Félag atvinnurekenda leggst gegn því að staða Samkeppniseftirlitsins verði veikt, eins og félagið telur verða afleiðing frumvarps Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð Gylfadóttur, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, kemur fram að félagið sé eindregið gegn afnámi heimildar Samkeppniseftirlitsins til að bera ákvarðanir áfrýjunarnefndar Samkeppnismála undir dómstóla.
Álit Félags atvinnurekenda gengur þvert gegn áliti Samtaka atvinnlífsins (SA), sem hafa þrýst á lagabreytinguna.
Það hefur meðal annars birst í því að framkvæmdastjóri SA, Halldór Benjamín Þorbergsson, hefur harðlega gagnrýnt Gylfa Magnússon, lektor í viðskiptafræðideild Háskóla Íslands og formann bankaráðs Seðlabankans, og sagt andstöðu hans við frumvarpið vera ósæmandi stöðu hans. Halldór Benjamín sagði nýverið í samtali við Markaðinn að hann vildi ganga lengra. „Samkeppnislögin hér eru meira íþyngjandi en víðast hvar annars staðar í Evrópu og því eru þessar breytingar skref í rétta átt. Heilt yfir erum við jákvæð, en við hefðum viljað ganga lengra.“
„Við hefðum viljað ganga lengra“
Félag atvinnurekenda færir hins vegar fram harða gagnrýni á frumvarpið og varar við afleiðingum þess.
„Með því að samþykkja umrædda breytingu væri Alþingi að ganga erinda stórfyrirtækja sem vilja komast hjá réttmætum afleiðingum samkeppnislagabrota sinna og viðhalda háttsemi sem skaðar allan almenning,“ segir í umsögn félagsins. „Þannig tæki þingið sér stöðu gegn almenningi í landinu, sem og gegn smærri og meðalstórum fyrirtækjum sem hvað mesta hagsmuni eiga af því að farið sé að ákvæðum samkeppnislaga.“
Bendir félagið á að dómaframkvæmd hafi takmarkað aðgengi að dómstólum. „Sérstakt lagaákvæði um aðild Samkeppniseftirlitsins að dómsmálum til ógildingar á niðurstöðum ÁNS [Áfrýjunarnefndar samkeppnismála] vinnur gegn þessum meinbugi og tryggir þar með hagsmuni fyrirtækja, neytenda og alls almennings.“
„Hér er um að ræða draumaland þeirra sem kjósa að brjóta samkeppnislög og hafa ábata af slíkum brotum“
„Tilgangur frumvarpsdraganna hvað varðar aðgengi að dómstólum er augljós,“ segir í umsögninni. „Verið er að nota framangreindan réttarfarsannmarka til þess að búa til skálkaskjól fyrir þá aðila sem brjóta samkeppnislög en koma sér hjá afleiðingum gjörða sinna fyrir ÁNS. Sé slíkur aðili svo „lánsamur“ að fá ranga niðurstöðu ÁNS um sakleysi sitt mun sú niðurstaða verða endanleg fyrir þann aðila þar sem íslenskar réttarfarsreglur stæðu í vegi þess að aðrir gætu borið hina röngu niðurstöðu undir dómstóla. Enn verri er sú staðreynd að hin ranga niðurstaða ÁNS yrði í framhaldi fordæmisgefandi í sambærilegum málum og því gildandi réttur á viðkomandi sviði. Það þýddi í raun að borgararnir þyrftu að búa við viðvarandi órétt sökum þess að rangri niðurstöðu ÁNS væri ekki hægt að hnekkja. Hér er um að ræða draumaland þeirra sem kjósa að brjóta samkeppnislög og hafa ábata af slíkum brotum. Að sama skapi er þetta martröð þeirra sem trúa á virka samkeppni, heilbrigða viðskiptahætti og eðlilegt og virkt réttarríki þar sem óréttur fær ekki óhindraða framgöngu.“
Athugasemdir