Á bak við mörg líkamsör eru saga og sársauki. Stundum hafa örin þau áhrif á fólk að það breytist, hugsar og hegðar sér öðruvísi en áður. Örin á brjóstunum mínum eru saga áfalls, ótta, sársauka og umbreytingar. Örin eru saga brjóstakrabbameins.
Í menningunni okkar ríkir tvískinnungur um konubrjóst, frá náttúrunnar hendi eru þau hönnuð fyrir matargjöf til barna okkar. Það er ekki sjálfsagt allstaðar að konur gefi börnum sínum brjóst á almannafæri og því síður sjálfsagt að konur beri brjóst sín þegar þeim hentar. Um konubrjóst gilda aðrar reglur en um brjóst karla. Á sama tíma og konubrjóst mega ekki sjást opinberlega – eru þau klámvædd og kynþokkavædd. Fegrunaraðgerðum er haldið að konum og þær oft skilgreindar út frá brjóstum sínum. Feðraveldinu er fátt heilagt þegar kemur að konum. En konur vita að stærð og lögun brjósta eru eins fjölbreytt og konur eru margar. Menningin okkar setur ómanneskjulegan þrýsting á konur að brjóst þeirra líti út á tiltekin hátt. Það má færa fyrir því rök að fyrirmynd þessa útlits á brjóstum megi rekja til kláms – þar sem líkamar kvenna eru hlutgerðir, niðurlægðir og beittir kerfisbundnu ofbeldi. Feðraveldið skilgreinir og stjórnar kláminu – þar drottna karlar yfir konum.
„Ég fordæmi menninguna sem lætur ekki líkama kvenna í friði“
Margar konur hafa brugðið á það ráð að gera aðgerð á brjóstum sínum, til að breyta þeim þannig að þau falli betur í það form sem menningin hefur skilgreint sem falleg. Stundum hafa brjóstaaðgerðir haft skelfileg áhrif á líf og heilsu kvenna. Ég dæmi aldrei þessar konur – ég fordæmi menninguna sem lætur ekki líkama kvenna í friði. Það er kominn tími til að þráhyggja feðraveldisins um konubrjóst linni, að fjölbreytileiki líkama kvenna fái að njóta sín og konur verði skilgreindar út frá persónu sinni og hæfileikum en ekki lögun líkama þeirra.
Ég elska brjóstin mín, dýrka örin á þeim – ekki vegna þess að þau hafa ákveðið útlit, heldur af því að þau eru hluti af mér og höfðu göfugan tilgang – tengdu mig inní móðurhlutverkið. Örin minna mig á ferli sem umbreytti mér sem manneskju og því ætla ég að fagna. Feðraveldið fær ekki að dæma mig – það dæmir sig sjálft.
Athugasemdir