meðferð á fólki.
Nú hafa gömlu bankaskúrkarnir líka endurfæðst með hjálp stjórnmálamanna og náð öllum völdum í samfélaginu. Að mestu er lokið löngum og lýjandi málaferlum eftir hrunið sem enginn hafði neitt upp úr nema lögfræðingastéttin. Engum hugkvæmdist að krefja skúrkana um peningana sem þeir höfðu upp úr svindli og braski með banka landsmanna, Þeir peningar sem ekki brunnu upp, biðu eigenda sinna á aflandseyjum meðan dómskerfið mallaði áfram.
Það er dýrt að halda uppi öllum þessum lögfræðingum. Best væri ef skúrkarnir úr bankahruninu myndu sjálfir kveða upp dóma yfir sjálfum sér í framtíðinni. Við værum þá laus við alla þessi milliliði, þetta væri einfalt og skilvirkt og auðvitað í nafni ástar á réttlætisgyðjunni. Hvað annað?
Þá væri líka einfaldara ef þeir væru á Alþingi og í stjórnarráðinu. Þá þyrfti enginn að þykjast lengur. Það væri hægt að afnema allan bankaskattinn eins og skot, fella niður veiðigjöld og flýta sér að draga tennurnar úr Samkeppniseftirlitinu. Skúrkarnir myndu skipta þessu bróðurlega á milli sín eftir atkvæðamagni, eins og þeir gera núna en án allrar þessarar yfirbyggingar og leikrænu tilþrifa. Þetta yrði auðvitað að vera í nafni lýðræðisins. Ég held samt að fólk muni varla finna muninn.
Það væri auðvitað erfitt fyrir þá að vera öllum megin borðsins öllum stundum.
En þá bara klónum við þá.
Athugasemdir