Undanfarin ár hef ég verið að rannsaka hatursfulla orðræðu íhaldssamra þjóðernissinna gegn fjölmenningu, gamla ofbeldisfulla hugmyndafræði sem færist nú í aukana á Íslandi og í Evrópu. Hugmyndafræðin er eitt helsta vígi hvítra karlmanna sem hafa engan áhuga á að missa þau alræðistök sem hvíti maðurinn hefur haft á öllu öðru í fleiri aldir með tilheyrandi forréttindum. Með því að rannsaka þetta hef ég séð ákveðið hegðunarmunstur sem fylgir hugmyndafræðinni og hægri-popúlisma um alla Evrópu.
Vegna þess einræðisvalds og yfirburða sem menn sem aðhyllast þessa hugmyndafræði telja sig hafa rétt á, hafa þeir í síauknum mæli mótmælt tilraunum ýmissra samfélagshópa til mannréttinda og samfélagsjöfnuðar. Þessir menn mótmæla gjarnan réttindum hinsegin fólks, umhverfisverndarsinna, fatlaðra og feminista og grunnurinn að því liggur í því afturhaldi sem evrópsk íhaldsmenning hefur byggst á þar sem réttindi og rödd þessara hópa voru lítil eða engin. T.a.m. er hin 16 ára gamla Greta Thunberg sem leiðir nú baráttuna gegn loftlagsbreytingum í Evrópu á milli tannanna hjá íhaldsömum þjóðernissinnum. Oft eru þessir menn því beðnir um að snúa frá 19. öldinni og til þeirrar 21. því þetta eru úreltar hugmyndir líkt og margt annað sem er aldagamalt. Enn í dag árið 2019 er þó verið að berjast í þessum málefnum, gegn rasisma, gegn misræmis í kjaramálum milli kynja, gegn kynferðislegri áreitni, gegn fordómum í garð fatlaðra og útlendinga o.s.frv. og það er mikilvægt og þarft. Þessi mál haldast öll í hendur vegna þess að öll þessi hegðun er innifalin í hinni gömlu menningu, þeirri menningu sem karlmenn hafa alist upp við og sumir karlmenn hafa þróað með sér staðfastlega þá ranghugmynd að þeir eigi rétt á henni, með fyrrgreindum afleiðingum. Þar kemur réttlætingin fyrir slíkri hegðun sem byggist á gömlu afturhaldsmenningunni. Afleiðingar sem verða svo til þegar menn sem aðhyllast íhaldið komast í valdastöður eru svo skaðleg okkur öllum, líka karlmönnum og líka þeim sem trúa á íhaldið. Það er af því að íhaldsmenn í valdastöðum eiga það til að brjóta eða beygja lög til þess að viðhalda völdum sínum og forréttindastöðu í kerfinu og það bitnar alltaf á einhverjum öðrum sem á það síst skilið og oft karlmönnum líka. Klaustursmálið minnir okkur á að virðingin fyrir hópum sem gömul venja er að kúga er lítil eða engin innan þessarar hugmyndafræði.
Samtökin Vakur styðja þessa hugmyndafræði og ætla að bjóða íhaldsmanni að nafni Douglas Murray til fyrirlesturs í Hörpu tónleikahúss næsta fimmtudag. Þetta eru sömu samtökin og ætluðu sér að halda námskeið um meðferð skotvopna til að „verja sig“ fyrir síauknum fjölda innflytjenda á Íslandi. Þetta eru sömu samtökin og töluðu svo um í þessum mánuði að „Íslendingar væru að safna vopnum og æfa sig með meðferð þeirra“ í sama tilgangi.
Hvers konar vopn samtökin tala um að verið sé að safna veit líklega enginn utan samtakanna en víst er að send hefur verið tilkynning til lögreglunnar vegna þessa. Stjórn Hörpu hefur sent út þau skilaboð að hún mun ekki „taka sér dagskrárgerðar- eða ritskoðunarvald þegar kemur að viðburðum þriðja aðila“. Viðburðurinn á fimmtudaginn stendur semsé.
Nú er fordæmi fyrir því að úthýsa viðburðum Vakurs líkt og Grand Hótel tók ákvörðun um gagnvart námskeiði Vakurs í vopnaburði um daginn. Það má því segja að komið hafi verið í veg fyrir viðburð sem hefði haft skaðleg áhrif á íslenskt samfélag og aukið möguleika á ofbeldi. Hatursorðræðan sem samtökin hafa einnig verið dugleg að flytja til landsins, menn eins og Tommy Robinson og Robert Spencer, gerir það að verkum að færa má rök fyrir því að skaðlegt sé að bjóða henni til landsins á forsendum tjáningarfrelsis þar sem þetta eru einstaklingar sem hafa sitt lifibrauð af því að selja ótta og hatur í garð fólks. Persónuleg reynsla mín af tveggja ára samtali við Vakur í þeim tilgangi að afstýra ranghugmyndum og leiða fólkið þar á braut friðar, leiðir í ljós að þeir hlusta einungis á þann áróður sem þeir hafa nú þegar samþykkt sjálfir, sama hversu mikið reynt er að sýna fram á tvískinnung og hræsni í málflutningnum. Ekkert situr eftir nema hatrið, rök er ekki að finna. Því tel ég ólíklegt að hægt verði að mæta á fyrirlesturinn í þeim tilgangi að reyna að leiðrétta ranghugmyndir.
Ekki er við öðru að búast með innflutningi enn eins talsmanns hatursorðræðu á vegum samtakanna og því kalla ég eftir því sem varaborgarfulltrúi að Harpa endurskoði afstöðu sína. Kannski getum við ekki stöðvað fyrirlestur Douglas Murray en við getum sameinað mannréttindabaráttuhópa landsins og almennt sagt nei við þessari hatursfullu hugmyndafræði.
Höfundur er varaborgarfulltrúi Sósíalistaflokksins í Reykjavík.
Athugasemdir