Allir fulltrúar í umhverfis- og heilbrigðisráði Reykjavíkurborgar studdu tillögu um loftslagsskóg á fundi á miðvikudag nema Vigdís Hauksdóttir, borgarfulltrúi Miðflokksins.
Samþykkt var að leggjast í skógrækt strax á næsta ári í samstarfi við Skógræktarfélag Reykjavíkur. Svæði verða valin og gróðurfarsúttektir gerðar til að gæta þess að aðgerðirnar skili sér í kolefnisbókhald borgarinnar.
„Loftslagsskógar eru því algjör tímaskekkja“
Tillagan var studd af fulltrúum Samfylkingar, Vinstri grænna, Pírata og Sjálfstæðisflokksins. Vigdís lagði fram bókun þess efnis að nauðsynlegt sé að auka umfang hitabeltisskóga og skóga á suðlægum breiddargráðum, samkvæmt vísindagreinum. „Á norðurslóðum eigi hins vegar alls ekki að planta skógi því hann hækki hitastig jarðar,“ bókaði hún. „Loftslagsskógar eru því algjör tímaskekkja og einn stór misskilningur. Umhverfismálin verða að skoðast í heild á heimsvísu. Tilfallandi inngrip eins og loftslagsskógar í Reykjavík eða á Íslandi virðast byggjast á tilfinningum en ekki rökum.“
Líf Magneudóttir, borgarfulltrúi Vinstri grænna, lét bóka að uppgræðsla lands sé áhrifaríkt verkfæri í baráttunni gegn loftslagsvánni.
Athugasemdir