Hæstvirtu ráðamenn Íslands
Ég finn mig knúna til að skrifa ykkur vegna umönnunar við aldraða hér á landi. Oft hafa þessi mál borið á góma en einhvern veginn vill maður ekki trúa því að raunin sé sú sem hún er. Það er ekki fyrr en foreldrar mínir lenda í kerfinu vegna öldrunar að ég sé með eigin augum hve skelfilega illa er búið að þessu ágæta fólki, fólkinu sem ól okkur. Sögu móður minnar sálugu og föður míns sáluga ætla ég ekki að rekja hér. Ég gerði það á sínum tíma við öldrunarþjónustu og á öðrum vettvangi, fyrir daufum eyrum. Móðir mín og faðir voru heppin að eiga sex „frek“ börn sem gengu eftir því að hlutirnir væru gerðir.
Mín mál æxluðust svo við starfslok að ég fór til Danmerkur og var þar í nokkra mánuði, nánar tiltekið á Norður-Jótlandi. Þar hafði ég dvalarstað í miðjum þjónustukjarna en þar er meðal annars að finna barnaheimili og elliheimili. Flestir íbúar í húsalengjunni sem ég dvaldi í eru komnir vel við aldur, búa í litlum íbúðum og fá mikla hjálp heim. Alla morgna sá ég hóp kvenna streyma um hverfið og hverfa inn í húsin. Konurnar sá ég svo aftur koma um hádegi og síðan á kvöldin. Sumir sem þurftu meiri umönnun fengu fleiri heimsóknir kvennanna. Oft sá ég þetta fallega gamla fólk rölta utandyra með sína göngugrind. Í augum þeirra og andliti öllu er gleði og fólkið er „hreint“, þ.e.a.s. það fær líklega að fara í bað oftar en einu sinni í viku. Vikulega kemur annað teymi og þrífur hjá þeim eldri borgurum sem þurfa slíka aðstoð. Samanburðurinn sem ég sá þarna við Ísland er sláandi, gerir mann bæði glaðan og dapran í senn.

Nú nýverið var ég að skoða OECD-skýrslu um útgjöld til öldrunarmála og ég get hreinlega ekki komið orðum að því hvernig mér líður yfir þessari útkomu. Þó kemur hún mér ekki á óvart, þar sem ég hef fylgst með nokkuð mörgum öldnum heiðursborgurum og nú á þessari stundu liggur merk og góð kona banaleguna vegna þess að henni var ekki sinnt sem skyldi og hún hefur þurft að líða vegna þess!
Því spyr ég ykkur, ágætu ráðamenn þjóðarinnar. Er þetta sæmandi landi og þjóð? Ætti ekki að vera auðvelt að kynna sér hvernig hin Norðurlöndin standa að þessum málum? Eigum við ekki að hugsa vel um þá sem ólu okkur? Eigum við ekki að bæta þetta ástand, strax?
Skrifað í Mosfellsbæ að morgni 6. maí 2019
Virðingarfyllst,
Lísbet Grímsdóttir
Athugasemdir