Samtök atvinnulífsins leggja til að lögbundinn frestur stjórnvalda til að svara upplýsingabeiðnum frá almenningi og fjölmiðlum verði lengdur úr sjö dögum í 14 daga.
Stundin greindi frá því fyrr í sumar að samtökin (SA) hefðu sent stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis erindi og kallað eftir breytingum á upplýsingalögum með það að markmiði að „tryggja rétt einkaaðila við afgreiðslu upplýsingabeiðna hjá þeim sem falla undir upplýsingalögin“.
Lögðu SA til að upplýsingabeiðendur yrðu skyldaðir til að „tiltaka tilgang beiðninnar“ auk þess sem stjórnvöld yrðu látin eiga samráð við einkaaðila áður en veittur væri aðgangur að „gögnum sem geta varðað einkahagsmuni“ þeirra. Stungið var upp á ýmsum nýjum ákvæðum til að verja réttindi einkaaðila sem hafa hagsmuni af því að upplýsingar á vegum hins opinbera fari leynt.
Athygli vakti svo nokkrum vikum síðar þegar forsætisráðuneytið kynnti á samráðsgátt stjórnvalda áform um að koma til móts við þessar tillögur Samtaka atvinnulífsins. Er fyrirhuguðum lagabreytingum lýst með eftirfarandi hætti:
i. Bætt verði við nýju ákvæði í 17. gr. upplýsingalaga þar sem kveðið verður á um skyldu stjórnvalda til þess að leita afstöðu þriðja aðila til afhendingar upplýsinga sem varða hann sjálfan áður en ákvörðun er tekin um afhendingu gagna nema það sé bersýnilega óþarft.
ii. Ákvæði 1. mgr. 23. gr. upplýsingalaga verði breytt þannig að úrskurðarnefnd um upplýsingamál sé gert skylt að birta úrskurð þeim aðila sem upplýsingar um einkahagsmuni varða ef í úrskurði er fallist á rétt kæranda til aðgangs að upplýsingunum.
iii. Bætt verði við ákvæði í 24. gr. upplýsingalaga þar sem þriðja aðila verður veittur réttur til þess að krefjast þess að réttaráhrifum úrskurðar úrskurðarnefndar um upplýsingamál verði frestað í því skyni að bera ágreining um gildi úrskurðarins undir dómstóla.
Samtök atvinnulífsins fagna áformunum en telja ekki nógu langt gengið.
Í fyrsta lagi ítreka samtökin að þau vilji að upplýsingabeiðendum verði skylt að „tiltaka tilgang beiðninnar“ en þannig fái stjórnvöld „grundvöll til að meta hvort upplýsingarnar muni verða notaða með ólögmætum hætti“. Í öðru lagi vilja samtökin að lögbundinn frestur stjórnvalda verði lengdur. „Í 2. málsl. 1. mgr. 17. gr. upplýsingalaga er getið um sjö daga frest til að svara upplýsingabeiðni. Þetta er afar stuttur tími sem virðist í framkvæmd sjaldnast standast. Betra væri að kveða á um raunhæfan tímafrest í lögum, svo sem 14 daga. Lengri frestur væri einnig til þess fallinn að skapa svigrúm til þess að rannsaka mál með fullnægjandi hætti þegar um flóknari mál er að ræða. Þó að slíkt svigrúm sé til staðar gildir enn sú regla að beiðni skuli afgreidd eins fljótt og verða má,“ segir í umsögn samtakanna. Loks kalla SA eftir því að einkaaðilar fái heimild til að kæra niðurstöður stjórnvalda um birtingu gagna til úrskurðarnefndar um upplýsingamál.
Athugasemdir