Gestir á fundi Sjálfstæðismanna um þriðja orkupakkann höfðu áhyggjur af bakpoka sem hælisleitandi hafði meðferðis. Hringt var í lögregluna, lögreglulið kom sér fyrir við Kópavogskirkju og ráðherrar fóru „ákveðna flóttaleið“ út af fundinum.
Þetta kemur fram í viðtali við Sigurð Sigurbjörnsson, formann Sjálfstæðisfélagsins í Kópavogi, í frétt á vef Hringbrautar. „Það var líka ógnandi eins og einhver hafði á orði eftir fundinn, hvað hefði getað verið í þessum bakpoka,“ segir hann í viðtalinu.
Stundin hafði samband við Sigurð í von um frekari skýringar. Hann gefur lítið fyrir frétt Hringbrautar og segir að orð sín hafi verið tekin úr samhengi.
„Ég hef ekkert á móti hælisleitendum, en það kemur þessu ekki við. Þeir áttu ekki erindi á þennan fund. Staða þeirra er veik þótt hún sé ekki verri á Íslandi en víða annars staðar. Ég held að það þurfi að vinna hraðar og betur að þessum málum hér á landi, en við skulum samt hafa í huga að gagnaöflun er erfið því hælisleitendurnir koma oft með fölsuð skilríki,“ segir hann.
„Ég öfunda ekki hælisleitendur og sem betur fer hefur maður aldrei þurft að vera í þeirra sporum. En hvað eru Íslendingar að hugsa sem draga þá sem einhverja leiksýningu inn á fundi til að vera með læti? Er ekki Rauði krossinn að vinna alveg ágætt starf fyrir hælisleitendur?“
„Hefurðu heyrt um einhvern Íslending
með bakpoka sem hafi sprengt sig upp?“
Segir fólk hafa orðið hrætt
Aðspurður hvers vegna fólk hafi haft áhyggjur af því að manneskja væri með bakpoka segir Sigurður:
„Menn hugsa ýmsa hluti og það fór slatti af fólki út úr salnum þegar þetta gerðist. Fólk hafði áhyggjur af ástandinu sem myndaðist þarna. Það var reynt að fá þá [hælisleitendurna] til að róa sig og þeim bent á að þetta væri hvorki staður né stund til að taka þessa umræðu. Þetta truflaði mannskapinn og fólk varð hrætt. Þessi einstaklingur var eitt, en svo voru hróp og köll annars staðar frá.“
Hann heldur áfram: „Við erum nýbúin að hlusta á fréttir frá Sri Lanka um að ein af sprengjunum hafi komið frá bakpoka. Það gerðist í Boston-maraþoninu fyrir örfáum árum. Ég hugsaði þetta ekki sjálfur. En þetta heyrðist eitthvað aðeins, pískur um þennan bakpoka.“
En heldurðu að sams konar áhyggjur hefðu komið upp ef hvítur Íslendingur væri með bakpoka á fundinum?
„Hefurðu heyrt um einhvern Íslending með bakpoka sem sprengir sig upp?“
Nei, en maður hefur heldur ekki heyrt af hælisleitanda á Íslandi með bakpoka sem sprengir sig upp.
„Nei, en við vitum heldur ekki alltaf hverjir þessir hælisleitendur eru. Á meðan þeir koma með fölsuð skilríki, þá vitum við ekki hverjir þeir eru og þá er ekki hægt að kanna það.“
Anders Breivik þurfti engin fölsuð skilríki... þú skilur hvað ég er að fara?
„Já, ég skil það alveg og þú sérð hvað gerðist á Nýja Sjálandi. Við erum með ofsafengna brjálæðinga sem eru hvítir öfgahægrimenn. Við höfum séð hvernig andúðin og öfgarnar blossa upp í okkar samfélagi miðað við hvernig menn skrifa og orðræðan er.“
Athugasemdir