Mig vantar ný gleraugu, ég þarf að fara til tannlæknis og hef ekki endurnýjað fataskápinn í að verða tvö ár. Svo væri ekki verra að fara til sjúkraþjálfara, af því öxlin er ekki ennþá orðin almennileg eftir beinbrotið í hittifyrra. En ég er ekki að fara að gera neitt af þessu strax. Því allt kostar þetta peninga og af þeim á ég ekki nóg. Ekki nóg fyrir hluti sem ég get svo einfaldlega frestað, frestað þangað til ég dett í lukkupottinn.
Ég tek fram að þetta er ekkert neyðarástand. Öxlin er ágæt, hún er bara ekki 100 prósent, kannski svona 98 prósent, ég get ekki lyft hægri hendinni alveg jafn hátt upp og þeirri vinstri. Ég er heldur ekki með neina tannpínu og sé ágætlega án gleraugna, notaði þau raunar aldrei nema við ákveðnar aðstæður til að byrja með. Og það er nóg af fötum í skápnum, vissulega mörg slitin og ég næ ekki alveg að tolla í tískunni eða klæða mig akkúrat eins og ég vil, en ég er alveg nokkrum árum frá því að fullkomna umrenningslúkkið.
Ég gæti talið sitthvað fleira smálegt til – en þið skiljið hvað ég er að fara. Við frestum hlutum flest, við þessi sem eigum lítið af pening. Ekki af kæruleysi eða hirðuleysi eða sinnuleysi, nei, heldur af því þetta er eitthvað sem við getum frestað, ólíkt leigunni og Vísanu og skuldunum og því að borða og nærast. Og jú, við eyðum öll peningum stundum í eitthvað sem við gætum sleppt, hvort sem það er bjór eða bíómiðar eða kaffi eða eitthvað annað, ekki bara af því við viljum halda geðheilsunni heldur líka af því við viljum lifa fyrir eitthvað annað en bara blankheitin.
Glæpsamleg fátækt
„Fremdu glæp og sjáðu hvernig heimurinn allur verður úr gleri.“
Þegar ég las þessi orð Emerson fyrst fannst mér þau með með betri rökum fyrir heiðarleika sem ég hafði lesið, fyrir utan þau mórölsku; það er bara svo mikið vesen að vera glæpamaður. Maður þarf að muna lygina, kunna að fela sig og fela slóðina. Flestar glæpagátur leysast á endanum af því glæpóninn gerir einhver kjánaleg mistök og ef við hötum skúrkinn ekki þeim mun meira þá öskrum við á bókina eða skjáinn: „Hvernig gastu verið svona mikill bjáni?“
„Ég er miðstéttarstrákur sem menntaði mig til fátæktar“
En við gerum öll ótal heimskuleg mistök á hverjum degi. Leyfum erlendum og innlendum stórfyrirtækjum að njósna um okkur dag og nótt og hjálpum þeim meira að segja við það, segjumst svo hafa áhyggjur af þróuninni á meðvituðum hátíðarstundum. Við komumst bara upp með þetta á meðan við höfum nógu hreina samvisku. Já, og erum vonandi svo heppin að búa ekki í alltof miklu alræðisríki.
Flest höfum við einfaldlega efni á mistökum, við hræðumst þau en það gerist sjaldnast neitt skelfilegt þegar við gerum mistök. Þangað til þú fremur glæp, glæp sem virðist mögulega mjög auðvelt að halda leyndum fyrir heiminum – þú þarft bara að passa þig á að gera ekki einhver heimskuleg mistök. En við gerum alltaf einhver heimskuleg mistök á endanum, þau eru hluti af því að vera manneskja í hversdegi þar sem maður verður stundum hættulega kærulaus eða æstur eða bara annars hugar.
Þegar ég hugsa um þessa setningu núna, löngu síðar, þá átta ég mig á að mér finnst ég búa í miklu meiri glerheimi – og samt er sakaskráin ennþá hrein. En ég er blankur og hef verið lengi og finn betur og betur að þessi regla gildir ekkert síður um mig, þau okkur sem eru með lág og ótrygg laun, þau okkar sem hafa ekki efni á lúxus á borð við almennilegar tryggingar og eiga engan varasjóð ef einhver alvarleg óhöpp henda. Ef ég brotna illa við næstu hrösun eða ef ég fæ skelfilega tannpínu eða ef sjónin væri það slæm að brotin gleraugu jafngiltu því að verða óvinnufær.
