Háskólinn í Reykjavík sýndi fram á með fullnægjandi hætti að uppsögn Kristins Sigurjónssonar hefði verið nauðsynleg „til að vernda réttindi eða hagsmuni annarra, jafnt stefnda og hluthafa hans sem starfsfólks háskólans og nemenda“.
Þetta er niðurstaða Héraðsdóms Reykjavíkur í máli Kristins gegn HR.
Kristinn starfaði um árabil sem lektor við tækni- og verkfræðideild skólans en var sagt upp eftir að DV greindi frá ummælum sem hann hafði látið falla um konur á lokuðum en fjölmennum umræðuhópi á Facebook.
Orðrétt skrifaði Kristinn: Það á að aðgreina vinnustaði karla og kvenna. Vandinn er bara að konur reyna alltaf að troða sér þar sem karlmenn vinna, og um leið og þær eru komnar inn, þá byrja þær að eyðileggja hann, því allir kalmennirnir eiga þá að fara að tala, hugsa og hegða sér eins og kerlingar, allt annað er áreiti og ef sagður en neðanbeltisbrandari, svo ég nefni ekki klámbrandari, þá er það kynferðisofbeldi.
Kristinn höfðaði mál gegn HR og krafðist skaða- og miskabóta, en nú hefur skólinn verið sýknaður af öllum dómkröfum.
Að mati Héraðsdóms Reykjavíkur birti Kristinn ummæli sín „á opinberum vettvangi“ og mátti þannig vænta þess að ummælin hlytu víðtækari dreifingu, t.d. fyrir tilstilli fjölmiðla. Dómurinn telur að stefnandi hefði átt að „vanda það sérstaklega hvernig hann nýtti tjáningarfrelsi sitt“ og að honum hafi mátt vera fullljóst að ummælin stönguðust á við jafnréttisgildi HR.
Héraðsdómur fellst á að uppsögnin hafi falið í sér takmörkun á tjáningarfrelsi Kristins. Sú takmörkun hafi þó stefnt „að lögmætu markmiði, þ.e. að verndun réttinda annarra, þar á meðal samstarfsfólks stefnanda og nemenda háskólans, til að upplifa að háskólinn starfaði í reynd eftir gildum jafnréttis“.
Haft er eftir Jóni Steinari Gunnlaugssyni, lögmanni Kristins, í Fréttablaðinu í dag að dómi Héraðsdóms Reykjavíkur verði áfrýjað til Landsréttar.
Athugasemdir