Greiðslur vegna lífeyris inn á erlenda reikninga hafa hækkað um nær helming á síðasta ári. Lífeyrisgreiðslur til einstaklinga búsettra erlendis eru alls um 3,5 milljarðar króna á ári. Morgunblaðið greinir frá.
Vinnsla og eftirfylgni mála hjá Tryggingastofnun er orðin flóknari vegna þessa, að sögn Sigríðar Lilly Baldursdóttur, forstjóra Tryggingastofnunar, í ávarpi hennar í ársskýrslu. „Tryggingastofnun er ekki einvörðungu stofnun allra landsmanna í merkingunni: þeirra sem hér á landi búa,“ skrifar hún. „Margvísleg réttindi fara landa á milli. Með flutningi íslenskra ríkisborgara og annarra sem eiga lögheimili hér á landi um stund eða til lengri tíma verða til réttindi sem flytjast og stofnast í öðrum löndum, jafnvel löngu eftir að dvöl á Íslandi lýkur.“
Félagsleg réttindi eins og uppbætur, bifreiðakostnaður, maka- og umönnunarbætur og endurhæfingarlífeyrir falla niður þegar flutt er frá Íslandi, en mismunandi reglur eru í gildi erlendis um slík réttindi. Eftir sex mánaða búsetu erlendis er lífeyrisþega skylt að flytja lögheimili sitt til búsetulandsins.
Athugasemdir