Sjálfstæðismenn ætla að safnast saman í gönguferðum víða um land þann 18. ágúst næstkomandi í tilefni 90 ára afmælis Sjálfstæðisflokksins. Þetta kemur fram í fréttabréfi flokksins til allra félaga.
„Víðast hvar verður gengið á milli kl. 12 og 13, en allir þátttakendur fá m.a. í hendur vatnsbrúsa og buff merkt flokknum. Á eftir göngu á hverjum stað munum við svo gæða okkur á veitingum að hætti heimamanna.“
Göngurnar eru skipulagðar af fulltrúaráðum og flokksfélögum á hverjum stað og ætlaðar fólki á öllum aldri. Afmælishátíðin nær svo hámarki í Reykjavík þann 14. september þegar fram fer málþing, flokksráðsfundur og loks kvöldskemmtun.
Í fréttabréfinu er að finna hugvekju frá Jens Garðari Helgasyni, formanni sveitarstjórnarráðs Sjálfstæðisflokksins.
Jens segir að sveitarstjórnarfólk Sjálfstæðisflokksins muni taka þátt í í fjárhagsáætlunargerð sveitarfélaganna í haust „uppfullt af D vítamíni“ og brýnir fyrir því að lækka álögur á íbúa. „Fasteignamat á íbúðar- og atvinnuhúsnæði hefur verið að hækka um allt land. Það freistar því margra stjórnmálamanna að láta þá hækkun renna óhindrað í gegn og sækja enn dýpra í vasa íbúanna,“ skrifar Jens. „Ég skora því á sveitarstjórnarfólk Sjálfstæðisflokksins um landið allt að draga línuna skýrt í sandinn og sjá til þess að ekki verði lengra gengið í átt til aukinnar skattheimtu. Því eins og alltaf, þá trúum við því að fólkinu sjálfu sé betur treystandi fyrir eigin sjálfsaflafé en stjórnmála- og embættismönnum þessa lands.“
Athugasemdir