Alþingi ætti að afhenda öllum Íslendingum eignarhluti í Landsbankanum og Íslandsbanka, að mati Óla Björns Kárasonar, þingmanns Sjálfstæðisflokksins. „Með því yrði ýtt undir þátttöku almennings á hlutabréfamarkaði og margir fengju tækifæri til að stíga fyrstu skrefin í átt að því að gerast kapítalistar,“ skrifar hann í grein í Morgunblaðinu í dag.
Telur hann þó að sú hugmynd geti mætt andstöðu. „Þeir eru enn til sem trúa því í einlægni að samfélaginu vegni best ef flest (öll!) atvinnutæki eru á höndum ríkisins,“ skrifar hann. „Ríkishyggjan getur aldrei samþykkt hugmyndir um valddreifingu og auðstjórn almennings.“
Óli Björn segir slíka „almannavæðingu fjármálakerfisins“ vera hluta af frelsisbaráttu Sjálfstæðisflokksins frá stofnun. „Að skjóta styrkari stoðum undir fjárhagslegt sjálfstæði einstaklinga og fjölskyldna þeirra og gera Íslendinga að kapítalistum, er eitur sem enn seytlar um æðar margra, sem eru sannfærðir um að séreignarstefnan eigi rætur í hugsunarhætti smáborgarans.“
Vitnar Óli Björn í orð Davíðs Oddssonar á Viðskiptaþingi Verslunarráðs í febrúar 2004 til stuðnings hugmyndinni: „Tilgangur baráttu okkar fyrir einstaklingsfrelsinu var aldrei sá að frelsið yrði fyrir fáa útvalda. Of mikil samþjöppun í efnahagslífinu er í mínum huga óæskileg og lítt dulbúin frelsisskerðing.“
Hugmyndinni varpað fram af Bjarna Benediktssyni
„Ég hef áður haldið því fram að eðlilegt sé og sanngjarnt að almenningur fái að njóta með beinum hætti þess virðisauka sem hefur myndast innan veggja bankanna frá endurreisn þeirra,“ skrifar Óli Björn. „Til þess er engin leið betri en að ríkið afhendi hverjum og einum hlutabréf í bönkunum. Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, varpaði fram þessari hugmynd í ræðu á landsfundi 2015. Frá þeim tíma hefur staðan styrkst.“
Leggur Óli Björn til að almenningur fái 10 til 20 prósenta hlut í bönkunum á næstu fjórum til fimm árum, á sama tíma og skipulega verði dregið úr eignahaldi ríkisins á þeim. „Í lok mars nam eigið fé Landsbanka og Íslandsbanka um 420 milljörðum króna,“ skrifar hann. „Verðmæti bankanna kann að vera eitthvað lægra, en um það veit enginn fyrr en á reynir. Þessum fjármunum er betur varið í að treysta innviði samfélagsins, í samgöngumannvirki, orkuvinnslu og -dreifingu, fjarskipti, skóla, byggingar og tæki fyrir heilbrigðisþjónustu og íþróttahús. Fjárfesting í traustum innviðum, sem eru forsenda hagsældar og bættra lífskjara, er arðbærari en að festa fjármuni í áhættusömum rekstri fjármálafyrirtækja.“
Athugasemdir