„Landhreinsun mikil má það teljast í bókmentum vorum, ef að það er sönn fregn, er oss hefir munnlega borizt, að ið alræmda leirskáld Símon Bjarnarson, er kallaði sig sjálfr „Dala-skáld,“ sé látinn.“
Svo hryssingslega hóf Jón Ólafsson ritstjóri dánarfregn sem hann birti í blaði sínu Skuld þann 1. nóvember 1877. Jón er kunnastur fyrir fjandskap sinn við yfirvöldin, sem birtust í Íslendingabrag og ollu því að hann varð um tíma að flýja land, en af hverju hann taldi ástæðu til að tilkynna lát alþýðuskáldsins Símonar Bjarnarsonar svo harðneskjulega er óráðin gáta.
Símon var rúmlega þrítugur þegar Jón hlakkaði yfir andláti hans og löngu orðinn þjóðkunnur fyrir að ferðast um landið og fara með kvæði sín, rímur og vísur. Símon þótti ekki djúpt skáld en nokkuð skemmtilegt og hafði ofan af fyrir sér með þessu móti. Hann hefur líka verið kallaður „gangandi fjölmiðill“ því hann bar fréttir milli sveita og landshluta á flakki sínu.
En Jón Ólafsson var ekki að skafa utan af því í eftirmælum sínum eftir Símon:
„Auk „Kjartans-rímna“ og „Búa-rímna“ hafði hann gefið út eftir sig 3 hefti af „Smámunum“, og var það níð og smjaðr um nafngreinda menn, stundum smjaðr og níð um sama mann, sitt í hverju kverinu, og ýmislegr annar leirburðr og saurugr óþverri,“ skrifaði Jón.
FLYSJUNGSKAPR OG HÉGÓMI
Og hann bætti við:
„Að Símon hefði getað orðið nýtr maðr og enda orkt nýtilega, ef flysjungsskapr og hégómlegasta sjálfsálit og sérþótti hefði eigi leitt hann til að afskræma þann neista til skáldskapargáfu, sem hann hefði átt að reyna að glæða, — það sýna eftirmæli hans eftir barn sitt, er prentuð voru í aukablaði við [blaðið Norðanfara] þetta ár, látlaus og viðkvæm og jafnvel — hortittalaus!!“
Þegar dánarfréttin barst til eyrna Símonar, sem sannarlega var sprelllifandi, var hann raunar ekki í vafa um til hvers mátti rekja augljósa gremju Jóns í sinn garð. Jón hafði fyrrum ritstýrt blaðinu Göngu-Hrólfi sem fór á hausinn og þá hafði Símon sett saman vísu þar sem hann minntist blaðsins heldur óvirðulega. Og svívirðingarnar í „grafskriptinni“ sagði Símon - í svargrein í Norðanfara - væru eins konar skáldalaun fyrir þá vísu.
Símon vitnaði í Norðanfara til orða Jóns um sig og kveðskap sinn og sagði svo:
„Landar góðir, hvernig líst yður á lýsinguna? Kveðskap minn sem jeg skal hvorki lofa nje lasta, kaupir alþýða og margir lærðir menn,“ en um kveðskap Jóns væri það að segja að „aldrei hefði slíkur þvættingur sjest á prenti, eða man hann ekki eptir ritinu sem hann gaf út fyrst, sem engir „vildu sjá nje heyra“ en hvort hann hefir brennt upplagið, eða jetið það á leiðinni til Ameríku, veit jeg ekki [...]
Ekki ferst Jóni að bregða mjer um „drambsemi“ og „flysjungsskap“, því jeg vil ætla, að engin maður á Íslandi muni hafa meiri byrgðir af slíkri vöru en hann sjálfur, nema ef vera skyldi Sölfi Helgason, eins og sjest í öllum hans ritum; eins mun lífið í siðferðislegu tilliti hjá Jóni garminum!! stundum hafa vcrið í aumara ástandi, og ætti hann að varast, að lá mjer og mínum líkum, sem höfum þó nokkurt hóf í samanburði við hann.
ÞJÓÐIN HEFIR KALLAÐ MIG DALASKÁLD
Þjóðin hefir kallað mig Dalaskáld, en þó Jón kalli hana vitlausa og fáfróða, þá hafa þó mörg viðurnefni sem hún hefir gefið fest við menn, bæði að fornu og nýju, [...] en það sem Jón segir, að jeg hafi kveðið níð um nafngreinda menn, getur ekki staðist, þar engin hefir dregið mig fyrir „lög og dóm" en það mun flestum kunnugt að Jón er tvisvar strokinn af landi burt, — og það svo auðvirðilega i fyrra sinni, að hann klæddist kvennbúningi, — og var dæmdur í miklar fésektir og fangelsi sem illmælismaður, en þar sem Jón segir, að jeg yrki smjaður um menn, kalla jeg ekki, þó jeg unni góðum mönnum sannmælis, og aldrei hef jeg breytt svo, að jeg hafi þurft, að gjöra mig þann vesæling, sem Jón, að biðja mótstöðumann minn vægðar, með smjaðurmælum. En þar sem hann kallar rit mín hneyxli í bókmenntum Íslands, sem eru gjörð til skemmtunnar fyrir alþýðu, þá hefði hann aldrei átti að klekja „Göngu-Hrólfi“ út, því slík blöð eru sannkallað átumein i bókmenntalífi voru ...“
Ekki verður séð að Jón hafi á nokkurn hátt dregið til baka andlátsfregnina um Símon Dalaskáld. Hins vegar kvartaði hann í blaðinu hálfu ári síðar undan þeirri staðhæfingu Símonar í Norðanfara að hann sjálfur hefði flúið úr landi klæddur kvenbúningi.
