20. janúar 2009. Helga Vala Helgadóttir blaðamaður segir í viðtali við mbl að „fimmtán unglingar hafi legið handjárnaðir í Alþingisgarðinum meðan „veruleikafirrtir þingmenn hafi verið inni að tala um hvort það ætti að selja brennivín í búðum“. Það var rétt hjá henni. Þetta var skrítin stemning meðan þjóðin var að ganga af göflunum fyrir utan og löggan úðaði piparúða á allt sem fyrir varð. Öðru hvoru brá fyrir skelkuðum andlitum þingmanna í gluggum Alþingishússins, þeir voru inni í hlýjunni en hver veit. Það var byltingarástand í þjóðfélaginu.
Þetta undarlega mál um „brennivín í búðum“ eða „hvítvín úr Melabúðinni til að hafa með humrinum“ er örugglega orðið eldra en nýi dómsmálaráherrann, oftast eru það stútungskarlar sem bera það fram, svona álíka ferskir í pólitíkinni og blóðmörskeppur sem hefur gleymst á borðinu á þorrablóti ættarinnar og liggur og marínerast í bjórklístri þegar hreingerningafólkið mætir á svæðið í dagrenningu.
6. september 2019. Tilkynnt er að Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, 28 ára þingkona Sjálfstæðisflokksins, verði næsti dómsmálaráðherra. Stjórnarandstaðan fagnar þessum tíðindum ákaflega, utanríkismálanefnd er stödd erlendis þegar tilkynnt er um skipanina og fer fögrum orðum um formann nefndarinnar, hinn nýja ráðherra, enda varð ung kona fyrir valinu, fersk, sjálfstæð og einörð.
Meðal þeirra sem óskuðu hinum nýja ferska ráðherra hjartanlega til hamingju var Helga Vala Helgadóttir úr Alþingisgarðinum, orðin mannréttindalögfræðingur og þingmaður Samfylkingarinnar. Helga Vala hafði líka gagnrýnt Sigríði Á. Andersen harðlega fyrir meðferð flóttamanna og harðneskju Útlendingastofnunar.
Sú hlýtur að bíta sig í tunguna í dag.
Ekki hafði nýi ráðherrann haft lyklana að ráðuneytinu lengi í vasanum þegar hún lýsti því yfir að málefni flóttamanna og hælisleitenda væru í góðum og mannúðlegum farvegi. Um sama leyti var ungur maður borinn úr landi eftir 17 daga hungurverkfall og settur í alræmdar flóttamannabúðir þar sem læknisþjónusta er af skornum skammti.
„Þetta var strax farið að hljóma eins og Hannes Hólmsteinn gengi laus í dómsmálaráðuneytinu með fallegan ljóshærðan dúkkuhaus“
Þetta var strax farið að hljóma eins og Hannes Hólmsteinn gengi laus í dómsmálaráðuneytinu með fallegan ljóshærðan dúkkuhaus.
En það má auðvitað ekki segja svoleiðis upphátt. Konur eiga að vera svo glaðar að stjórnmálakonur fái góð embætti. Og þær eiga að hrósa gömlu stjórnmálakörlunum fyrir að hleypa þeim upp á dekk.
Ungi, ferski ráðherrann er líka búinn að láta hafa eftir sér að dómararnir við Landsrétt séu löglega skipaðir þótt Hæstiréttur hafi komist að þeirri niðurstöðu að stjórnsýslulög hafi verið brotin og Mannréttindadómstóll Evrópu telji að brotið hafi verið gegn mannréttindasáttmálanum með skipan þeirra. Nýi ráðherrann gefur semsagt skít í álit dómstóla af því það er ekki samkvæmt flokkslínunni alveg eins og sá ráðherra sem neyddist til að víkja.
En af hverju er hún þá í ráðuneytinu en ekki Sigríður sem er líka kona?
Kannski eru það enn ein mannréttindin sem voru brotin. Sigríður Á. Andersen fékk ekki að hanga í embætti með sínar harkalegu skoðanir sem eru líka skoðanir flokksforystunnar, enda er hún ekki ung, glæsileg og fersk. Bara fjarskalega einörð. Kannski ætti kvenfrelsisbarátta nútímans að snúast meira um innihald og minna um umbúðir. Það er enginn sigur fyrir mannréttindi, konur eða femínisma að konur eins og Áslaug Arna fái skjótan frama. Fólk ætti frekar að spyrja sig af hverju meðalaldur karlkyns ráðherra Sjálfstæðisflokksins er svona miklu hærri en kvennanna. Ef Sjálfstæðisflokknum finnst mikilvægt að reka harðneskjulega flóttamannastefnu og brjóta lög við skipan ráðherra, af hverju er ekki Sigríður Á. Andersen áfram talsmaður þessara sjónarmiða?
Var hún of gömul og fúl? Þurfti mannúðlega og sæta ásjónu á gömlu, fúlu stefnumálin? Og er það eitthvað til að fagna?
Það er örugglega mikilvægt mannréttindamál í augum einhverra að hægt sé að kaupa hvítvín með humrinum á netinu eða í Melabúðinni en samt sem áður verður að viðurkennast að slík mannréttindi eru forréttindi. Það er svo sannarlega ekki hagsmunamál kvenna og barna að auka aðgengi að áfengi. Barnaverndarmál eiga oftast upptök sín í neyslu foreldra, fangelsin eru yfirfull af sjúklingum sem ráða ekki við neyslu áfengis og spítalarnir eiga fullt í fangi með að sinna fólki með lífsstílssjúkdóma sem rekja má til ofdrykkju. Rannsóknir sýna að aukið aðgengi leiðir til meiri neyslu en þótt svo væri ekki? Hvað er að því að ríkið fái gróðann af sölu áfengis þegar það situr uppi með afleiðingarnar?
Hvað sem fólki kann að finnast um þetta skrítna forréttindamál er þetta galið fyrsta mál dómsmálaráðherra sem ungt fólk og konur eiga að fagna sérstaklega. Það kemur líka fram á tíma þegar allt logar í átökum innan lögreglunnar og dómstólar eru ófærir um að sinna hlutverki sínu eftir pólitískt spillingarmál.
Og ef ungir og ferskir kvenkyns ráðherrar hafa ekkert fram að færa nema gömul og úrelt stefnumál forréttindakarla, af hverju eru ekki bara forréttindakarlarnir áfram við stjórnvölinn?
Eða eru þeir það?
Athugasemdir