Að öllu þessu sögðu er rétt að halda því til haga að ég er Íslendingur úr miðstétt sem er búinn að mennta sig til fátæktar, ég hef alveg mitt öryggisnet ef allt fer á versta veg. Það kostar vissulega óþægileg símtöl sem þú svitnar nokkra sólarhringa yfir áður en þú hringir, en ég hef þó það. Og ég get alltaf farið heim og farið á einhvers konar vertíð, sem Íslendingur fæddur í miðstétt er ég svo heppinn að geta venjulega reddað mér.
En prófum að máta okkur við alvöru fátækrahverfi, þar sem foreldrarnir og öll þín skyldmenni eru alveg jafn blönk og þú. Heim þar sem minnstu áföll geta sett alla þína tilveru í uppnám. Í slíkum heimi verður skyndilega afskaplega lítill munur á fátækt og glæpum – hvort tveggja er álíka ótrygg tilvera og svo verðurðu bara að meta hvar leiðin til betra lífs liggur, menntaveginn eða glæpaveginn. Og allar Hollywood-myndir um gettóin segja okkur sömu sögu; ef þú stenst bara freistinguna og allt blingið sem kókaínbaróninn í hverfinu veifar framan í þig þá áttu pottþétt eftir að komast í gegnum læknisfræði og verða ríkur og virtur heilaskurðlæknir.
„Fátækt er ekki orð sem miðstéttarstrákur sem ólst upp í virðulegri raðhúsalengju á Akureyri á neitt með að nota“
En auðvitað endar þetta einhvern veginn öðruvísi. Þú að mótmæla því á Austurvelli að þeir vilji senda þig aftur heim í gettóið, eða bara ódramatíska útgáfan, þú að þræla þér út í skelfilega illa borguðum störfum sem duga samt sjaldnast fyrir leigunni og helstu nauðsynjum, þar sem minnstu áföll þýða að þú þarft að leita á náðir kókaínbarónsfrændans á endanum, samt sem áður. Hefðir betur gert það löngu fyrr. Gerir það samt líklega ekki, við erum nefnilega flest svo andskoti heiðarleg. Að minnsta kosti við þessi síblönku, ef þú átt nægan pening geturðu alltaf borgað öll áföll og klaufamistök í burtu og átt vini á réttum stöðum. Heimurinn er nefnilega bara úr gleri ef þú hefur ekki efni á bestu lögfræðingunum.
Að mennta sig til fátæktar
Hér er rétt að koma með játningu: allt framangreint virðist persónulegt en er það ekki. Þannig virka pistlaskrif oft, þetta er einfalt trikk sem virkar samt furðuvel: segðu örlítið frá sjálfum þér til að setja ákveðna hluti í samhengi, til að segja dæmisögu – og þótt lesandanum finnist stundum nánast að þú hafir farið með honum á trúnó þá passar maður samt vel að halda sér til baka og að lesandinn fái ekki að vita neitt um mann nema eitthvað afskaplega almennt og sammannlegt, maður hleypir samt engum of nálægt sér til að halda blaðamannakúlinu.
Ég finn hins vegar að það er ekki að virka núna. Ég kemst ekki fram hjá spurningu allra sæmilega glöggra lesenda; „af hverju í andskotanum er hann svona blankur?“ Og mögulega er rétt að segja ykkur bara ástæðuna, ekki af því það sé efni í aðra dæmisögu, heldur frekar af því við þurfum að kortleggja betur fátækt á Íslandi og þetta er mögulega saga sem vantar í það safn.
Eins og ég sagði áðan, ég er miðstéttarstrákur sem menntaði mig til fátæktar. Ég er samt ekki beint af miðstéttarættum, það er frekar að hin hefðbundna íslenska fátækt hafi hlaupið yfir eina eða tvær kynslóðir. Ég er örverpi og missti því af baslinu áður en foreldrarnir voru komnir í öruggt húsaskjól og sögurnar af öfum og ömmum og kartöflugörðum og pínulitlum húsum og tíu barna fjölskyldum hljóma meira eins og skáldskapur en raunveruleiki. Af því ég er fæddur beint inn í framfarirnar miðjar. Þegar næsta kynslóð hafði það alltaf töluvert betra og fátæklingar síðustu aldamóta voru orðin miðstétt næstu aldamóta. En núna er þetta að snúast við og miðstétt aldamótanna 2000 verða fátæklingar eftir hundrað ár. Við erum það sum nú þegar. Nánast.
