Íslensk stjórnvöld eiga langt í land með að beita reglum um aðgang að gögnum með viðunandi hætti og í anda þess sem tíðkast á hinum Norðurlöndunum. Þörf er á viðhorfsbreytingu og aukinni þekkingu á upplýsingalögum hjá starfsmönnum stjórnsýslunnar. Þetta er mat umboðsmanns Alþingis, en hann fjallar um málið í ársskýrslu sinni fyrir 2018.
Nýlegar breytingar sem gerðar voru á reglum um málsmeðferðartíma úrskurðarnefndar um upplýsingamál eru fjarri sambærilegum viðmiðum sem tíðkast á hinum Norðurlöndunum. Á Íslandi er miðað við 150 daga málsmeðferð hja úrskurðarnend um upplýsingamál meðan önnur norræn ríki miða að jafnaði við fáeina daga eða vikur.
„Sú áhersla tekur mið af mikilvægi og þörf þeirra sem óska eftir aðgangi að gögnum hjá stjórnvöldum, t.d. fjölmiðla og aðila sem þurfa á gögnunum að halda vegna sambærilegra mála, á að fá sem fyrst aðgang að umræddum gögnum eða geta fylgt eftir synjunum á slíkum aðgangi,“ skrifar umboðsmaður.
„Innan stjórnsýslunnar er ekki til staðar nægileg þekking á þeim reglum sem gilda um aðgang að gögnum hjá stjórnvöldum“
Hann segist hafa velt því fyrir sér hvort sú leið löggjafans að fela sjálfstæðri úrskurðarnefnd að fjalla um þessi mál í stað æðra stjórnvalds á hverju sviði eigi hugsanlega þátt í hversu erfiðlega hefur gengið að koma framkvæmd þessara mála í viðunandi horf.
„Ég tel meginástæðu þess hversu hægt hefur gengið í að þoka málum í þá átt megi að minnsta kosti að hluta rekja til þess að innan stjórnsýslunnar er ekki til staðar nægileg þekking á þeim reglum sem gilda um aðgang að gögnum hjá stjórnvöldum. Við athuganir mínar á þessum málum tel ég mig merkja að þetta sé ekki bundið við lægra sett stjórnvöld heldur eigi þetta einnig við um til dæmis ráðuneyti og sveitarfélög.“
Ársskýrsla umboðsmanns er óvenju efnismikil í ár og kennir þar ýmissa grasa. Í kafla um ráðningarmál hjá hinu opinbera víkur umboðsmaður að því að hann hafi í auknum mæli orðið þess var að stjórnvöld sem fái einkaaðila til ráðgjafar í ráðningarmálum feli einkaaðilanum að svara beint beiðnum umsækjenda um aðgang að gögnum málsins. Hafa verði í huga að starfsmenn ráðningarfyrirtækja skorti oft þá þekkingu sem þarf til að leysa með réttum hætti úr stjórnsýslumálum auk þess sem þeir eru almennt ekki bærir til að taka ákvarðanir eða bera ábyrgð á slíkum málum. „Er mikilvægt að stjórnvöld sem fara með ráðningarvaldið tryggi að beiðnir um aðgang að gögnum séu settar í réttan lagalegan farveg og afgreiddar í samræmi við lög,“ segir hann.
Umboðsmaður áréttar að í málum vegna ráðninga þurfi að hafa í huga að ráðgjöf utanaðkomandi aðila, svo sem einkafyrirtækja sem sérhæfa sig í ráðningarmálum, leysi ekki stjórnvaldið sjálft undan þeim skyldum sem á því hvíla við meðferð málsins á grundvelli laga og óskráðra meginreglna stjórnsýsluréttar. Þrátt fyrir að umsóknir um opinber störf séu sendar til einkafyrirtækis sem aðstoðar við að leggja mat á umsækjendur beri stjórnvaldið áfram ábyrgð á að gætt sé að viðeigandi réttaröryggisreglum.
Athugasemdir