Samtök atvinnulífsins telja að Hótelkeðjan ehf. og CapitalHotels ehf., fyrirtæki í eigu Árna Vals Sólonssonar og Svanlaugar Idu Þráinsdóttur, hafi verið í fullum rétti þegar gripið var til hagræðingaraðgerða gagnvart starfsfólki vegna „væntanlegs kostnaðarauka“ skömmu eftir að kjarasamningar voru undirritaðir.
Efling hefur lýst því yfir að uppsagnir hótelstjórans Árna Vals Sólonssonar á launakjörum starfsmanna feli í sér vanefndir á nýundirrituðum kjarasamningi. Krafðist stéttarfélagið fundar með framkvæmdastjóra SA vegna málsins í síðustu viku og mun fundurinn fara fram nú á miðvikudag samkvæmt upplýsingum Stundarinnar.
Segjast hafa hætt yfirborgunum vegna tekjusamdráttar
Fyrirtækin hafa gefið þær skýringar að starfsfólki hafi verið „yfirborgað“. Draga hafi þurft úr yfirborgunum og breyta vaktafyrirkomulagi til að ná fram sparnaði vegna tekjusamdráttar. Hagræðingaraðgerðirnar hafi ekkert með kjarasamninga að gera. „Ég er bara að segja upp launaliðnum, sem sagt því sem ég er að borga umfram taxta,“ sagði Árni Valur í viðtali við Fréttablaðið og bætti því við að breytingarnar hefðu verið gerðar í samráði við lögfræðing hjá Samtökum atvinnulífsins. „Fólkinu líður vel í vinnu þangað til hún kom þessi kelling þarna, kommúnistinn, til valda hjá Eflingu.“
SA sendi Eflingu bréf um miðjan maí þar sem gripið er til varna fyrir hótelfyrirtækin og skýringar þeirra á tímasetningu uppsagnanna teknar gildar. Stundin óskaði eftir því að fá bréfið afhent, en að sögn Ragnars Árnasonar, forstöðumanns vinnumarkaðssviðs SA, er bréfið trúnaðarmál, ritað fyrir hönd aðildarfyrirtækis vegna starfsmannamála þar sem reynir á túlkun laga og kjarasamninga. „SA er óheimilt að senda þau samskipti til annarra aðila. Auk þess koma fram í bréfinu rekstrarupplýsingar sem óskað hefur verið trúnaðar um,“ segir hann í svari við fyrirspurn Stundarinnar.
Lögðu líf og heilbrigði byggingarstarfsmanna í hættu
Þetta er ekki í fyrsta skipti sem deilt er um kjör og aðbúnað starfsmanna hjá hótelum sem heyra undir CapitalHotels ehf. Í október síðastliðnum bannaði Vinnueftirlitið alla vinnu hjá City Park Hótel í kjölfar eftirlitsheimsóknar sem leiddi í ljós að aðbúnaður, hollustuhættir og öryggi byggingarstarfsmanna uppfylltu ekki lagakröfur. Taldi Vinnueftirlitið að líf og heilbrigði starfsmanna á byggingarvinnustað væri í hættu en ráðist hafði verið í byggingarframkvæmdir án byggingarleyfis frá Reykjavíkurborg og merki voru um að starfsmenn svæfu á verkstað. City Park Hótel rataði svo aftur í fréttirnar þann 25. febrúar síðastliðinn þegar til snarpra orðaskipta kom milli Sólveigar Önnu Jónsdóttur, formanns Eflingar, og eigandans Árna Vals Sólonssonar vegna fyrirhugaðrar atkvæðagreiðslu um boðun verkfalls á meðal starfsmanna hótelsins sem eru í Eflingu.

Efling hefur gagnrýnt SA harðlega vegna málsins og lýst áhyggjum af því að samtökin taki sér stöðu með hótelstjóranum. „Efling mótmælir því harðlega að SA styðji fyrirtæki í því að koma sér hjá greiðslu umsaminna hækkana og þar með efndum Lífskjarasamnings,“ segir í bréfi sem Efling sendi SA þann 20. maí. „Sú spurning vaknar hvort Samtökin telji efndir á Lífskjarasamningnum valkvæðar og háðar vilja eða hentugleika, sem aftur vekur upp stórar og alvarlegar spurningar um traust milli aðila og ásetning að baki kjarasamningsgerð.“ Þá hefur Alþýðusamband íslands „harma[ð] viðbrögð þeirra atvinnurekenda sem í kjölfar nýgerðra kjarasamninga hafa gripið til uppsagna á launakjörum starfsmanna sinna að sögn vegna þess kostnaðarauka sem kemur til vegna gildistöku samninganna“.
Haft er Sólveigu Önnu Jónsdóttur, formanni Eflingar, í tilkynningu frá stéttarfélaginu að SA sé að „kóa með verstu sort af kapítalista“. Um helgina birti félagið heilsíðuauglýsingu í Fréttablaðinu þar sem launafólk er hvatt til að hafa samband ef kjör þess hafa verið rýrð með einhverjum hætti eftir að kjarasamningar tóku gildi.
Athugasemdir