Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, hefur sent fjölmiðlum myndir af fjögurra ára stúlku sem fæddist á 23. viku meðgöngu en er í dag fjögurra ára gömul. Tekur Inga fram að myndirnar séu sendar með vitund og vilja foreldranna. Fram kemur í tölvupósti frá móður stúlkunnar að stúlkan sé „fullkomlega heilbrigð“ og „glöð og ánægð með lífið“.
Eins og Stundin fjallaði um í gær vilja þingmenn Miðflokksins og Flokks fólksins þrengja verulega réttinn til að gangast undir þungunarrof frá því sem nú er. Þegar frumvarp heilbrigðisráðherra til laga um þungunarrof var afgreitt úr annarri umræðu greiddu Inga Sæland, Guðmundur Ingi Kristinsson og Karl Gauti Hjaltason atkvæði með breytingartillögu þess efnis að heimild til þungunarrofs miði við aðeins 12 vikur „nema fyrir hendi séu ótvíræðar læknisfræðilegar ástæður og lífi og heilsu konunnar sé stefnt í meiri hættu með lengri meðgöngu og/eða fæðingu“. Ef slík breyting næði fram að ganga má ráða, miðað við opinberar tölur um fóstureyðingar, að á hverju ári yrðu tugir kvenna látnir ganga með og fæða barn gegn vilja sínum. Slík kvöð yrði óháð félagslegum aðstæðum og lögð á konur þótt ólétta stafaði til dæmis af nauðgun eða sifjaspelli. Þótt barn hefði greinst með alvarlega fötlun mætti kona ekki gangast undir þungunarrof nema ef ljóst væri að áframhaldandi þungun stefndi lífi hennar í hættu eða fóstur teldist ekki lífvænlegt til frambúðar.
„Vegna fóstureyðingarfrumvarpsins sem nú býður atkvæðagreiðslu Alþingis, sendi ég ykkur þessar myndir með vitund og vilja foreldra þessarar litlu stúlku,“ segir í tölvupóstinum sem Inga Sæland sendi öllum fjölmiðlum í kvöld. Í viðhengi eru sex myndir af stúlkunni, bæði nýjar myndir og af henni nýfæddri.
Athugasemdir