Stuðningur við ríkisstjórnina jókst um 4,5 prósentustig á hálfum mánuði, frá miðjum maí til loka mánaðarins og mælist nú 45,5 prósent. Breytingar á fylgi allra stjórnmálaflokka sem spurt var um reyndust óverulegar og innan vikmarka, utan þess að fylgi við Pírata eykst marktækt, um 4,2 prósentustig. Þá dalaði fylgi Flokks fólksins um 2,2 prósentustig, mældist 4,2 prósent, og er það einnig marktæk breyting.
Þetta kemur fram í nýrri könnun MMR á fylgi flokka sem gerð var dagana 23. til 29. maí síðastliðinn. Síðasta könnun sem fyrirtækið gerð var birt 16. maí. Mælist Sjálfstæðisflokkurinn með stuðning 21,5 prósenta í könnuninni og er það 0,2 prósentustigum hærra en í síðustu könnun. Flokkurinn mælist með mest fylgi flokka á landsvísu.
Vinstri græn mælast næststærst með 14,1 prósent fylgi, hækka um 1,9 prósent milli kannana. Píratar eru því sem næst jafnir Vinstri grænum, njóta stuðnings 14 prósenta þeirra sem tóku þátt og bæta sem fyrr segir við sig 4,2 prósentustigum. Samfylkingin dalar lítillega, þó ekki marktækt frekar en flestir aðrir flokkar. Flokkurinn nýtur nú stuðnings 12,5 prósenta aðspurðra sem er 1,4 prósentustigum lægra en 16. maí síðastliðinn.
Miðflokkurinn lækkar um 1 prósentustig milli kannana, mælist nú með 10,8 prósent. Framsókn lækkar einnig, mælist með stuðning 9,7 prósenta aðspurðra en mældist síðast með 11,6 prósent. Viðreisn stendur í stað, mælist með 8,3 prósent miðað við 8,4 prósent síðast. Sem fyrr segir dalar Flokkur fólksins milli mælinga og nýtur nú stuðnings 4,2 prósenta. Sósíalistaflokkur Íslands stendur því sem næst í stað milli kannana, mælist nú með 3,4 prósent stuðning en var síðast mðe 3,2 prósent. Aðrir flokkar mælast með 1,6 prósenta stuðning.
Alls svöruðu 932 könnuninni og 79,3 prósent þeirra gáfu upp afstöðu til flokka. Óákveðnir voru 6,2 prósent, 6,8 prósent kváðust myndu skila auðu, 1,7 prósent sögðust ekki myndu kjósa og 5,6 prósent gáfu ekki upp afstöðu.
Athugasemdir