Frosti Sigurjónsson, fyrrverandi þingmaður Framsóknarflokksins, telur að aðild Íslands að ECT-orkusamningnum feli í sér brot á stjórnarskrá í ljósi þess að samningurinn var ekki borinn undir Alþingi.
„Þar sem þessi samningur leggur skyldur á opinbera aðila sem geta hugsanlega leitt til fjárútláta og skaðabóta þá á að sjálfsögðu að bera samninginn undir Alþingi. Ég tel því blasa við að samþykki samningsins hafi verið brot á 21. gr. stjórnarskrárinnar,“ skrifar hann á Facebook.
„Hvaða hagsmuni hafði íslenskur almenningur af þáttöku Íslands í þessum samningi? Svar: Enga,“ skrifar Frosti enn fremur. „Með samningnum skuldbatt Ísland sig til að vinna að markaðsvæðingu orkukerfis sem var nánast alfarið í eigu almennings.“ Þá segir hann það hneyksli að málið hafi verið keyrt í gegn án vitundar Alþingis og að rannsaka þurfi nánar „hverjir hvöttu til þess að þannig var staðið að málum“.
Eins og Stundin hefur fjallað um fullgiltu íslensk stjórnvöld ECT-samninginn svokallaða um orkumál þann 7. júlí 2015 og sendu vörsluaðila samningsins bréf því til staðfestingar. Á þeim tíma var Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra, Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra og Ragnheiður Elín Árnadóttir iðnaðarráðherra.
Með fullgildingunni er Ísland orðið skuldbundið að þjóðarétti til að stuðla að frjálsum viðskiptum, samkeppni og markaðsvæðingu á sviði orkumála, en samningurinn kveður meðal annars á um að ríkið skuli grípa til allra nauðsynlegra ráðstafana til að liðka fyrir frjálsum flutningi orku óháð uppruna, áfangastað og eignarhaldi og án mismununar.
Alls hafa 122 gerðarmál fyrirtækja gegn ríkjum verið höfðuð á grundvelli ECT-samningsins, þar af 40 gegn Spáni, 10 gegn Ítalíu og 6 gegn Tékklandi, en margar málsóknanna eru viðbragð við aðgerðum sem stjórnvöld hafa ráðist í til að halda niðri raforkuverði fyrir almenning. Bæði Ísland og Bretland eiga aðild að ECT-samningnum og er því hugsanlegt að reyna muni á ákvæði hans ef upp koma deilur um lagningu sæstrengs milli landanna.
Gunnar Bragi Sveinsson undirritaði fullgildingarskjal vegna samningsins árið 2015 þar sem því er heitið að Ísland muni virða og uppfylla ákvæði samningsins í hvívetna. Var málið hvorki borið undir Alþingi né kynnt almenningi á upplýsingavef stjórnarráðsins.
Stundin sendi Gunnari Braga fyrirspurn um málið þann 5. september síðastliðinn en engin svör hafa borist. Hins vegar hefur Jón Pétursson, aðstoðarmaður Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, sent baráttufólki gegn þriðja orkupakkanum skilaboð þar sem hann réttlætir fullgildingu samningsins og þýðir texta um hann af Wikipediu. „Þessi sáttmáli snýst fyrst og fremst um gagnkvæma vernd fjárfestinga, að fjárfestar sitji við sama borð, að dreifing orku (líka yfir landamæri) sé heimil og hvatt til orkusparnaðar,“ skrifar Jón.
Athugasemdir