Arnar Styr Björnsson, meðlimur nýnasistahreyfingarinnar Norðurvígis, segist aðhyllast „þjóðernisfélagshyggju“ og hafa efasemdir um að helför Nasista hafi átt sér stað. „Ég er mjög hrifinn af því sem þýski þjóðernisfélagshyggjuflokkurinn stóð fyrir,“ sagði hann þegar blaðamaður ræddi við hann á Lækjartorgi um hádegisleytið. Þar hafði hópur nýnasista frá Noregi, Svíþjóð, Danmörku og Íslandi, safnast saman undir fánum norrænu mótstöðuhreyfingarinnar og dreift áróðursefni um það sem þeir kalla „þjóðernisfélagshyggju“.
Arnar, sem er guðfræðingur að mennt og fyrrverandi formaður Herjans – félags stúdenta gegn ESB aðild, segist þó ekki vilja beita sér fyrir fjöldamorðum á Íslandi. „Ég held það sé ekki allt satt sem sagt er um helförina... hef ekkert verið að kynna mér það neitt sérstaklega en ég held það sé mjög mikið logið um það dæmi.“
Norðurvígi eru nýnasistasamtök með tengsl við The Nordic Resistance Movement, samtök sem ríkislögreglustjóri hefur fjallað um í tengslum við hættu á hryðjuverkum. Norðurvígi hafa meðal annars dreift hatursáróðri gegn hælisleitendum og innflytjendum hér á landi. Voru þrír menn tengdir samtökunum í Svíþjóð dæmdir í fangelsi árið 2017 fyrir sprengjuárás í Gautaborg.
Einn þeirra sem viðstaddir voru samkomuna á Lækjartorgi er Simon Lindberg, formaður Norrænu mótstöðuhreyfingarinnar, en hann var dæmdur í þriggja mánaða fangelsi í Svíþjóð fyrir að hafa árið 2006 ásamt öðrum ráðist á félaga í hinsegin samtökunum RFSL og beitt þá ofbeldi. Í fyrra var Lindberg svo dæmdur fyrir hatursáróður gegn minnihlutahópum, fyrir að hafa í ræðu sem hann hélt í miðborg Stokkhólms árið 2016 kallað nasistkveðjuna „Sieg Heil“.
Arnar segir þjóðernisfélagshyggju snúast um að „færa samfélagið í samræmi við náttúrulögmálin, í samræmi við náttúruna, frekar en að mannkynið sé einhvern veginn óháð náttúrunni“. Að sögn Arnars hefur hreyfingin styrkst umtalsvert á Íslandi undanfarna mánuði.
Athugasemdir