Afsakið. Bæði að ég skyldi detta aftur í að segja ykkur dæmisögur og að ég skyldi nota f-orðið. Fátækt. Fátækt er með lögheimili í gettóinu, fátækt er hinir. Fátækt er ekki orð sem miðstéttarstrákur sem ólst upp í virðulegri raðhúsalengju á Akureyri á neitt með að nota.
„Þú ert að drekka bjór, þá geturðu ekki verið fátækur“
Ég er að læra að nota f-orðið um sjálfan mig. Það gengur ekkert rosalega vel. Í fyrsta skipti sem ég notaði það um sjálfan mig á bar, í samræðum við ókunnuga, var mér – og kunningja mínum, sem var ennþá fátækari – bent á erfðasyndina. „Þú ert að drekka bjór, þá geturðu ekki verið fátækur.“ Til að afsaka mig þá bý ég í Tékklandi og bjórinn kostar heilan 200 kall á venjulegum bar. En samt, við vorum að leyfa okkur eitthvað. Alvöru fátækt fólk borðar í mesta lagi núðlusúpur og drekkur eingöngu rigningarvatn, það vita allir.
Svo var ég að klára að gera skattskýrsluna mína. Þegar maður er einyrki fylgir því töluverð vinna, maður þarf að reikna saman laun og kostnað, safna saman ársskammti af kvittunum og stimpla þær inn í tölvuna. Þetta er frústrerandi en líka pínu gaman, maður man eftir margra mánaða gömlum flugferðum eða búðarferðum þar sem maður keypti eitthvað, kvittanirnar verða eins og gluggatjöld þar sem maður hengir minningar ársins á. En á endanum koma samt bara nokkrar tölur sem maður þarf að slá inn hjá skattstjóra. Ég á pínu erfitt með að horfa á þessar tölur, segja þær upphátt. Er kominn í ágætis æfingu í að horfa á þessar tölur blindum augum, kópí-peista þær í rétta reiti og gleyma svo með hraði.
En ég er þó allavega fyrir ofan hundraðþúsundkall á mánuði. Það er að segja áður en ég reikna kostnaðinn inn, með kostnaðinum er ég undir hundraðþúsundkallinum. Það er held ég alveg örugglega fátækt, eftir öllum mælikvörðum þessarar heimsálfu.
Skógarferð
Þetta byrjaði auðvitað sakleysislega. Göngutúr í Kjarnaskógi rétt hjá Akureyri, að ákveða hvað ég ætlaði að verða þegar ég yrði stór. Þetta var ekki ákvörðun tekin í flýti, hún hafði verið að malla í mér og kjarnaðist einhvern veginn þarna (afsakið ódýran orðaleikinn, þetta var óvart!). En hún var einhvern veginn svona; ég vissi að ég ætlaði að verða rithöfundur, en fannst ég ekki hafa nóga lífsreynslu. Lausnin: bókmenntafræði og svo blaðamennska og kennslufræði og ritlist og vinnur á einhverjum tímapunkti í öllu þessu, launaðar og ólaunaðar eftir atvikum.
Og þótt ég hafi verið ungur og passlega naívur var ég ekki svo vitlaus að vita ekki að þetta yrði hark, ekki bara þetta dæmigerða námsmannahark heldur hark miklu lengur en það. Ég gleymdi bara að gera ráð fyrir góðæri og hruni og síversnandi andverðleikasamfélagi og deyjandi fjölmiðlum og öllu því.
Sem og öllum þeim skrítnu beygjum sem lífið tekur. Eins og til dæmis þessari: að hafa loksins komist að hjá blaðinu með bestu menningarumfjöllunina, rétt tímanlega til þess að vera farinn að skrifa reglulega fjölmiðlapistla þegar Davíð Oddsson var ráðinn ritstjóri.
