Helgi Magnússon fjárfestir hefur keypt helmingshlut í Torgi ehf., útgáfufélagi Fréttablaðsins en gengið var frá kaupunum í gærmorgun. Helgi segir í samtali við Stundina að hann hafi áhuga á styðja við og styrkja fjölmiðlun á Íslandi og því hafi hann gripið tækifærið og keypt hlutinn í fríblaðinu.
Sögur um hugsanlega aðkomu Helga að Fréttablaðinu fóru að kvisast út um liðna helgi eftir að tilkynnt var um ráðningu Davíðs Stefánssonar sem ritstjóra Fréttablaðsins. Ýjað var að því að Davíð hefði verið stillt upp í þann stól sem fulltrúa Helga. Þessu hafnar Helgi. „Ég er ekki einu sinni kominn inn í stjórn, við gengum frá kaupunum í gærmorgun og það er samkomulag um að Ingibjörg Pálmadóttir verði formaður stjórnar Torgs og ég komi inn í stjórnina, við verðum þar tvö. Ég er því ekki farinn að hafa nein afskipti af rekstrinum. Hún var þó búin að segja mér af því að Davíð yrði ráðinn þannig að það kom mér ekki á óvart en það er ekki eins og ég hafi valið hann. Ég þekki hins vegar manninn alveg og hef mikla trú á honum.“
Helgi segir að sama skapi að hann stefni ekki að því að koma með nýjar áherslur eða breytingar að borðinu hvað varðar rekstur eða stefnu Fréttablaðsins, í það minnsta ekki fyrsta kastið. „Ég kem ekki með neina stefnuskrá að borðinu.“
Kemur ekki með aukið fé inn í reksturinn
Helgi segir að viðræður um kaupin hafi staðið í nokkrar vikur. Torg var boðið til sölu í heild síðastliðið haust en ekki varð af sölunni þá. Helgi segir hlutina síðan hafa þróast á þann veg að eigendur Torgs, sem að langstærstu leyti er Ingibjörg Pálmadóttir, hafi getað hugsað sér að taka inn meðeigenda til að styrkja stoðir fyrirtækisins með breiðara eignarhaldi. Helgi hafi látið slag standa.
„Ég hef þær skoðanir á fjölmiðlum að þeir gegni ákaflega mikilvægu hlutverki og mér finnst áhugavert að efla mikilvægan fjölmiðil eins og þennan. Mér finnst skipta miklu máli að reyna að tryggja rekstur þessa útbreiddasta blaðs landsins. Mér finnst ekki góð framtíðarsýn að ríkið sé í miklu mæli bakhjarl í fjölmiðlarekstri og því er gott að einkaaðilar komi með sína fjármuni í svona rekstur.“ Kaupverðið er trúnaðarmál milli aðila að sögn Helga en hann fjármagnar kaupin með eigin fé.
Helgi segir hugsanlegt að hann fái fleiri aðila að eignarhaldinu á umræddum helmingshlut, kaup hans hafi farið að kvisast út í gær og segir hann að strax þá hafi hann fengið meldingar frá ýmsum um hugsanlega aðkomu að eignarhlutnum. Ekki standi til að koma með aukið hlutafé inn í rekstur blaðsins, enda sé ekki þörf á því. „Ég kaupi þennan helmingshlut af núverandi eigendum og það stendur ekki til að koma með frekari fjármuni í reksturinn. Ég lít á þetta sem spennandi fjárfestingu fyrst og fremst. Þetta er myndarlegt fyrirtæki og vel mannað og mér þykir afar áhugavert að koma að þessu.“
Því hefur ítrekað verið haldið fram að Helgi hafi lagt fjölmiðlinum Hringbraut til fjármuni til rekstrar. Þegar Davíð Stefánsson var ráðinn ritstjóri Fréttablaðsins var á það bent að hann hefði verið með sjónvarpsþætti á Hringbraut og það haft til marks um að Davíð væri Helga maður.
Þetta segir Helgi að sé af og frá, hann hafi ekki sett krónu í Hringbraut, hvorki fyrr né síðar. „Ég kannast við þá þvælu. Ég á ekki krónu í Hringbraut. Þessi saga er búin að vera lífseig, en hún er ekkert nema það: saga og ekki sönn. Einhverjir sem er frekar lítið um mig gefið, og mína samferðamenn, hafa verið að halda þessu á lofti, en þetta er ekki rétt.“
Athugasemdir