Lögreglustjórinn á Norðurlandi vestra hefur tekið ákvörðun um að færa umferðarhraða niður í 35 kílómetra á klukkustund á flestum götum Blönduósbæjar. Bærinn vinnur nú að uppsetningu nýrra umferðarskilta þar sem það á við. Sá umferðarhraði verður hins vegar óheimill um næstu áramót, þegar ný umferðalög taka gildi.
Á vef Blönduósbæjar var í gær birt auglýsing um umferð innan Blönduósbæjar þar sem tilgreint er að lögreglustjóri hafi ákveðið, að tillögu sveitarstjórnar, að hámarkshraði verði færður niður í 35 kílómetra á klukkustund á flestöllum götum bæjarins. Er vísað til heimildar í 81. grein núgildandi umferðarlaga og það tilgreint að breytingarnar taki gildi strax við birtingu auglýsingarinnar. Þá er einnig greint frá því að Blönduósbær vinni að uppsetningu nýrra skilta þar sem þess sé þörf.
Þau skilti munu hins vegar tæplega fá að standa lengi, eða öllu heldur ekki lengur heldur en til næstu áramóta. Þá taka gildi ný umferðarlög sem samþykkt voru á Alþingi síðastliðið vor. Í grein 37 í þeim segir meðal annars: „Hámarksökuhraði skal tilgreindur í heilum tugum, að undanteknum hámarksökuhraðanum 15 km á klst.“
Athugasemdir