Þá trúði maður samt ennþá að andverðleikasamfélag hrunsins væri á undanhaldi og að heilindi og hæfileikar myndu skila manni einhverju á endanum. Nokkrum árum seinna, árum sem voru sambland af blaðamennskuharki og launavinnu, þá flúði ég loks land. Hafði gert það oft áður – en aldrei lengur en vetur í senn. Átti alltaf einhverju ólokið heima, námi eða einhverjum misjafnlega óskýrum markmiðum.
„Fyrst fóru prentararnir, svo fóru listamennirnir, næst fóru blaðamennirnir – þið gætuð öll orðið næst“
Og eftir ár við nám í verðandi Brexitlandi flúði ég aftur, fann fyrir Brexit í öllum vonda matnum og vonda bjórnum, og fór aftur á meginlandið. Því þótt þeir tali ekki ensku sem móðurmál þar þá skil ég þá samt betur. Og einhvern veginn æxluðust hlutirnir, æxluðust þannig að ég var kominn aftur í frílans á meðan ég var að leita mér að vinnu og komst að þeirri niðurstöðu að frílansið væri kannski málið.
Möguleikarnir
Þetta voru nefnilega hinir möguleikarnir:
A: Fara heim og finna sæmilega borgaða vinnu sem ég hata, eða mun læra að hata á endanum.
B: Fara heim og vinna á ritstjórn hjá einhverjum miðli. En þótt menningardeild Moggans í gamla daga hafi verið frábær (að minnsta kosti eftir á að hyggja) þá er skammlíf reynsla á öðrum miðlum meira svona: þú ert framleiðsluvél smellvænna frétta og þeir staðir sem maður getur stundað alvöru blaðamennsku eftir eigin höfði og hugsjónum verða sífellt færri. Þá er heiðarlegra að grafa heiðarlega skurði. Eða fara í frílansið, þar sem þú færð meira sjálfræði en auðvitað miklu verri laun á móti.
C: Fá mér vinnu hérna úti – og vera í nákvæmlega stöðu og heima, nema í öðru landi. Jafnvel verri, af því ég tala ekki málið og hef ekki sambönd og er því alltaf undirsettur að einhverju leyti.
D: Fara heim og finna vinnu sem ég hata ekki. Sem væri fínt ef það væri draumavinnan. En líklega yrði það bara eitthvað næs, staður með ágætis vinnumóral þar sem maður væri að gera sæmilegt gagn. Og það yrði kannski ágætt en ég veit að ég skulda sjálfum mér það að elta drauminn aðeins lengur, svo ég endi ekki sem bitri gaurinn í notalegu vinnunni sem enginn fattar almennilega af hverju er svona bitur.
Og við fyrstu sýn hljómaði þetta eins og gott plan: finna frílansvinnu á Íslandi, í blaðamennsku eða annarri textavinnu (þýðingum, yfirlestri og öðru slíku) og búa áfram hérna í Prag. Þar sem ég þarf svona einn þriðja af því sem ég þarf á Íslandi til að lifa af. Skapa mér þannig mín eigin ritlaun, allavega þangað til ritlaunanefndin hættir að hafna mér, eiga drjúgan tíma afgangs fyrir eigin skrif, notfæra mér það að hafa fæðst í dýru landi en búa í ódýru.
Þetta plan er vísir að nýja Íslandi – allir þeir sem fluttu land til þess að vinna í einhverju öðru en nýjasta gullæðinu. Fyrst fóru prentararnir, svo fóru listamennirnir, næst fóru blaðamennirnir – þið gætuð öll orðið næst.