„Það er nú ekki kastandi þungum steini á Símon „Dalask...“ fyrir þessi eða þvílík ósannindi, því ef oss minnir rétt, mun hann hafa sofið í „Svartholinu“ um þær mundir, að [Jón Ólafsson] sigldi; og er þá ekki að undra, þótt honum liafi verið dimt fyrir augum, eða enda séð ofsjónir, einkum ef hann hefir nú haft nokkuð í „kollinum“, sem hann á vanda fyrir.“
Þessu svaraði Símon í Norðanfara og kvaðst aldrei hafa verið settur í tukthúsinu og deildu þeir Jón og Símon síðan ekki framar um hvor væri dauður, hvor flóttamaður í kvenbúningi og hvor tukthúslimur.
ANDSTTREYMI
Í splunkunýrri BA-ritgerð eftir Þorstein Björnsson um rímnaskáldið Símon Dalaskáld segir um ævi hans:
„Lífsstarf Símonar fólst helst í tvennu: Annars vegar sinnti hann smalamennsku í skagfirskum afdölum (m.a. í Svartárdal) og hins vegar ferðaðist hann um sveitir landsins og skemmti sveitafólki með kveðskap sínum. Hann var mjög barngóður og orti iðulega vísur fyrir börnin á þeim heimilum sem hann heimsótti. Segja má að hann hafi verið skemmtikraftur síns tíma í íslenskum sveitum og var hann oftast nær kærkominn gestur. Þó var ásýnd hans nokkuð flökkumannsleg og var hann stundum ranglega kallaður flakkari og betlari.
Segja má að andstreymi Símonar hafi meðal annars falist í að hann tók ástfóstri við listform rímunnar sem tíðarandinn var þegar farinn að úthýsa. [...] Símon sætti einnig gagnrýni í dagblöðum [...] og almennu umtali og fór það iðulega fyrir brjóstið á Símoni þar sem hann þótti hörundssár og þoldi illa mótlæti [...] Þó átti Símon marga vini innan prestastéttarinnar og til að mynda var síra Matthías Jochumsson og fleiri hátt skipaðir menn traustir vinir hans ævilangt. Einnig má nefna að þrátt fyrir almenna andúð íslenskra menntamanna gagnvart rímum var Símon mjög þokkasæll meðal íslenskrar alþýðu til sveita og segir Matthías Jochumsson að hann hafi líklega farið um alla hreppa landsins, og óteljandi ferðir um suma þeirra [...]
Símon naut ekki mikillar lífshamingju um sína daga sem sést meðal annars á samskiptaerfiðleikum ýmiss konar og gagnrýni sem hann átti erfitt með að höndla. Þrátt fyrir töluverðar vinsældir hans meðal íslenskrar alþýðu urðu hlutskipti hans að miklu leyti samfélagsleg jaðarsetning, brostnar ástir og að vera litinn hornauga af hinni bókmenntalegu yfirstétt landsins sem meðal annars sést í umsögnum um hann í ýmsum miðlum þess tíma.“
En að síðustu má vel hafa hér það erfiljóð Símonar Dalaskálds eftir dóttur sína sem jafnvel Jón Ólafsson varð að viðurkenna að væri ekki ólaglega ort, þótt hann orðaði það bara svo að það væri „án hortitta“.
MITT NÚ BARNIÐ BLÍÐA
Jakobína Símonardóttir.
(Fædd 19. apríl 1876, dáinn 24. ágúst sama ár)
Mitt nú barnið blíða
blómið ástar þýða
og hið sæta augnaljós,
fjörs á morgni fríðum
fyrir dauðans hríðum, fölnað er sem freðin rós.
Sjerhvert bros þess blíða
og blessað tárið fríða,
hefir ástar helgað vald,
vel í ljósu letri
lífs á köldum vetri,
rist á móður minnisspjald.
Von er vilji kvarta
viðkvæmt móður-hjarta,
sem er orðið sært og gljúpt,
von er tárin tæru
titri' um vanga skæru
og harma svíði sárið djúpt.
Hennar augna yndi
og unun mæddu lyndi,
afkvæmi því okkar var,
nú úr harma heimi
og hættum synda geimi,
svifið brott til sælunnar.
Gef það Drottinn góður
grátni eins og móður,
fyrir Kristí blessað blóð,
æðra líf hvar ljómar
og lofgjörð um þig hljómar,
okkar hittum elskað jóð.“
Athugasemdir