Jón Gunnarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, vill að ríkið selji Spöl hf., eignarhaldsfélag Hvalfjarðarganganna, til lífeyrissjóða og sveitarfélaga. Þessu stingur hann upp á í Facebook-færslu í dag.
„Nú væri ágætt að selja Spöl aftur t.d. til lífeyrissjóða og sveitarfélaga. Semja síðan við fyrirtækið um stór samgönguverkefni til næstu ára og halda því opnu að geta sett inn ný verkefni í framtíðinni. Þannig yrði lífeyrissparnaður landsmanna ávaxtaður í uppbyggingu innviða. Reynslan er góð og engin ástæða til að ætla annað en að svo geti verið áfram,“ skrifar Jón.
Hvalfjarðargöng voru afhent ríkinu til eignar í fyrra. Nýlega komst svo stjórn Spalar að samkomulagi við Vegagerðina um að hún tæki við félaginu og var gengið frá yfirtökunni á aðalfundi Spalar í gær. „Einkahlutafélagið er nú í raun á forræði Vegagerðarinnar og verður það til fulls þegar formsatriðum eigendaskipta lýkur innan tveggja til þriggja vikna,“ segir á vef félagsins.
Vegagerðin hefur verið hluthafi í Speli frá stofnun félagsins 25. janúar 1991 en er nú orðin eini hluthafinn eftir aðalfund félagsins á morgun. Útlit er fyrir að Speli fylgi að minnsta kosti 120 milljónir króna í handbæru fé til Vegagerðarinnar eftir yfirtöku. Helmingurinn er ógreiddar kröfur viðskiptavina á félagið vegna inneigna á reikningum auk veglykla og afsláttarmiða sem ekki hefur verið skilað. Hinn hlutinn, 60-70 milljónir króna, eru fjármunir sem eftir verða hjá Speli þegar allur kostnaður félagsins hefur verið greiddur.
Athugasemdir