Allavega, þetta hljómaði eins og gott plan – og kannski er það það, kannski gengur það upp á endanum. En Ísland er kunningjasamfélag. Það snýst um hverja þú þekkir og ekki bara það: hverja þú hittir í gær eða fyrradag, ekki hverja þú hittir í fyrra. Það væri einfaldlega margfalt auðveldara að finna frílansvinnu ef ég byggi enn á Íslandi – en þá þyrfti ég líka margfalt meira. Eða eins og Arnar vinur minn, sem flutti þó bara út á land, orðaði það: „Búandi úti á landi og verandi að standa í stússi finnur maður svo sterkt fyrir því hvað hið óformlega kunningjasamfélag Íslands býður upp á mikið ójafnrétti. Það er ákveðið fólk hjá ákveðnum stofnunum sem til dæmis allir vita að svara ekki tölvupóstum. Allir vita að maður verður að „hitta á það“, sem er hægara sagt en gert héðan frá Þingeyri. Nú er ég ekki í hverri viku að „hitta á“ fólk sem skiptir máli í mínum bransa á kynningum, fyrirlestrum eða kokteilboðum.“
„Þess vegna er ég hér – og veit ekki einu sinni hvort maður á afturkvæmt til Íslands“
Hérna úti hittir maður alveg fólk og kemst jafnvel stöku sinnum í kokteilboð. En þetta er bara heimurinn sem ég bý í, ekki heimurinn sem ég vinn í – þetta eru ekki kokteilboðin sem ég er að fara að „networka“ í. Og ef þú heldur að það skipti ekki máli að networka til að fá frílansvinnu þá ertu einfaldlega það vel tengdur frá barnæsku að þú tekur ekki einu sinni eftir því. Og þess vegna er ég hér – og veit ekki einu sinni hvort maður á afturkvæmt til Íslands, þegar fólk er að borga meira fyrir að leigja gáma heldur en ég borgaði síðast í húsaleigu þegar ég bjó síðast í Reykjavík, fyrir þó ekki nema fimm árum.
Og einmitt hér er ég núna. Með plan sem er ekki að virka en gæti mögulega verið alveg við það að virka, kannski er ég alveg að fara að finna nýja matarholu og mun sitja hérna eftir fimm ár að segja ykkur að þetta plan hafi hjálpað mér að skrifa tvær skáldsögur, ljóðabók og kvikmyndahandrit. Og kannski sit ég hérna eftir fimm ár í nákvæmlega sama harkinu og bölva því að hafa ekki bara farið heim að vinna í túrismanum áður en útlendingarnir gáfust endanlega upp á okkur.
Ég veit það ekki, við vitum það fæst. Íslenska hagkerfið er risastórt happdrætti þar sem allt snýst um að vera af réttu kynslóðinni, kannski bara rétta árgangnum. Já, eða úr réttu fjölskyldunni. Þá vinnurðu alltaf.
En þetta er ekki keppni, eða ætti ekki að vera það. Við upplifum þetta samt oft dálítið þannig, keppnisskapið á það til að bera fegurðina ofurliði. En hérna eru slæmu og góðu fréttirnar: þú verður aldrei fátækastur og þú verður aldrei ríkastur. Og ef þú nærð því áttu aldrei eftir að viðurkenna það. Þess vegna erum við öll úr millistétt og göngumst ekki við neinu öðru.
Við ólumst flest upp við alls konar hugmyndir, alls konar gildi. Kristileg gildi eða gildi sem snerust um dugnað eða mennta sig eða að sinna sínu vel. Mögulega var smá búddískum karmahugmyndum troðið upp á mann í leiðinni, til að maður hegðaði sér nú almennilega. Þetta eru ekkert slæm gildi, ef þau bara skiluðu einhverju. Maður þráir heim sem er aðeins minna blindur, heim sem snýst ekki um eintómar tilviljanir.
Kannski var ekkert af þessu tilviljun samt. Þetta kjarnaðist mér jú allt saman í Kjarnaskógi, skóginum sem afi minn, ljóðskáldið, garðyrkjumaðurinn, kartöflubóndinn og leikfimikennarinn, gróðursetti ásamt fleiri góðum mönnum. Hann lifði í framförunum miðjum, hann hefði getað sagt mér að það taki tíma fyrir alvöru tré að vaxa, að við lifum stundum ekki nógu lengi til þess að sjá hvað örfá fræ fá áorkað. Þessu langar mig að trúa, stundum trúi ég því. En ég veit líka að meðal forfeðra okkar má finna iðnjöfra og nýlenduherra og þeir eiga jafnmikinn þátt í öllum framförum 19. og 20. aldarinnar, en ólíkt flestum ljóðskáldum, garðyrkjumönnum, kartöflubóndum og leikfimikennurum, þá gætu þeirra framfarir endað með ótímabærum heimsendi. En svo var afi víst líka Framsóknarmaður, þannig að við berum öll okkar ábyrgð.
Athugasemdir