Gunnar Bragi Sveinsson og Bergþór Ólason segjast hafa verið beittir kynferðislegu ofbeldi af konu úr öðrum þingflokki og að þeir séu sárir yfir því að einlægt einkasamtal um málið hafi verið notað gegn þeim.
Við könnumst öll við þetta svokallaða einkasamtal, betur þekkt sem Klausturfokk (eða Klausturgate). Ef við stiklum á stóru þá var samstarfskona þeirra líkami sem typpið á Bergþóri passaði í, Gunnar Bragi sagði aðra vera tík sem þeir þyrftu að hjóla í, ein var minna hot í ár, enn önnur húrrandi klikkuð kunta. Og svo framvegis, allt í þessum dúr. Kynferðisbrotið ógurlega sem þeir halda nú fram að þeir hafi verið beittir þótti svo fyndið á barnum að þeir reyndu að toppa hvorn annan í hversu krassandi það hefði verið með ýmiskonar grófum lýsingum. Sigmundur Davíð sagði að margir hefðu reynt að sannfæra Bergþór um að „take one for the team“ þegar hin stórfyndna „nauðgun“ átti sér stað. Take one for the team Beggi. Hehe.
Gerendur verða þolendur
Fyrst um sinn voru þeir smávægilega sorrí þegar sveitt og þrútið þingkarlmennskuspjallið dreifðist til almennings. Gunnar hringdi meira að segja í konuna sem hann sagði, hlæjandi, að hefði „nauðgað“ sér, til að biðja hana afsökunar og sagði ekkert af orðum hans innihalda nokkurn sannleika. Tónninn er þó annar núna. Í dag halda þeir því fram að þeir hafi verið að ræða upplifun þeirra af kynferðislegu ofbeldi. Umræðan öll um samtalið sé pólitísk áras og sé erfið fyrir þá sem „þolendur“.
Gerendur verða þolendur. Orðræða baráttunnar sem þeir hlógu að er nú notuð að til að mála þá upp sem fórnarlömb. Með afskræmingu #metoo segjast þeir vera „þolendur kynferðisofbeldis“, hafa orðið fyrir „erfiðri reynslu“ og að þeir hafi „opnað sig“ í því sem þeir héldu að væri „öruggt umhverfi“. Við eigum greinilega ekki bara að trúa þeim, við eigum líka að vorkenna þeim. Krafan á okkur sem höfum barist fyrir málefnum þolenda er að trúa þeim samstundis. Því karlar verða fyrir ofbeldi líka!
En ég trúi ekki að þessir karlar hafi verið beittir kynferðisofbeldi. Ég, sem stend með þolendum, stend ekki með þessum mönnum. Því þeir eru ekki þolendur.
Ofbeldismenn ljúga
Ég hef áður skrifað um það að ofbeldismenn ljúga. Þolendur hafa ítrekað talað um hvernig gerendur þeirra reyndu ótrúlegustu hluti til að snúa öllu við og láta sem þeir væru þolendurnir eftir allt saman. Sérstaklega þegar brot ofbeldismanna eru opinberuð eru þeir gjarnir á að snúa öllu við, afvegaleiða, hóta og ljúga til að fólk eigi erfitt með að halda þræði og atburðarrásin týnist í hávaðanum. Þetta hafa Klausturfantarnir gert af mikilli list. Þeir segjast hafa beðist afsökunar og láta svo sem þeir hafi ekkert gert sem krefjist afsökunarbeiðni, afsakanir um að þeir sjái eftir orðum sínum snúast svo út í að þeir hafi ekki sagt það sem þeir sögðu, ef spurt er út í ákveðnar setningar var þetta jú óheppilega orðað, en næsta dag er þetta pólítískt einelti og slitið úr samhengi. Fólkið sem bendir á lygarnar verður að árásaraðilanum, þær sem urðu fyrir níðinu eru gerðar tortryggilegar.
„Þeir segjast hafa beðist afsökunar og láta svo sem þeir hafi ekkert gert sem krefjist afsökunarbeiðni“
Hvar erum við nú? Hringiðan fór af stað og gekk yfir og skildi eftir rjúkandi rústir. Fólk sem var alveg brjálað fyrst segist ekki nenna þessu máli lengur, getum við ekki talað um eitthvað annað! Svo hafði þetta gengið of langt, orðið að einelti, þau sem reyndu að halda umræðunni á lofti urðu aðhlátursefni. Nú eigum við að hunsa öll rauðu ljósin og trúa lygunum.
En þeir voru ekki að segja frá erfiðri reynslu. Þeir voru að gorta sig af því að vera svo miklir karlar, hvað typpin á þeim væru eftirsótt. Samtalið var ekki tveir karlar að opna sig, heldur niðurlægjandi karlrembugrín um #metoo og þolendur sem hefðu sagt frá kynferðis-og heimilsofbeldi. Þetta snerist um að hjóla í tíkina sem gerðist svo djörf að sýna þolendum stuðning og halda ræðu um #metoo.
Pólitík nauðgunarmenningar
Flokkar sem innihalda kvenhatandi karla fá meira fylgi eftir að gröfturinn vellur upp á yfirborðið. Aftur og aftur sjáum við hvernig ofbeldi og kvenhatur færir körlum völd, vinsældir og velgengni. Þótt upptaka sé til af því að þingmenn á Klaustur Bar tali um þingkonur, þolendur kynferðis-og heimilisofbeldis, baráttukonu fyrir réttindum fatlaðra og hinsegin einstaklinga með niðrandi og niðurlægjandi hætti var það ekki nóg. Hvorki til að krefjast þess að þeir segi af sér né til að krefjast ábyrgðar. Eins og er vaninn í svona málum standa þeir nú fyrir framan alþjóð, búnir að snúa flestu sér í hag. Gerendur eru þolendur, þolendur eru gerendur. Stuðningsfólk þolenda verða hlægileg, góða fólkið sem kann ekki að stoppa og slappa af. Restin nennir ekki að hugsa um þetta lengur.
Hér erum við. Föst í hringiðu nauðgunarmenningar. Bakslagið birtist í því að opinskátt kvenhatur er verðlaunað og reynt er að spilla orðræðu þolenda. Spurningin núna er hvort fólk nennir að rífa sig upp til að mótmæla því.
Athugasemdir