Þrjár dætur Hjördísar Svan Aðalheiðardóttur, á aldrinum 12, 13 og 15 ára, hafa sent Alþingi umsögn um frumvarp sjálfstæðismanna um refsingar við tálmun.
Í bréfinu er fjallað um persónuleg málefni fjölskyldunnar, en skrifstofa Alþingis leitaði staðfestingar á því að stúlkurnar hefðu sent bréfið og birti það á þingvefnum með leyfi þeirra.
Dætur Hjördísar segja að það sem þær gengu í gegnum þegar móðir þeirra var fangelsuð fyrir að hafa sótt þær ólöglega til Danmerkur og flogið með þær til Íslands sé eitthvað sem ekkert barn eigi að þurfa að upplifa.
„Mamma okkar gerði allt til þess að forða okkur frá ofbeldi. Hún kom með okkur til Íslands eftir að ein af okkur var lögð inn á spítala með áverka eftir ofbeldi,“ segir í bréfinu.
Hjördís Svan fékk fullt forræði yfir dætrum sínum í fyrra, en mikla athygli vakti árið 2013 þegar hún flutti dætur sínar ólöglega til Íslands frá dönskum föður þeirra. Í kjölfarið var Hjördís dæmd í 18 mánaða fangelsi.
Dætur hennar lýsa þessum tíma í umsögn sinni: „Einn dag fengum við öll símtal frá mömmu þar sem hún sagði okkur að ekki hafa áhyggjur af henni en hún gæti ekki verið í miklu sambandi við okkur í einhvern tíma. Þetta var dagurinn sem mamma var handtekin. Við gátum seinna talað við mömmu tvisvar í viku 5 mínútur í senn. Sem var ekki langur tími þar sem við þurftum fjögur að skipta á milli okkar 5 mínótum en það var klukka í fangelsinu sem taldi mínóturnar niður, þegar þær voru liðnar þá var skellt á. Þarna var mamma í 6 mánuði.“
„Það var ekki hlustað á okkur og aftur
og aftur brást fólk sem átti að hjálpa“
Stúlkurnar segja að eftir þessa reynslu finnist þeim skrítið að lesa að Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, sem hangi uppi í grunnskólum, þar sem fram komi að öll börn eigi rétt á vernd og taka skuli mark á vilja þeirra. „Það var ekki hlustað á okkur og aftur og aftur brást fólk sem átti að hjálpa. Af hverju var okkur ekki trúað eða tekið mark á gögnum um ofbeldi?“
Þær biðla til þingmanna að huga að velferð og öryggi barna. „Þetta frumvarp bitnar verst á börnum. Í umræðum um mömmu á netinu er hún kölluð tálmunarmóðir, það ætti að fara skoða merkinguna á því orði vegna þess að í okkar huga er tálmun = vernd.“
Flutningsmenn frumvarpsins um refsingu við tálmun eru þau Brynjar Níelsson, Ásmundur Friðriksson, Bryndís Haraldsdóttir, Jón Gunnarsson, Njáll Trausti Friðbertsson, Óli Björn Kárason og Páll Magnússon.
Vilja þingmennirnir að tálmun varði „sektum eða fangelsi allt að fimm árum“ en að slík brot sæti aðeins opinberri rannsókn að undangenginni kæru barnaverndar til lögreglu. Í frumvarpinu er vitnað í barnasáttmála Sameinuðu Þjóðanna og bent á að börn eiga rétt á að þekkja og umgangast báða foreldra sína. Þetta sé mikilvægt fyrir velferð barnsins. Telja flutningsmenn mikilvægt að tálmun fái sömu meðhöndlun barnaverndaryfirvalda og „annars konar vanræksla og/eða ofbeldi gegn barni“.
Meðal aðila sem gagnrýnt hafa frumvarpið er Mannréttindaskrifstofa Íslands sem telur efni þess andstætt hagsmunum barna og bendir á að oft sé umgengni tálmað vegna áhyggna af ofbeldi hins foreldrisins, vímuefnaneyslu eða andlegum veikindum þess. Telur stofnunin að það orki tvímælis „að refsa foreldri fyrir að uppfylla lögbundnar skyldur sínar við börn sín og furðar sig á að í frumvarpinu skuli ekki gert ráð fyrir undanþágum í tilvikum sem þeim sem hér eru rakin“.
Athugasemdir