Margrét Einarsdóttir, dósent við lagadeild Háskólans í Reykjavík, furðar sig á lagatúlkun Ólafs Ísleifssonar, þingmanns Miðflokksins og þeirri ályktun sem Ólafur dregur út frá fræðigrein eftir hana sem birtist í Tímariti lögfræðinga árið 2016.
Eins og Stundin greindi nýlega frá stendur Ólafur í þeirri trú að 26. gr. stjórnarskrárinnar um synjunarvald forseta geti tekið til þingsályktana. Þessa kenningu rökstuddi hann í Morgunblaðinu með því að vitna í grein eftir Margréti.
Orðrétt skrifaði Ólafur í Morgunblaðið:
Aðferðum við að taka Evrópureglur í innlendan rétt er lýst í grein í Tímariti lögfræðinga 2016 undir fyrirsögninni Upptaka afleiddrar löggjafar í EES-samninginn – Hvað er unnt að gera betur? Í greininni sem er hluti af doktorsverkefni höfundar, Margrétar Einarsdóttur, dósents í lögfræði við Háskólann í Reykjavík, kemur fram að þegar Alþingi hefur með þingsályktun veitt samþykki sitt fyrir ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar að tilteknar Evrópureglur hljóti lagagildi séu staðfestingarskjöl send til forseta með beiðni um staðfestingu. Samstarfsþjóðum í EFTA er ekki tilkynnt um samþykki Alþingis fyrr en samþykki forseta liggur fyrir (bls. 19). Samþykki Alþingi þingsályktunartillögu utanríkisráðherra mun því orkupakkinn í heild fara um hendur forseta Íslands.
Margrét hefur brugðist við skrifum Ólafs á Facebook. Hún bendir á að í grein sinni, sem Ólafur vitnar til, sé tekið fram að þegar upptaka gerða í EES-samninginn kallar á lagabreytingu sé samþykki forseta Íslands fengið áður en hinum stjórnskipulega fyrirvara er aflétt. Þannig sé framkvæmdin í samræmi við 21. gr. stjórnarskrárinnar.
„Af þessari umfjöllun minni virðist þingmaðurinn draga þá ályktun að nærtækt sé að líta svo á að 26. gr. stjórnarskrárinnar eigi við í þessu tilfelli og að forsetinn hafi heimild til að hafna því að staðfesta þingsályktun Alþingis og vísa því til þjóðarinnar,“ skrifar Margrét.
„Ég get ekki skrifað undir þessa lagatúlkun míns gamla samstarfsmanns úr HR. Ákvæði 26. gr. stjórnarskrárinnar fjallar samkvæmt orðalagi sínu um heimild forseta Ísland til að hafna því að staðfesta „lagafrumvarp“ – ekki þingsályktun. Þá ber hér einnig að líta til 13. gr. stjórnarskrárinnar þar sem segir: „Forsetinn lætur ráðherra framkvæma vald sitt“. Það mun koma í hlut Alþingis að taka ákvörðun um afléttingu hins stjórnskipulega fyrirvara við 3. orkupakkann og forseti Íslands hefur ekki stjórnskipulegar heimildir til annars en að staðfesta þá þingsályktun.“
Athugasemdir